Saturday, January 8, 2011

Are You Interested?

Ég sótti nám í gluggaútstillingum fyrir einum tíu árum síðan. Í náminu því arna, sem ég lauk reyndar aldrei, lærðist mér eitt og annað um framsetningu á vörum. Nóg til að gera mér grein fyrir undirstöðuatriðum sjónrænnar markaðsfræði, ef hún er þá til.

„Þið hafið þrjár sekúndur til að fanga athygli væntanlegra viðskiptavina,“ hamraði kennarinn viðstöðulaust á og hvatti okkur til að setja upp krassandi útstillingar. „Ykkar hlutverk er að stilla vörunni þannig fram að hún sé áhorfs verð.“

Þannig hljómaði fyrsta lexía. Ég hef mikið velt henni fyrir mér. Fram að þeim tíma, taldi ég næsta víst að nóg væri að búa yfir traustu vöruframboði.

Þessi ágæta kona hélt þá áfram og hafði nú yfir orðin; „Sjái viðskiptavinurinn ekki neitt sem honum líkar, heldur hann ferð sinni áfram að næsta búðarglugga.“

Sjokkeruð hlustaði ég af athygli og velti orðunum milli fingra mér, eilítið örvæntingarfull.

„Ykkar tilgangur er að selja vöru sem viðskiptavinurinn hafði enga hugmynd um að hann vantaði. Fyrr en hann rak augun í útstillinguna ykkar.“

Rétt framsetning, þrívíð innsetning í rými og áhrifamáttur ólíkra hlutfalla var meðal annars það sem ég lærði að meðhöndla meðan á stuttlegri kynningu minni á gluggaútstillingum stóð. Stundum gríp ég í glugga, rifja upp grundvallartækni þess sem ég með sjálfri mér kalla sjónræna markaðsfræði og glugga í tímarit tengd útstillingum, þegar hugmyndir þrýtur.

Öðruvísi er farið um sjálfa mig þegar að mati á vænlegum maka er farið. Þá snúast vopnin í höndum mér og neytandinn, sem ég reyni að höfða til þegar ég gríp í „verk“, verður að mér sjálfri, sem fussar og flissar yfir ótrúlegustu tilboðum sem netið hefur að bjóða.

Meðvituð um áhrifamátt einkamálasíðna sem hafa, ef marka má fyrri pistil minn, tekið stakkaskiptum á undanförnum árum, leita ég því oftar en ekki á náðir rafrænna miðla þegar mig dreymir um félagsskap og upplyftingu á síðkvöldum.

Þessu er ekkert ólíkt farið á hjálparsíðum Facebook, sem allar virðast ilma af álitlegum sénsum og forvitnilegum tækifærum sem bíða mín handan við hornið. Í dag er hægt að fletta gegnum karlmenn eins og ég sitji við katalóg og renni gegnum fjölmarga vonbiðla, sem með ólíkar prófílmyndir, virðast vona það eitt að falla í kramið og komast í gegnum síuna.

Ég hef aðeins gluggað í þann mæta vef – Are You Interersted – á undanförnum misserum. Skráð mig staðfastlega inn, haukfránum augum og hafið leikinn sem miðar að því að krækja í álitlegan maka. Gerst sek um að safna sem flestum „like“ á prófílmynd sem þá verður að vera einkar seiðandi, ef hún á ekki að týnast í hafsjó íðilfagurra kvenna sem brosa blíðan framan í skjáinn og virðast sem ein segja „veldu mig.“

Á síðum Are You Interested, er nefnilega hægt að fletta gegnum heilu doðrantana af álitlegum sénsum, sem eiga þess einan kost að grípa athygli þess er fram hjá flögrar, á 3 sekúndum og falli myndin ekki í kramið, heldur leitin áfram, þar til álitlegum kosti hefur verið landað.

Fékk bréf frá karlmanni, ættuðum frá Puerto Rico um daginn. Prófílmynd mannsins sýndi eins konar geisla (líka sólargeislum) sem streymdu út úr nasaholum mannsins. Hann brosti blíðan á myndinni, vopnaður sólglergaugum. Viðkomandi sendi mér vinabeiðni. Skelkuð á svip, hafnaði ég.

Hef velt því talsvert fyrir mér að hafa samband við nokkra og benda á grundvallarreglur vænlegra útstillinga, nauðsyn þess að skrifa grípandi fyrirsögn og álitlegs myndefnis. Stundum vildi ég óska að mennirnir á þessum mæta vef væru myndarlegri. Fáir þeirra virðast hafa höndum tekið grundvallarreglur sjónrænnar markaðsfræði, því oftar en ekki er stuttleg kynning þeirra svo skelfilega óljós og einkennileg að mig sundlar við það eitt að fletta yfir síðuna.

Am I Interested?

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment