„Which reminds me“ og afsakið að ég skuli grípa til enskunnar í stað þess að sletta á ylhýra, ástkæra.
En síðasti pistill framkallaði minningar sem mér er fremur ljúft að rifja upp. Ég hef gripið til ýmissra ráða til að sjá fjölskyldu minni farborða gegnum tíðina. Skúrað gólf, selt áskriftir og unnið á strippstað. Ekki að slíkt sé í frásögur færandi. Einhverra hluta vegna kem ég mér þó iðulega undan því að ræða feril minn sem barþjónn á nektardansstað, þegar umræðuna ber upp í virðulegum kaffiboðum.
Af hverju veit ég ekki. Starfið var vel launað, hafði engin óþægindi í för með sér og sjálf þurfti ég aldrei að fækka fötum. Öðruvísi var þó farið um dansmeyjarnar, sem mættu fáklæddar til vinnu og seiddu þyrsta viðskiptavini inn í klefana þar sem einkadansinn fór fram.
Ég aftur á móti, eyddi kvöldunum vandlega varin bak við voldugt barborðið, afgreiddi létta drykki og hafði þann starfa að brosa hvað blíðast meðan blæddu sárin. Þeir meiddu skórnir, sem ekkert sérstaklega notarlegt var að klæðast. Strigaskór voru enda bannvara í vinnunni. Tólf sentrimetrar þóttu algert lágmark.
Meðan á ferli mínum sem barþjónn í hjáverkum stóð, var nektardans enn löglegur í henni gömlu Reykjavík og umræðunni um mannsal hafði ekki verið hrundið af stað. Dansmeyjar mátti enn sjá á forsíðum hérlendra tímarita þar sem þær hofmóðugar á svip, röktu sögu sína fyrir lesendum og ítrekuðu að dansinn sá væri listgrein en ekki klám. Á þessum árum hafði ég enn blaðamennsku að atvinnu og gerðist meira að segja svo fræg að taka viðtal við eina sjálf.
Landinn furðaði sig á hvassleitri konunni, sem að mig minnir var austurevrópsk og gallhörð á svip. Ég las þessa undrun úr sölutölum, sem ruku upp úr öllu veldi þegar tölublaðið kom út. Öllum þyrsti að vita meira. Konan vakti verðskuldaða athygli, en hún var með þeim fyrstu sem kom til landsins gagngert í þeim tilgangi að dansa.
Meira að segja ég var hrædd við konuna, sem sat gengt diktafóninum og lét dæluna ganga meðan á viðtalinu stóð. „Art“ sagði hún „is the nature of my dance“ og vanmáttug gat ég ekkert annað en kinkað kolli og hummað fram af mér næstu setningu, sem hefði án efa falið í sér vísun að klámi.
„Art is in my nature, and that is what dancing is“ hélt hún flugbeitt á svip áfram og fíraði í sígarettu, sem enn mátti reykja innandyra í þá daga. Umrætt fékk mig til að varpa upp þeirri spurningu hvort dansinn væri að hennar mati þá erótískur en aldrei klámfenginn.
Viðtalið vakti hjá mér spurningar um eðli erótíkur og gildi kláms.
Ég geri ráð fyrir því að á milli þessa tveggja hugtaka liggi gullin lína, sem auðvelt er að krossa yfir ef nærgætni, metnaður og skarpt innsæi er ekki haft að leiðarljósi. Stúlkan sú arna dansaði á Íslandi um tíma og flaug síðan á vit erlendra ævintýra, eftir vel heppnaða dvöl á íslenskum nektardansstöðum, sem gerðu henni kleift að græða á tá og fingri.
Hvort hún var klámfengin, fékk ég aldrei að vita. Ég sá hana aldrei á sviði.
Ég hef oftar en ekki velt því fyrir mér hvers vegna þessi ágæta kona græddi svo mikið sem raun bar vitni og hvernig fimir fingur hennar fóru eiginlega að því að tæma hvert karlmannsveskið af fætur öðru, án þess að nokkur gæti mótbárum við komið.
Meðan á ferli mínum sem barþjónn í hjáverkum stóð, velti ég því oftlega fyrir mér í hverju raunveruleg erótík er fólgin og hvenær athöfn getur talist vera klámfengin. Ég veit ekki hvers vegna karlmenn borga fyrir það eitt að horfa á fagurlega mótuð kvenmannsbrjóst og því síður hvað er fólgið í dulúðinni að baki einkadansi. Ég veit það eitt, að bogadregnar línur og ávalar þykja eftirsóknarverðar og ætli ég að draga einhvern lærdóm af stelpunum sem dönsuðu á 15 sentimetra hælum hér í den, er sá lærdómur að sama skapi sá; að litlu virðist skipta hvernig konan er vaxin.
Leyndarmálið að baki kynþokka stúlkanna sem dönsuðu hér í den virtist vera sú einfalda staðreynd að allar voru þær söluhæstu „bjóðandi“ en aldrei „biðjandi.“ Árangur þeirra söluhæstu virtist fólginn í framkomu kvennanna, því þær sem seldu mest voru oftar en ekki í góðum holdum og því fór fjarri að þær væru einhverjar fegurðardísir. En þær höfðu yfir sér einhvern ljóma sem gerði það að verkum að karlmenn drógust að þeim eins og flugur að ljósi.
Stúlkurnar sem ég er að segja ykkur frá, fengu mig til að velta vöngum yfir kvenleika og hvort erótík getur verið listfengin, hvenær klám verður óþægilegt og í hverju kynþokki er fólginn. Þegar ég skellti hurðinni á eftir mér eftir þriggja mánaða litríkan feril sem barþjónn í hjáverkum á nektardansstað stóðu þær spurningar eftir; hvort kynlíf geti í sjálfu sér verið listform og hvort sjálfstraust sé einn kynþokkafyllsti eiginleiki sem kona getur höndum um farið.
Ég held að hvoru tveggja sé rétt.
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment