Sunday, January 30, 2011

Beauty is plain

Móðir mín er vitur kona. Hún sagði mér eitt sinn að „meðan konur þráðu það eitt að vera séðar; vildu karlmenn iðulega sjá.“ Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér, eftir undangengna stúdíu mína á kynþokka, hvað í raun þyki hæfilegt og hvenær er gengið of langt. Hugsa oftar en ekki um orð móður minnar, þegar ég hneppi að mér skyrtunni og velti því fyrir mér hversu flegið hálsmálið má vera.


Ef nektardans getur verið erótískur, sé rétt á spilunum haldið og allir hlutaðeigandi samþykkir; ef kynþokki er þá fólginn í sjálfstrausti og klæðaburður er eins konar búningaleikur sem hæglega getur gefið rétta eða ranga mynd af karakter konunnar; í hverju er kvenleiki þá í raun fólginn?

Móðir mín ræddi í ákveðnu samhengi þegar hún sagði fyrrgreind orð. Tilefnið var kaffibolli eitt síðkvöldið og ég var lifandis löngu orðin fullorðin kona. Samtalið um blómin og býflugurnar löngu flogið hjá og sömuleiðis æskuárin, sem ég eyddi í fullkominni afneitun á þá staðreynd að eitthvað gæti verið til, sem heitir samneyti manns og konu, enda alin upp af sjálfstæðri konu sem bjó einsömul og hitti elskhuga sína þegar dóttir hennar sá ekki til.

Ég var því orðin fullorðin að árum, þegar ég tók að diskótera eðli erótíkur við móður mína og hef aldrei komið að tómum kofanum hjá konunni í þeim efnum. Það var líka hún sem sagði mér einhverju sinni að „enginn mætti nokkru sinni sýna allt, ef tilgangurinn væri sá að halda athygli áhorfandans vakandi.“ Ég kími enn þegar ég hugsa um þá pælinguna og hef reynt að hafa fyrrgreint að leiðarljósi við val á múnderingum gegnum árin.

„Gættu þín, Klara, að galopna aldrei hurðina sem liggur að svefnherberginu. Það sem almúginn vill, er að sjá þig á nærbuxunum einum fata. Þitt hlutverk er aftur á móti að gefa alltaf hæfilega í skyn, án þess að opinbera allt. Mundu að ímyndunaraflið verður líka að næra. “

Móðir mín ræddi í myndlíkingarmáli þarna. Vissulega átti hún ekki við að náin atlot yrði að stunda í algeru myrkri og því síður að ég yrði að gæta þess að elskhugi minn bæri mig aldrei augum á nærbuxunum einum fata. Hún vísaði í þá dyggð, að geta halda ákveðinni reisn í einkalífinu og að geta haldið um leið, innstu hugsunum til haga.

Einhver var það sem sagði að það væru ekki fötin sem menn vilja, heldur það sem þau hylja. Þó það kunni að vera rétt, held ég að móðir mín hafi einnig verið að vísa í freistinguna sem að baki liggur forboðnum ávöxtum. Það sem er augum hulið og utan seilingar, er iðulega lokkandi.

Þótt ótrúlegt megi virðast, hafa foreldrar mínir vinninginn umfram allt annað þegar að fegurðarstúdíum kemur og faðir minn hefur ekki látið sitt eftir liggja gegnum tíðina, en hann hefur ítrekað gildi náttúrulegrar fegurðar æ ofan í æ fyrir mér, sem makaði varaglossi á kinnbeinin, sextán ára að aldri og tróð mér í fatnað sem var engan veginn við hæfi fyrir stúlku á mínum aldri.  

Þó móðir mín hafi kennt mér á listilegan máta, hversu langt er hæfilegt að ganga – var það að sama skapi faðir minn sem sagði mér í raun hverju karlmenn leita eftir, þegar þeir líta konu augum.

Hann smellti því fram eitt kvöldið þegar hann gerði föðurlega athugasemd við klæðaburð minn. Kokhraust svaraði ég karli föður mínum með orðunum „Beauty is pain“ og þóttist með því algerlega hafa rekið gat á manninn. Faðir minn, sem hefur lifað tímana tvenna, hafði hins vegar svar á reiðum höndum og ég tel næsta víst að hann hafi með svari sínu rúllað upp leyndarmálinu að baki því hvað heillar karlmenn í raun þegar hann svaraði og sagði: „Nei, Klara mín. Beauty is plain.“

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment