Wednesday, February 9, 2011

Sannleikurinn gerir yður frjálsa

Ég hef reynt við karlmenn. Og borið ósigur úr býtum. Gert mig að fífli með rósavendi í höndunum, hringt inn í miðja ástarleiki með viðreynslu í huga, skilið eftir ástleitnar orðsendingar á hurðarhúnum sem grunlausar eiginkonur fundu og fleygt fram gersamlega misheppnuðum athugasemdum við þá sem ég ákvað að stíga í vænginn við.

Einu sinni gerðist ég meira að segja svo kræf að segja við karlmann að „sá karlmaður sem mig ekki vildi; væri annað hvort giftur, blindur eða hommi.“


Ofangreint er ekki vænlegt til árangurs.

Einu sinni hringdi ég í frönskukennara í Háskóla Íslands og fékk prófessorinn til að þýða setninguna: „Viltu leika, spurði kötturinn“ – krotaði orðin á blað og festi litla leikfangamús við bleðilinn. Sendi inn um lúguna hjá myndarlegum manni, sem talaði lýtalausa frönsku og mætti svo viðkomandi galvösk á skemmtistað tveimur dögum seinna.

Þrátt fyrir að háskólaprófessorinn hafi hlegið öll þessi lifandis ósköp, varð hið sama því miður ekki sagt um fyrrgreindan, sem kurteisislega brosti að viðleitni minni og lýsti yfir algeru áhugaleysi í sömu andrá og hann hrósaði mér fyrir hugmyndaauðgina.

Ég hef gengið burtu oftar en ég hef tölu á, bein í baki eftir ævintýralega viðleitni á borð við þær sem ég lýsti hér að ofan, niðurlægð eftir framhleypni mína; eitt spurningarmerki yfir þeim eðlisþáttum í sjálfri mér sem gerðu að verkum að ofangreindir karlmenn upplifðu áhugaleysi í minn garð.

Í sömu andrá hef ég þó sparað mér ófáar andvökunætur.

Með svör á reiðum höndum.

Þá hef ég lesið vandlega yfir stefnumótabækur sem ítreka gildi þess að konan bíði þess þolinmóð að maðurinn stígi í vænginn við hana, farið vandlega yfir það sem fór úrskeiðis í viðleitni minni til að vekja áhuga karlmanna á eigin ágæti og velt vöngum yfir því hvaða leið sé vænlegust til árangurs.

Ég er fremur hvatvís manneskja og lítið gefin fyrir eltingaleiki.

Meðan á þeirri tilraunakenndu tómstundaiðju minni að vekja athygli karlmanna á kynþokka mínum hefur staðið, hef ég einnig reynt að iðka ljóstillífun í eldhúsglugganum heima fyrir og vonað heitt og innilega að álitlegt fórnarlamb hnyti um fegurð mína af einskærri aðdáun fyrir framan gluggann minn og andvarpaði sáran af ótta við það eitt að eiga kannski engan séns í hefðardömuna mig.

Síðastnefnd tímabil hafa einkennst af félagslegri einangrun, mikilli depurð og undrun á þeirri staðreynd að það er satt sem Intrum segir. „Ekki gera ekki neitt“ er sannur frasi hjá bölvuðu innheimtufyrirtækinu. Situr sveltandi kráka, fljúgandi fær og allt það er nokkurn veginn rétt. Þeir fiska sem róa. Svakalega geta þessi spakmæli farið í taugarnar á mér. En frasar eru stundum sannir og máltækin hafa sannnarlega eitthvað til sín líka.

Gamall maður sagði mér eitt sinn að „sannur töffari væri sá maður sem þyrði að sýna tilfinningar sínar“. Mér þykir vænt um frasann og fer oft með hann fyrir framan spegilinn. 

Ég ætla að vera töffarinn sem gamli maðurinn talaði um. Reyna við karlmenn af minni alkunnu snilld og taka höfnun eins útkoman hafi fyrirfram verið ákveðin. Ég ætla að lifa lífinu lifandi og láta sem ekkert sé. Detta í lukkupottinn að lokum og hlæja líkt og enginn sé morgundagurinn.

Sannleikurinn gerir yður nefnilega svo frjálsa.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment