Wednesday, January 12, 2011

Konur eru frá Venus

Velti því stundum fyrir mér hvaða kröfur hægt er að gera í samskiptum við hitt kynið. Nú stend ég enn á fertugu, er einhleyp sem fyrri daginn og nýverið komin í samband við internetið, sem er gósenland graðnagla, glæsilegra karlmanna og guðdómlegra stefnumótaboða, sem streyma inn í pósthólfið mitt – jafnt að degi sem nóttu.

Internetið er eitthvað svo einfalt í notkun. Sakleysisleg bréf að morgni dags geta falið í sér tilboð að kaffibolla tveimur dögum seinna, töfrandi komplimenti og krassandi tillögum að bíóferð á fimmtudagskvöldi. Ekkert er ómögulegt á internetinu.

Tengslanetið það arna er svo víðfemt að það er næstum ógerlegt að toppa kosti þess. Auðvitað gúggla ég upp tilkippilega sjarma, læðist inn í þjóðskrá gegnum einkabankann og slæ upp tölulegum upplýsingum sem fletta ofan fæðingardegi og lögheimili mannsins sem var svo elskulegur að renna augunum í átt að mér, slæ sakleysislega upp lymskulegum fyrirspurnum á ja.is og kanna hvort tilvonandi stefnumót deili heimasíma með aðila af hinu kyninu.

Tjékk; maðurinn býr einn. Til í að kanna málið frekar.

Fletti upp fæðingingardegi; fer gegnum ephemeris (daglega stöðu plánetna – já, ég kann að lesa í stjörnurnar) og sannfæri sjálfa mig píreygð um þá staðreynd, að ég hafi góða hugmynd um hvernig nálgast skuli viðkomandi – allt eftir stöðu Venusar í stjörnukorti. Sé Venus staðsettur í Hrút, hringi ég ekki. Það merkir að sá hinn sami verði að hafa frumkvæði – enda með ást og vináttu í fyrsta merki dýrahringsins. Gasalegt alveg.

Get ekki spólað í keppnismann og deytt áhuga hans með offorsi. Auðvitað gæti Mars verið staðsettur í Fiskum, en þá vandast málið. Slíkt merkir að tilvonandi elskhugi minn hneygist til mannúðarstarfa og hafi ríka samúð með náunganum. Ekki annað hægt en að vona að hann sé nægilega markaðssinnaður til að taka laun fyrir störf sín og vona til Guðs að hann starfi ekki fyrir Rauða Krossinn í ólaunuðum sjálfboðahópum. Einhver verður að greiða reikninginn ef ske kynni að hann byði mér á Hereford.

Stoppum aðeins hér. Sjálf er ég með Venus í Vatnsbera og hlýt því að laðast að mönnum sem eru rökfastir, hugmyndaríkir og óhefðbundnir í allri framkomu og nálgun. Ég reyni síður að útskýra fyrir tilvonandi elskhugum mínum að plánetan Mars sé staðsett í Bogmanni í stjörnukorti mínu, sem merki að ég sé lítið gefin fyrir vanabindingu og sé þjökuð af eins konar hreinskilni sem slær allt út á tíðum.

Get ekki með nokkru móti útskýrt þá staðreynd að Venus séu skrautfjaðrirnar sem viðkomandi notar til að næla í maka, en að Mars standi fyrir kynhvöt viðkomandi og hvernig hann vinnur úr eðli sínu og nærir eigin hvatir. Því síður er við hæfi að ég leggi spilin á borðið og segist einfaldlega laðast að rökföstum mönnum sem eru ævintýragjarnir í rúminu. Vatnsberi versus Bogmaður, þú veist. Slíkt er ekki viðeigandi og utan þess, trúa ekki allir á stjörnuspár. Hafa skal aðgát í nærveru sálar. Maðurinn gæti haldið að ég væri klikkuð.

Les aðeins í lófa líka. Sé líflína ástmannsins stutt, reyni ég að kasta mér svo lítið ber á í fang hans; umlandi orðin „en beibí, við höfum svo stuttan tíma“, meðvituð um að ákveðin staða í lófa hans gefi til kynna að viðkomandi eigi erfitt með að tengjast eigin tilfinningum. Þegar svo ber við, tala ég sjálf því meira. Meðvituð um lengd líflínu hans. Best að koma öllu að, nema þeirri staðreynd að ég er næstum skyggn, áður en maðurinn hrekkur upp af. Ekki miklar líkur á því að hann kasti sér í fang mér ef ég útskýri þolinmóð að þessu gæti öllu verið lokið á morgun.

Tala þar af leiðandi meir um sjálfa mig og minna um hann, þegar svo ber við.

Ég hef frá svo mörgu að segja.

Má stundum ekkert vera að því að heyra útlistanir elskhuga míns á eigin þörfum, því yfirleitt hefur traust vinkona lagt mér línurnar áður en deitið byrjar gegnum spáspil, sem oftar en ekki gefur til kynna að viðkomandi hafi áhyggjur af óræðum hlutum og geti þess vegna ekki rætt tilfinningar sínar opinskátt.

Verð þá alltaf jafn undrandi þegar stefnumóti lýkur á annan veg en spáð var um og reyni yfirleitt að ná sambandi við vinkonuna sem lagði spilin, legg upp spurninguna: „ertu alveg viss?“ og fletti fjálglega upp merkingu hjartaníu á internetinu, um leið og heim er komið. Eftir allt hef ég grandskoðað fæðingardag mannsins og er fullviss um að afstaða plánetna er orsök og ástæða þess að hann virðist ekki upplagður í annað deit.

Einhverjir hafa þeir komist að getu minni til að lesa í stjörnur og örfáir hafa komið auga á spilabúnkann sem trónir á stofuborðinu. Einn þeirra spurði í rælni hvort ég væri til í lögn fyrir stuttu og treglega tók ég því upp búnkann og stokkaði. Eitthvað stoppaði mig að lokum þegar ég lagði niður spilin og sagði við ástleitinn manninn: „Það lítur út fyrir að kona sé í spilunum hjá þér, vinur“ og setti í brúnirnar þegar viðkomandi leit vongóður á mig og kinkaði feimnislega kolli.

Vísaði umræddum manni á dyr stuttu seinna, fullviss um að hann væri með fleiri í takinu, í algerri afneitun á að fögur meyjan sem ég sá í spádómnum, gæti þegar öllu var á botninn hvolft, verið ég.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment