Auðvitað bætti ég hressilega í og gott betur í síðasta pistli mínum, sem eflaust hefur slegið margan auðtrúa borgarann gersamlega út af laginu. Ég á ekki Ephemeris og get svo svarið það; ég er löngu hætt að njósna um karlmenn gegnum Þjóðskrá.
En ég laug engu þegar ég sagðist fletta álitlegum sénsum upp gegnum spil.
Ég veit ekki af hverju ég geri þetta.
Hætti með manni um daginn. Geggjaðist alveg um tíma. Auðvitað hélt ég andlitinu út á við. Grét í koddann heima um nokkurra daga skeið, snýtti mér síðan í vasaklút og pantaði tíma hjá talnaspeking. Ég hitti hann stundum þegar mikið liggur við. Talnaspekinginn. Borgaði 6.500 krónur plús kassettu til að heyra manninn segja „þetta er búið“ og andvarpaði sáran.
Munaði engu að ég hefði farið til spákonu í kjölfarið, bara svona rétt til að kanna hvort ekki væri veik von á endurfundum. Einhverju sem gæfi mér von. Örlitlum tebolla jafnvel. Talaði fjálglega við konuna í símann, sem sagði mér fyrir alla muni að taka með mynd, svo hægt yrði að lesa í augun. Stúderaði möguleikann um stund. Gæti ég farið í Kodak? Stolið forsíðumynd af Facebook og látið sem ekkert væri við afgreiðslustúlkuna, jafnvel þó ég væri augljóslega að koma með lélega netupplausn á USB lykli? Myndi afgreiðslustúlkan brosa skilningsrík yfir borðið og hvísla: „ég fór til hennar líka“ og blikka mig? Prenta síðan út myndina, leyndardómsfull á svip, klykkja út með orðunum „gangi þér vel!“ og ég síðan fara til konunnar góðu, sem gæti lesið í augu mannsins gegnum einfeldningslega mynd – sem þar að auki væri stolið af netinu og prentuð út í algerri óþökk fyrrum elskhuga míns?
Gæti konan góða jafnvel sagt mér hvernig best væri að vinna elskhuga minn aftur?
Hver var það aftur sagði að allt væri leyfilegt í ástum og stríði?
Konan sú vildi taka 9.500 krónur fyrir greiðann. Varlegt innsæi mitt sagði mér að fresta tímanum, sem ég á endanum afbókaði. Fór aldrei í búðina góðu til að prenta út prófílmynd, sem ég gleymdi að stela. Maðurinn var nefnilega með sólgleraugu á forsíðumyndinni og því alveg ógerlegt að lesa nokkuð í skapgerðina, nema ef vera kynni að spákonan góða gæti spáð í munnviprur.
Þakkaði mínum sæla fyrir sparnaðinn og bætti mér upp spákonumissinn með pendúldingli.
En ég grét í koddann minn. Kom óbeðin í kaffiboð til vinkvenna, sem eiga Tarot-spil og lesa í kaffibolla. Varð undrandi þegar ein klykkti út með orðunum: „sem ég get svarið það, hér er annar karlmaður“ og fussaði í laumi þegar önnur sagði: „Þú kemst yfir hann.“Velti vöngum yfir veikri von í nokkra daga og um leið, þeim ljúfsára unaði sem óhjákvæmilega fylgir sambandsslitum.
Hugsaði talsvert um orð talnaspekingsins, sem sagði að ekki væri ólíklegt að maðurinn ætti óuppgerðar sakir við fortíðina. Þó ég viti fullvel að flestir íslendingar hafa orðið fyrir skakkaföllum á lífsleiðinni, hljómuðu orðin bara eitthvað svo vel þegar 6.500 króna vinur minn í klukkutíma fór með þau í litlu herberginu, sem angaði af myrru og ókennilegri reykelsisangan.
Huggaði mig um stund við ljúfan róm Nancy Wilson, sem endurtók orðin „Face It Girl, It´s Over“ gegnum youtube og svissaði yfir í soul drottninguna Candi Staton sem listilega öskraði „I Was The Best Thing You Ever Had“ í hátalarana þegar vinkonurnar urðu þreyttar á einstrengingslegri ásókn minni í spilastokka heimilisins.
Dinglaði pendúlnum örlítið meira, skrúfaði að endingu niður í youtube, þurrkaði tárin og tók gleði mína að nýju þegar vinabeiðni frá öðrum karlmanni barst mér í gegnum Facebook. Hringdi samstundis í eina sem er næstum skyggn og bað hana að skerpa á innsæinu, í þeirri von að hún gæti svarað því hvort hér væri kominn nýji maðurinn, sem önnur hafði séð í spilunum um daginn.
Gladdist ósegjanlega þegar hjartaásinn kom upp og setti í brúnirnar þegar í ljós kom að sá hinn sami átti 53 sameiginlega vini, er harðgiftur og þar að auki gamall skólafélagi. Þó ég viti að spilin eru ekki óskeikul, hefði ég hins vegar getað svarið það; ég var þess fullviss að þarna væri nýji laufakóngurinn kominn.
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment