Ein skemmtilegasta umfjöllun um kvenleika sem ég hef hlýtt á, er heimildarþáttur sem ég horfði á fyrir þó nokkrum árum síðan um tískugyðju, sem bjó á Manhattan og átti ægilega ríkan mann. Konan sú var orðin áttræð þegar hún ákvað að arfleiða bandarískt safn að klæðaskáp sínum, enda var sú hin sama hvað þekktust fyrir smekkvísi og kynþokka, skemmtilegan klæðaburð og einstaklega næmt tímaskyn.
Dagskrárgerðarmaðurinn ræddi af lotningu um þessa klóku gyðju, sem hafði aldrei farið með staka flík á flóamarkað, heldur af kostgæfni safnað öllum sínum múnderingum í ægistórt fataherbergi og þarna sat hún, hrímhvít af elli, umkringd loðfeldum og svaraði áleitnum spurningum spyrils um gildi kvenleika og leyndardóma fegurðar.
„Tíska er svo afstæð“ sagði konan og kímdi undir silfurhvítu hárinu. „Að klæðast til kynþokka hefur ekkert með haust- eða vetrarlínur hönnuða að gera, sjáðu til – heldur það hlutverk sem þú vilt taka þér fyrir hendur að hverju sinni. Að vera kynþokkafull er eins og að standa í eins konar hlutverkaleik.“
Ég hef mikið velt þessum orðum fyrir mér og þá helst hvað af þessu sé satt.
„Konur eiga aldrei að klæðast nýjustu tískulínum, nema fatnaðurinn fari þeim því betur“ sagði hún þá einnig „Þær ættu líta á val á klæðnaði sem eins konar hlutverk, sem þær velja sér það kvöldið. Að klæðast kynþokkafullt er eins konar leikur.“ Og með orð gömlu konunnar í huga fór ég því inn í klæðaskáp í gær, tók fram litla skotapilsið og setti í mig tígó. „Skólastelpan“ er sígild. Framundan var kvöld á tjúttinu; ferðalag niður Laugaveginn með fallegum vinkonum og tilheyrandi hlátrasköllum.
Auðvitað fer þetta eftir markhópnum.
Ég yrð að gera upp við mig hvort markið yrði sett á miðaldra menn.
Eða blóðþyrsta skólastráka.
Fór úr nælonsokkunum og mátaði næst „óþekku skrifstofukonuna“ í formi teinóttrar draktar. Synd að ég skuli ekki vera með nægilega sítt hár til að geta stungið blýant í gegnum hárhnútinn.
Dró þykka svarta línu yfir vel máluð augnlokin, meðan ég prófaði þriðju samsetninguna; sjálfa „refynjuna“, sem íklædd svörtu leðri og támjóum pinnahælum, mökkar dimma vindla og dregur grandalausa menn á tálar.
Valdi á endanum „látlausa bóheminn“ í formi kynþokkafulls kjóls sem ég keypti í Barcelona fyrir nokkrum árum síðan. Less is more sagði ég við sjálfa mig; minnug einnar bestu röksemdarfærslu sem ég hef heyrt og móðir mín lét flakka yfir kaffiborðið hér í den; en hún sagði einmitt að fegurstu konurnar væru þær sem kynnu að laða fram eigin styrkleika. „Sjáðu bara senjoríturnar. Þær eru oftar en ekki í yfirþyngd, en engu að síður eru þær að springa úr kynþokka. Þessar konur eru ekkert að fela gallana, nei, þær draga fram styrkleikana þess í stað og leggja áherslu á kvenlegar línur.“
Ekki að ég sé að berjast við aukakíló. En ég er jafn ófullkomin og fólk er flest. Og þar af leiðandi verður mér oft hugsað til orða móður minnar, um leið og ég klæðist hinum fjölbreytilegustu flíkum og velti því þar af leiðandi fyrir mér; hvaða hlutverki ég vill gegna að hverju sinni og með hvaða hætti ég geti helst dregið fram styrkleika mína – áttað mig á því hvað það er sem gerir mig að konu.
Kannski ég kræki í fjaðrakúst og klæðist þernubúning næst þegar ég býð karlmanni upp á kaffibolla heima við. Klæðist hvítum pels, ef ske kynni að mér yrði boðið í göngutúr og andvarpi ljúfan meðan ég dreg upp handskjól og depli augunum tilgerðarlega íklædd doppóttum kjól frá fjórða áratugnum ef vera skyldi að álitlegur séns bjóði mér í bíó. Ég er nefnilega orðin hálf þreytt á því að klæðast þykkbotna skóm, bara vegna þess að Karl Lagerfeld ákvað að sýna slíkt við umrædda haustlínu í París fyrir stuttu og ekki hvarflar að mér að ganga um í fjólubláum siffonkjól, einfaldlega vegna þess að Chanel boðar slíkt á komandi vormánuðum.
Auðvitað getur verið ægilega smart að fylgja tískustraumum, en fylgjandi þeirri heimspeki að kynþokki komi að innan, er ég engu að síður sannfærð um að réttum fatnaði hljóti að fylgja ákveðin líðan, sem getur dregið fram eina helstu kosti hverrar konu og fengið flesta karlmenn til að falla í stafi. Flíspeysan verður af og til að fá að fjúka. Sjálfsöryggi er sexí og sannleikurinn er ekki endilega alltaf sagna bestur. Hver segir enda að hlutverkaleikir þurfi að einskorðast við svefnherbergið ... ?
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment