Klara séð með auga linsunnar:

Ég er ekkert gefin fyrir linsuna og vil hvorki standa fyrir framan né aftan hana. Feimin í stúdíótökum og finnst erfitt að koma mér í gírinn. Engu að síður er ég svo lánsöm að hafa kynnst frábærum fagmönnum, sem kunna með myndavélar að fara og þessum færu einstaklingum, sem kunna sitt fag, hefur tekist að laða fram mínar bestu hliðar - hvernig sem þau hafa nú farið að því, þar sem ég frýs iðulega þegar komið er inn í stúdíóið og flissa út í loftið. 

Hér má sjá örlítið brot af þeim myndum sem fagmenn hafa smellt af mér, en birtingu þessara mynda er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að heiðra vinnu þeirra skemmtilegu og skapandi fagmanna sem ég hef kynnst og starfað með í einhverri mynd:


Sigtryggur Ari Jóhannsson fyrir DV


 

Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson fyrir helgarblað DV - júní 2011

 
Ég hafði aldrei hitt Didda, eins og hann er kallaður, þegar myndatökuna bar upp. Viðtalsbeiðnin kom snögglega, en Viktoría blaðamaður á DV sendi mér línu á vinnunetfang mitt einn morguninn þegar ég kom til vinnu og sagðist einfaldlega þurfa að ná tali af mér gegnum síma. Ég sló á þráðinn til hennar og í ljós kom að hún vildi ræða við mig fyrir helgarblaðið.

Úr varð að ég ákvað að hitta Viktoríu eftir vinnu þann sama dag, en þar sem ég var á leið erlendis daginn eftir, urðum við að haska viðtalinu og myndatökunni af í snatri, því ég var að leggja upp í fimm vikna ferðalag. Það var Viktoría sem stakk upp á því að ég sæti fyrir í rósabaði „eins og mamma forðum daga“ og ég hváði við.

Þó sá ég húmorinn í aðstæðum og sló til, greip með mér rauð undirföt og varalitablýant,en engin sminka var á staðnum. Ég hitti Viktoríu og Didda ljósmyndara í gullfallegu húsi í Þingholtunum og þegar ég gekk inn um dyrnar á baðherberginu blasti við mér íðilfögur sjón; freyðibað með rósablöðum allt um kring. Það var allt annað en auðvelt að komast ofan í baðið þar sem ekki mátti hrófla við sviðsmyndinni, en það hafðist og andrúmsloftið var létt og einkennilega afslappað meðan Diddi smellti af myndum af mér í rósabaðinu.

Takan var skemmtileg og stóð stutt yfir, en ljósmyndarinn notaðist við skemmtilega tækni og var útkoman fallegri en ég hefði þorað að reikna með. Þessum myndum var smellt af þegar ég var nýkomin úr vinnu og ég hafði ekki úr miklu að moða, en móðir mín hins vegar hváði og hló þegar ég sagði henni af hugmyndinni sem við hrintumí framkvæmd. Ég man að hún sagði: „ekki helvítis rósabaðið eina ferðina enn,“ og svo hlógum við báðar eins og vitleysingar út í bláinn.

Ég fór af landinu tæpum sólarhring seinna og var fjarstödd þegar blaðið kom út á Íslandi, en ég fékk eintak að gjöf þegar ég lenti heima rúmum mánuði seinna. Mér þykir vænt um þessar myndir, því undir alvörugefnu yfirborðinu lúrir fíflagangur og fjör.

Hér má sjá myndirnar sem Sigtryggur Ari tók fyrir DV:



Ólafur Harðarson fyrir bleikt.is 



Ljósmynd: Ólafur Harðarson fyrir bleikt.is í desember 2010 


Ég hef þrisvar sinnum setið fyrir hjá Óla, fyrst í desember 2010 og tvisvar á árinu 2011 en þær voru teknar fyrir Bleikt. Í fyrstu tökunni fékk ég fatnað frá Einstakar Ostakökur að láni (undirfatnað) en Salóme Sóley farðaði mig fyrir þá töku. 

Ég leit aftur í stúdíóið til Óla í byrjun árs árið 2011 og útkoman varð gallabuxnamyndin, en engin sminka var með í för í það skiptið. 

Í þriðja og síðasta skiptið varð útkoman portrettmyndir, sem Óli braut upp með reykvél í bakgrunni. Það var Katla Einarsdóttir förðunarmeistari sem sá um sminkið í þeirri töku, en ég hef nýtt þær myndir einna mest. 


Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af samstarfi okkar Óla fyrir bleikt.is: 




Hér koma inn ljósmyndir bráðlega, en allar myndirnar á þessari síðu eru varðar af höfundarétti og hef ég fengið leyfi hjá viðkomandi fagmönnum fyrir birtingu þeirra. 


Athugið: Óheimilt er að afrita þessar ljósmyndir nema að fengnu leyfi. 

Myndir koma inn bráðlega ...