Tuesday, January 4, 2011

Ljúgðu að mér

Ég laug til um þekkingu mína, þegar ég sagðist ekki þekkja einkamálasíður.

Meðan notendur einkamálasíðna gengu enn undir dulnefnum og Þjóðskrá var þykk skræða sem þurfti að fletta gegnum, lifðu alter-egó mín einkar góðu lífi. Ég man tæpast hverju ég fann upp á í þá daga, en mörgum árum seinna renni ég af og til yfir minningarnar, ljúfmælt og eilítið angurvær.

Þræddi mig gegnum einkamal.is þegar vefurinn var að byrja, notaðist við einfeldningslegt útlit sem vart væri bjóðandi notendum í dag og naut mín við að skrifa bréf, sem urðu vísar að litlum pistlum seinna meir, faldi mig bak við fjölbreytileg notendanöfn og svissaði út prófílum eins og ég ætti lífið að leysa. Þetta var á tímum upphringisambands, þegar enn þurfti að tengja utanáliggjandi mótöld við tölvur og tengjast netinu gegnum símalínu. Meðan mínútan kostaði enn hjá símafyrirtækjum og reikningar urðu svimandi háir ef of löngum tíma var varið á netinu.

Árdagar einkamálasíðna voru ljúfir tímar.  

Einkamálasíður urðu mér vettvangur opinberana sem ég hafði aldrei sagt neinum áður; gósenland alter-egóa sem ég gróf djúpt úr hugskotum mínum og vakti til lífsins. Ég hef alltaf notið þess að sitja við skriftir, en fersk og ómótuð sem ég var á ritmarkaðinum í þá daga, kynntist ég fyrir fullt og allt þeirri ljúfu nautn að geta skapað karaktera fyrir aftan tölvuskjá, vandlega varin af músinni, sem í einni hendingu, gat hent út prófílum, skapað nýja og veitt mér félagsskap í formi bréfaskrifta við ókunna menn.

Í þá daga voru myndbirtingar næstum óþekkt fyrirbæri á einkamálasíðum. Auðvitað rötuðu alltaf einhverjar ljósmyndir inn í pósthólfið og óttinn við að opna viðhengin var þá alltaf hinn sami. „Hvað ef ég þekki manninn á bak við bréfin?“ og óttaslegið andvarpið sem fylgdi í kjölfarið, þegar í ljós kom að um fyrrum nágranna gat verið að ræða. Jafnvel maðurinn í kjörbúðinni var með reikning á einkamálasíðunni góðu.

Sjálf sendi ég aldrei ljósmyndir af sjálfri mér í árdaga einkamálasíðna. Ég kunni betur við mig í rökkrinu, vopnuð einföldum orðum og innantómum loforðum sem aldrei urðu að veruleika. Allt mátti á einkamálasíðunum. Brosti ísmeygilega þegar sömu fórnarlömbin bitu hvað eftir annað á agnið og svissaði samviskulaus millum þjóðfélagshópa eins og að fletta blaðsíðum.

Þeir voru ófáir, herramennirnir, sem fengu að kenna á ritsnilli minni. Á örskotstundu umbreyttist ég úr ósköp venjulegri konu sem eldaði kjötbollur á kvöldmatartíma; í meistara útúrsnúninga, myrka einkamáladrottningu sem umyrðalaust tók karlmenn „af lífi“ gegnum bréfaskriftir og skemmti mér óspart þegar ég rak þá nokkra á gat.

Allt meðan ég fylgdist annars hugar með kvöldfréttum á RÚV.

Þetta var áður en ég gerði mér fulla og óskipta grein fyrir því að hægt er að setja mið á ólíka markhópa. Þetta var meðan ég enn flæddi yfir rómantíska bakka mína í ímyndaðri leit að ástmanni og lét sem ég væri stödd í fjarlægri heimsálfu og þar að auki veðurteppt, þegar einhver þeirra bar upp þá einföldu spurningu, hvort ekki væri hægt að hitta á mig við tækifæri.

Einhverju sinni sagðist ég meira að segja fótbrotin; einungis til að ljúga mig frá ágengu deiti.

Þetta var löngu áður en ég gerði mér nokkra grein fyrir því að einn góðan veðurdag, myndu litlu frásagnirnar sem ég einu sinni fór svo fjálglega með undir dulnefni á einkamálasíðum, verða efni í einlæga pistla sem eflaust yllu fjaðrafoki á örfáum íslenskum heimilum.

Hefði mig rennt fyrrnefnt í grun, er ég ekki í vafa um að ég hefði geymt öll bréfin.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment