Sunday, January 30, 2011

Beauty is plain

Móðir mín er vitur kona. Hún sagði mér eitt sinn að „meðan konur þráðu það eitt að vera séðar; vildu karlmenn iðulega sjá.“ Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér, eftir undangengna stúdíu mína á kynþokka, hvað í raun þyki hæfilegt og hvenær er gengið of langt. Hugsa oftar en ekki um orð móður minnar, þegar ég hneppi að mér skyrtunni og velti því fyrir mér hversu flegið hálsmálið má vera.

Monday, January 24, 2011

Af erótík og öðrum fjanda

„Which reminds me“ og afsakið að ég skuli grípa til enskunnar í stað þess að sletta á ylhýra, ástkæra.

En síðasti pistill framkallaði minningar sem mér er fremur ljúft að rifja upp. Ég hef gripið til ýmissra ráða til að sjá fjölskyldu minni farborða gegnum tíðina. Skúrað gólf, selt áskriftir og unnið á strippstað. Ekki að slíkt sé í frásögur færandi. Einhverra hluta vegna kem ég mér þó iðulega undan því að ræða feril minn sem barþjónn á nektardansstað, þegar umræðuna ber upp í virðulegum kaffiboðum.

Af hverju veit ég ekki. Starfið var vel launað, hafði engin óþægindi í för með sér og sjálf þurfti ég aldrei að fækka fötum. Öðruvísi var þó farið um dansmeyjarnar, sem mættu fáklæddar til vinnu og seiddu þyrsta viðskiptavini inn í klefana þar sem einkadansinn fór fram.

Ég aftur á móti, eyddi kvöldunum vandlega varin bak við voldugt barborðið, afgreiddi létta drykki og hafði þann starfa að brosa hvað blíðast meðan blæddu sárin. Þeir meiddu skórnir, sem ekkert sérstaklega notarlegt var að klæðast. Strigaskór voru enda bannvara í vinnunni. Tólf sentrimetrar þóttu algert lágmark.

Meðan á ferli  mínum sem barþjónn í hjáverkum stóð, var nektardans enn löglegur í henni gömlu Reykjavík og umræðunni um  mannsal hafði ekki verið hrundið af stað. Dansmeyjar mátti enn sjá á forsíðum hérlendra tímarita þar sem þær hofmóðugar á svip, röktu sögu sína fyrir lesendum og ítrekuðu að dansinn sá væri listgrein en ekki klám. Á þessum árum hafði ég enn blaðamennsku að atvinnu og gerðist meira að segja svo fræg að taka viðtal við eina sjálf.

Landinn furðaði sig á hvassleitri konunni, sem að mig minnir var austurevrópsk og gallhörð á svip. Ég las þessa undrun úr sölutölum, sem ruku upp úr öllu veldi þegar tölublaðið kom út. Öllum þyrsti að vita meira. Konan vakti verðskuldaða athygli, en hún var með þeim fyrstu sem kom til landsins gagngert í þeim tilgangi að dansa.

Meira að segja ég var hrædd við konuna, sem sat gengt diktafóninum og lét dæluna ganga meðan á viðtalinu stóð. „Art“ sagði hún „is the nature of my dance“ og vanmáttug gat ég ekkert annað en kinkað kolli og hummað fram af mér næstu setningu, sem hefði án efa falið í sér vísun að klámi.

„Art is in my nature, and that is what dancing is“ hélt hún flugbeitt á svip áfram og fíraði í sígarettu, sem enn mátti reykja innandyra í þá daga. Umrætt fékk mig til að varpa upp þeirri spurningu hvort dansinn væri að hennar mati þá erótískur en aldrei klámfenginn.

Viðtalið vakti hjá mér spurningar um eðli erótíkur og gildi kláms.

Ég geri ráð fyrir því að á milli þessa tveggja hugtaka liggi gullin lína, sem auðvelt er að krossa yfir ef nærgætni, metnaður og skarpt innsæi er ekki haft að leiðarljósi. Stúlkan sú arna dansaði á Íslandi um tíma og flaug síðan á vit erlendra ævintýra, eftir vel heppnaða dvöl á íslenskum nektardansstöðum, sem gerðu henni kleift að græða á tá og fingri.

Hvort hún var klámfengin, fékk ég aldrei að vita. Ég sá hana aldrei á sviði.

Ég hef oftar en ekki velt því fyrir mér hvers vegna þessi ágæta kona græddi svo mikið sem raun bar vitni og hvernig fimir fingur hennar fóru eiginlega að því að tæma hvert karlmannsveskið af fætur öðru, án þess að nokkur gæti mótbárum við komið.

Meðan á ferli mínum sem barþjónn í hjáverkum stóð, velti ég því oftlega fyrir mér í hverju raunveruleg erótík er fólgin og hvenær athöfn getur talist vera klámfengin. Ég veit ekki hvers vegna karlmenn borga fyrir það eitt að horfa á fagurlega mótuð kvenmannsbrjóst og því síður hvað er fólgið í dulúðinni að baki einkadansi. Ég veit það eitt, að bogadregnar línur og ávalar þykja eftirsóknarverðar og ætli ég að draga einhvern lærdóm af stelpunum sem dönsuðu á 15 sentimetra hælum hér í den, er sá lærdómur að sama skapi sá; að litlu virðist skipta hvernig konan er vaxin.

Leyndarmálið að baki kynþokka stúlkanna sem dönsuðu hér í den virtist vera sú einfalda staðreynd að allar voru þær söluhæstu „bjóðandi“ en aldrei „biðjandi.“ Árangur þeirra söluhæstu virtist fólginn í framkomu kvennanna, því þær sem seldu mest voru oftar en ekki í góðum holdum og því fór fjarri að þær væru einhverjar fegurðardísir. En þær höfðu yfir sér einhvern ljóma sem gerði það að verkum að karlmenn drógust að þeim eins og flugur að ljósi. 

Stúlkurnar sem ég er að segja ykkur frá, fengu mig til að velta vöngum yfir kvenleika og hvort erótík getur verið listfengin, hvenær klám verður óþægilegt og í hverju kynþokki er fólginn. Þegar ég skellti hurðinni á eftir mér eftir þriggja mánaða litríkan feril sem barþjónn í hjáverkum á nektardansstað stóðu þær spurningar eftir; hvort kynlíf geti í sjálfu sér verið listform og hvort sjálfstraust sé einn kynþokkafyllsti eiginleiki sem kona getur höndum um farið.

Ég held að hvoru tveggja sé rétt.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Friday, January 21, 2011

Óþekktaranginn

Ein skemmtilegasta umfjöllun um kvenleika sem ég hef hlýtt á, er heimildarþáttur sem ég horfði á fyrir þó nokkrum árum síðan um tískugyðju, sem bjó á Manhattan og átti ægilega ríkan mann. Konan sú var orðin áttræð þegar hún ákvað að arfleiða bandarískt safn að klæðaskáp sínum, enda var sú hin sama hvað þekktust fyrir smekkvísi og kynþokka, skemmtilegan klæðaburð og einstaklega næmt tímaskyn.

Dagskrárgerðarmaðurinn ræddi af lotningu um þessa klóku gyðju, sem hafði aldrei farið með staka flík á flóamarkað, heldur af kostgæfni safnað öllum sínum múnderingum í ægistórt fataherbergi og þarna sat hún, hrímhvít af elli, umkringd loðfeldum og svaraði áleitnum spurningum spyrils um gildi kvenleika og leyndardóma fegurðar.

„Tíska er svo afstæð“ sagði konan og kímdi undir silfurhvítu hárinu. „Að klæðast til kynþokka hefur ekkert með haust- eða vetrarlínur hönnuða að gera, sjáðu til – heldur það hlutverk sem þú vilt taka þér fyrir hendur að hverju sinni. Að vera kynþokkafull er eins og að standa í eins konar hlutverkaleik.“

Ég hef mikið velt þessum orðum fyrir mér og þá helst hvað af þessu sé satt.

„Konur eiga aldrei að klæðast nýjustu tískulínum, nema fatnaðurinn fari þeim því betur“ sagði hún þá einnig „Þær ættu líta á val á klæðnaði sem eins konar hlutverk, sem þær velja sér það kvöldið. Að klæðast kynþokkafullt er eins konar leikur.“ Og með orð gömlu konunnar í huga fór ég því inn í klæðaskáp í gær, tók fram litla skotapilsið og setti í mig tígó. „Skólastelpan“ er sígild. Framundan var kvöld á tjúttinu; ferðalag niður Laugaveginn með fallegum vinkonum og tilheyrandi hlátrasköllum.

Auðvitað fer þetta eftir markhópnum.

Ég yrð að gera upp við mig hvort markið yrði sett á miðaldra menn.

Eða blóðþyrsta skólastráka.

Fór úr nælonsokkunum og mátaði næst „óþekku skrifstofukonuna“ í formi teinóttrar draktar. Synd að ég skuli ekki vera með nægilega sítt hár til að geta stungið blýant í gegnum hárhnútinn.

Dró þykka svarta línu yfir vel máluð augnlokin, meðan ég prófaði þriðju samsetninguna; sjálfa „refynjuna“, sem íklædd svörtu leðri og támjóum pinnahælum, mökkar dimma vindla og dregur grandalausa menn á tálar.

Valdi á endanum „látlausa bóheminn“ í formi kynþokkafulls kjóls sem ég keypti í Barcelona fyrir nokkrum árum síðan. Less is more sagði ég við sjálfa mig; minnug einnar bestu röksemdarfærslu sem ég hef heyrt og móðir mín lét flakka yfir kaffiborðið hér í den; en hún sagði einmitt að fegurstu konurnar væru þær sem kynnu að laða fram eigin styrkleika. „Sjáðu bara senjoríturnar. Þær eru oftar en ekki í yfirþyngd, en engu að síður eru þær að springa úr kynþokka. Þessar konur eru ekkert að fela gallana, nei, þær draga fram styrkleikana þess í stað og leggja áherslu á kvenlegar línur.“

Ekki að ég sé að berjast við aukakíló. En ég er jafn ófullkomin og fólk er flest. Og þar af leiðandi verður mér oft hugsað til orða móður minnar, um leið og ég klæðist hinum fjölbreytilegustu flíkum og velti því þar af leiðandi fyrir mér; hvaða hlutverki ég vill gegna að hverju sinni og með hvaða hætti ég geti helst dregið fram styrkleika mína – áttað mig á því hvað það er sem gerir mig að konu.

Kannski ég kræki í fjaðrakúst og klæðist þernubúning næst þegar ég býð karlmanni upp á kaffibolla heima við. Klæðist hvítum pels, ef ske kynni að mér yrði boðið í göngutúr og andvarpi ljúfan meðan ég dreg upp handskjól og depli augunum tilgerðarlega íklædd doppóttum kjól frá fjórða áratugnum ef vera skyldi að álitlegur séns bjóði mér í bíó. Ég er nefnilega orðin hálf þreytt á því að klæðast þykkbotna skóm, bara vegna þess að Karl Lagerfeld ákvað að sýna slíkt við umrædda haustlínu í París fyrir stuttu og ekki hvarflar að mér að ganga um í fjólubláum siffonkjól, einfaldlega vegna þess að Chanel boðar slíkt á komandi vormánuðum.

Auðvitað getur verið ægilega smart að fylgja tískustraumum, en fylgjandi þeirri heimspeki að kynþokki komi að innan, er ég engu að síður sannfærð um að réttum fatnaði hljóti að fylgja ákveðin líðan, sem getur dregið fram eina helstu kosti hverrar konu og fengið flesta karlmenn til að falla í stafi. Flíspeysan verður af og til að fá að fjúka. Sjálfsöryggi er sexí og sannleikurinn er ekki endilega alltaf sagna bestur. Hver segir enda að hlutverkaleikir þurfi að einskorðast við svefnherbergið ... ?  

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Monday, January 17, 2011

Allt er leyfilegt í ástum og stríði

Auðvitað bætti ég hressilega í og gott betur í síðasta pistli mínum, sem eflaust hefur slegið margan auðtrúa borgarann gersamlega út af laginu. Ég á ekki Ephemeris og get svo svarið það; ég er löngu hætt að njósna um karlmenn gegnum Þjóðskrá.

En ég laug engu þegar ég sagðist fletta álitlegum sénsum upp gegnum spil.

Ég veit ekki af hverju ég geri þetta.

Hætti með manni um daginn. Geggjaðist alveg um tíma. Auðvitað hélt ég andlitinu út á við. Grét í koddann heima um nokkurra daga skeið, snýtti mér síðan í vasaklút og pantaði tíma hjá talnaspeking. Ég hitti hann stundum þegar mikið liggur við. Talnaspekinginn. Borgaði 6.500 krónur plús kassettu til að heyra manninn segja „þetta er búið“ og andvarpaði sáran.

Munaði engu að ég hefði farið til spákonu í kjölfarið, bara svona rétt til að kanna hvort ekki væri veik von á endurfundum. Einhverju sem gæfi mér von. Örlitlum tebolla jafnvel. Talaði fjálglega við konuna í símann, sem sagði mér fyrir alla muni að taka með mynd, svo hægt yrði að lesa í augun. Stúderaði möguleikann um stund. Gæti ég farið í Kodak? Stolið forsíðumynd af Facebook og látið sem ekkert væri við afgreiðslustúlkuna, jafnvel þó ég væri augljóslega að koma með lélega netupplausn á USB lykli? Myndi afgreiðslustúlkan brosa skilningsrík yfir borðið og hvísla: „ég fór til hennar líka“ og blikka mig? Prenta síðan út myndina, leyndardómsfull á svip, klykkja út með orðunum „gangi þér vel!“ og ég síðan fara til konunnar góðu, sem gæti lesið í augu mannsins gegnum einfeldningslega mynd – sem þar að auki væri stolið af netinu og prentuð út í algerri óþökk fyrrum elskhuga míns?

Gæti konan góða jafnvel sagt mér hvernig best væri að vinna elskhuga minn aftur?

Hver var það aftur sagði að allt væri leyfilegt í ástum og stríði?

Konan sú vildi taka 9.500 krónur fyrir greiðann. Varlegt innsæi mitt sagði mér að fresta tímanum, sem ég á endanum afbókaði. Fór aldrei í búðina góðu til að prenta út prófílmynd, sem ég gleymdi að stela. Maðurinn var nefnilega með sólgleraugu á forsíðumyndinni og því alveg ógerlegt að lesa nokkuð í skapgerðina, nema ef vera kynni að spákonan góða gæti spáð í munnviprur.

Þakkaði mínum sæla fyrir sparnaðinn og bætti mér upp spákonumissinn með pendúldingli.

En ég grét í koddann minn. Kom óbeðin í kaffiboð til vinkvenna, sem eiga Tarot-spil og lesa í kaffibolla. Varð undrandi þegar ein klykkti út með orðunum: „sem ég get svarið það, hér er annar karlmaður“ og fussaði í laumi þegar önnur sagði: „Þú kemst yfir hann.“Velti vöngum yfir veikri von í nokkra daga og um leið, þeim ljúfsára unaði sem óhjákvæmilega fylgir sambandsslitum.

Hugsaði talsvert um orð talnaspekingsins, sem sagði að ekki væri ólíklegt að maðurinn ætti óuppgerðar sakir við fortíðina. Þó ég viti fullvel að flestir íslendingar hafa orðið fyrir skakkaföllum á lífsleiðinni, hljómuðu orðin bara eitthvað svo vel þegar 6.500 króna vinur minn í klukkutíma fór með þau í litlu herberginu, sem angaði af myrru og ókennilegri reykelsisangan.

Huggaði mig um stund við ljúfan róm Nancy Wilson, sem endurtók orðin „Face It Girl, It´s Over“ gegnum youtube og svissaði yfir í soul drottninguna Candi Staton sem listilega öskraði „I Was The Best Thing You Ever Had“ í hátalarana þegar vinkonurnar urðu þreyttar á einstrengingslegri ásókn minni í spilastokka heimilisins.

Dinglaði pendúlnum örlítið meira, skrúfaði að endingu niður í youtube, þurrkaði tárin og tók gleði mína að nýju þegar vinabeiðni frá öðrum karlmanni barst mér í gegnum Facebook. Hringdi samstundis í eina sem er næstum skyggn og bað hana að skerpa á innsæinu, í þeirri von að hún gæti svarað því hvort hér væri kominn nýji maðurinn, sem önnur hafði séð í spilunum um daginn.

Gladdist ósegjanlega þegar hjartaásinn kom upp og setti í brúnirnar þegar í ljós kom að sá hinn sami átti 53 sameiginlega vini, er harðgiftur og þar að auki gamall skólafélagi. Þó ég viti að spilin eru ekki óskeikul, hefði ég hins vegar getað svarið það; ég var þess fullviss að þarna væri nýji laufakóngurinn kominn.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR 



Wednesday, January 12, 2011

Konur eru frá Venus

Velti því stundum fyrir mér hvaða kröfur hægt er að gera í samskiptum við hitt kynið. Nú stend ég enn á fertugu, er einhleyp sem fyrri daginn og nýverið komin í samband við internetið, sem er gósenland graðnagla, glæsilegra karlmanna og guðdómlegra stefnumótaboða, sem streyma inn í pósthólfið mitt – jafnt að degi sem nóttu.

Internetið er eitthvað svo einfalt í notkun. Sakleysisleg bréf að morgni dags geta falið í sér tilboð að kaffibolla tveimur dögum seinna, töfrandi komplimenti og krassandi tillögum að bíóferð á fimmtudagskvöldi. Ekkert er ómögulegt á internetinu.

Tengslanetið það arna er svo víðfemt að það er næstum ógerlegt að toppa kosti þess. Auðvitað gúggla ég upp tilkippilega sjarma, læðist inn í þjóðskrá gegnum einkabankann og slæ upp tölulegum upplýsingum sem fletta ofan fæðingardegi og lögheimili mannsins sem var svo elskulegur að renna augunum í átt að mér, slæ sakleysislega upp lymskulegum fyrirspurnum á ja.is og kanna hvort tilvonandi stefnumót deili heimasíma með aðila af hinu kyninu.

Tjékk; maðurinn býr einn. Til í að kanna málið frekar.

Fletti upp fæðingingardegi; fer gegnum ephemeris (daglega stöðu plánetna – já, ég kann að lesa í stjörnurnar) og sannfæri sjálfa mig píreygð um þá staðreynd, að ég hafi góða hugmynd um hvernig nálgast skuli viðkomandi – allt eftir stöðu Venusar í stjörnukorti. Sé Venus staðsettur í Hrút, hringi ég ekki. Það merkir að sá hinn sami verði að hafa frumkvæði – enda með ást og vináttu í fyrsta merki dýrahringsins. Gasalegt alveg.

Get ekki spólað í keppnismann og deytt áhuga hans með offorsi. Auðvitað gæti Mars verið staðsettur í Fiskum, en þá vandast málið. Slíkt merkir að tilvonandi elskhugi minn hneygist til mannúðarstarfa og hafi ríka samúð með náunganum. Ekki annað hægt en að vona að hann sé nægilega markaðssinnaður til að taka laun fyrir störf sín og vona til Guðs að hann starfi ekki fyrir Rauða Krossinn í ólaunuðum sjálfboðahópum. Einhver verður að greiða reikninginn ef ske kynni að hann byði mér á Hereford.

Stoppum aðeins hér. Sjálf er ég með Venus í Vatnsbera og hlýt því að laðast að mönnum sem eru rökfastir, hugmyndaríkir og óhefðbundnir í allri framkomu og nálgun. Ég reyni síður að útskýra fyrir tilvonandi elskhugum mínum að plánetan Mars sé staðsett í Bogmanni í stjörnukorti mínu, sem merki að ég sé lítið gefin fyrir vanabindingu og sé þjökuð af eins konar hreinskilni sem slær allt út á tíðum.

Get ekki með nokkru móti útskýrt þá staðreynd að Venus séu skrautfjaðrirnar sem viðkomandi notar til að næla í maka, en að Mars standi fyrir kynhvöt viðkomandi og hvernig hann vinnur úr eðli sínu og nærir eigin hvatir. Því síður er við hæfi að ég leggi spilin á borðið og segist einfaldlega laðast að rökföstum mönnum sem eru ævintýragjarnir í rúminu. Vatnsberi versus Bogmaður, þú veist. Slíkt er ekki viðeigandi og utan þess, trúa ekki allir á stjörnuspár. Hafa skal aðgát í nærveru sálar. Maðurinn gæti haldið að ég væri klikkuð.

Les aðeins í lófa líka. Sé líflína ástmannsins stutt, reyni ég að kasta mér svo lítið ber á í fang hans; umlandi orðin „en beibí, við höfum svo stuttan tíma“, meðvituð um að ákveðin staða í lófa hans gefi til kynna að viðkomandi eigi erfitt með að tengjast eigin tilfinningum. Þegar svo ber við, tala ég sjálf því meira. Meðvituð um lengd líflínu hans. Best að koma öllu að, nema þeirri staðreynd að ég er næstum skyggn, áður en maðurinn hrekkur upp af. Ekki miklar líkur á því að hann kasti sér í fang mér ef ég útskýri þolinmóð að þessu gæti öllu verið lokið á morgun.

Tala þar af leiðandi meir um sjálfa mig og minna um hann, þegar svo ber við.

Ég hef frá svo mörgu að segja.

Má stundum ekkert vera að því að heyra útlistanir elskhuga míns á eigin þörfum, því yfirleitt hefur traust vinkona lagt mér línurnar áður en deitið byrjar gegnum spáspil, sem oftar en ekki gefur til kynna að viðkomandi hafi áhyggjur af óræðum hlutum og geti þess vegna ekki rætt tilfinningar sínar opinskátt.

Verð þá alltaf jafn undrandi þegar stefnumóti lýkur á annan veg en spáð var um og reyni yfirleitt að ná sambandi við vinkonuna sem lagði spilin, legg upp spurninguna: „ertu alveg viss?“ og fletti fjálglega upp merkingu hjartaníu á internetinu, um leið og heim er komið. Eftir allt hef ég grandskoðað fæðingardag mannsins og er fullviss um að afstaða plánetna er orsök og ástæða þess að hann virðist ekki upplagður í annað deit.

Einhverjir hafa þeir komist að getu minni til að lesa í stjörnur og örfáir hafa komið auga á spilabúnkann sem trónir á stofuborðinu. Einn þeirra spurði í rælni hvort ég væri til í lögn fyrir stuttu og treglega tók ég því upp búnkann og stokkaði. Eitthvað stoppaði mig að lokum þegar ég lagði niður spilin og sagði við ástleitinn manninn: „Það lítur út fyrir að kona sé í spilunum hjá þér, vinur“ og setti í brúnirnar þegar viðkomandi leit vongóður á mig og kinkaði feimnislega kolli.

Vísaði umræddum manni á dyr stuttu seinna, fullviss um að hann væri með fleiri í takinu, í algerri afneitun á að fögur meyjan sem ég sá í spádómnum, gæti þegar öllu var á botninn hvolft, verið ég.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Saturday, January 8, 2011

Are You Interested?

Ég sótti nám í gluggaútstillingum fyrir einum tíu árum síðan. Í náminu því arna, sem ég lauk reyndar aldrei, lærðist mér eitt og annað um framsetningu á vörum. Nóg til að gera mér grein fyrir undirstöðuatriðum sjónrænnar markaðsfræði, ef hún er þá til.

„Þið hafið þrjár sekúndur til að fanga athygli væntanlegra viðskiptavina,“ hamraði kennarinn viðstöðulaust á og hvatti okkur til að setja upp krassandi útstillingar. „Ykkar hlutverk er að stilla vörunni þannig fram að hún sé áhorfs verð.“

Þannig hljómaði fyrsta lexía. Ég hef mikið velt henni fyrir mér. Fram að þeim tíma, taldi ég næsta víst að nóg væri að búa yfir traustu vöruframboði.

Þessi ágæta kona hélt þá áfram og hafði nú yfir orðin; „Sjái viðskiptavinurinn ekki neitt sem honum líkar, heldur hann ferð sinni áfram að næsta búðarglugga.“

Sjokkeruð hlustaði ég af athygli og velti orðunum milli fingra mér, eilítið örvæntingarfull.

„Ykkar tilgangur er að selja vöru sem viðskiptavinurinn hafði enga hugmynd um að hann vantaði. Fyrr en hann rak augun í útstillinguna ykkar.“

Rétt framsetning, þrívíð innsetning í rými og áhrifamáttur ólíkra hlutfalla var meðal annars það sem ég lærði að meðhöndla meðan á stuttlegri kynningu minni á gluggaútstillingum stóð. Stundum gríp ég í glugga, rifja upp grundvallartækni þess sem ég með sjálfri mér kalla sjónræna markaðsfræði og glugga í tímarit tengd útstillingum, þegar hugmyndir þrýtur.

Öðruvísi er farið um sjálfa mig þegar að mati á vænlegum maka er farið. Þá snúast vopnin í höndum mér og neytandinn, sem ég reyni að höfða til þegar ég gríp í „verk“, verður að mér sjálfri, sem fussar og flissar yfir ótrúlegustu tilboðum sem netið hefur að bjóða.

Meðvituð um áhrifamátt einkamálasíðna sem hafa, ef marka má fyrri pistil minn, tekið stakkaskiptum á undanförnum árum, leita ég því oftar en ekki á náðir rafrænna miðla þegar mig dreymir um félagsskap og upplyftingu á síðkvöldum.

Þessu er ekkert ólíkt farið á hjálparsíðum Facebook, sem allar virðast ilma af álitlegum sénsum og forvitnilegum tækifærum sem bíða mín handan við hornið. Í dag er hægt að fletta gegnum karlmenn eins og ég sitji við katalóg og renni gegnum fjölmarga vonbiðla, sem með ólíkar prófílmyndir, virðast vona það eitt að falla í kramið og komast í gegnum síuna.

Ég hef aðeins gluggað í þann mæta vef – Are You Interersted – á undanförnum misserum. Skráð mig staðfastlega inn, haukfránum augum og hafið leikinn sem miðar að því að krækja í álitlegan maka. Gerst sek um að safna sem flestum „like“ á prófílmynd sem þá verður að vera einkar seiðandi, ef hún á ekki að týnast í hafsjó íðilfagurra kvenna sem brosa blíðan framan í skjáinn og virðast sem ein segja „veldu mig.“

Á síðum Are You Interested, er nefnilega hægt að fletta gegnum heilu doðrantana af álitlegum sénsum, sem eiga þess einan kost að grípa athygli þess er fram hjá flögrar, á 3 sekúndum og falli myndin ekki í kramið, heldur leitin áfram, þar til álitlegum kosti hefur verið landað.

Fékk bréf frá karlmanni, ættuðum frá Puerto Rico um daginn. Prófílmynd mannsins sýndi eins konar geisla (líka sólargeislum) sem streymdu út úr nasaholum mannsins. Hann brosti blíðan á myndinni, vopnaður sólglergaugum. Viðkomandi sendi mér vinabeiðni. Skelkuð á svip, hafnaði ég.

Hef velt því talsvert fyrir mér að hafa samband við nokkra og benda á grundvallarreglur vænlegra útstillinga, nauðsyn þess að skrifa grípandi fyrirsögn og álitlegs myndefnis. Stundum vildi ég óska að mennirnir á þessum mæta vef væru myndarlegri. Fáir þeirra virðast hafa höndum tekið grundvallarreglur sjónrænnar markaðsfræði, því oftar en ekki er stuttleg kynning þeirra svo skelfilega óljós og einkennileg að mig sundlar við það eitt að fletta yfir síðuna.

Am I Interested?

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Tuesday, January 4, 2011

Ljúgðu að mér

Ég laug til um þekkingu mína, þegar ég sagðist ekki þekkja einkamálasíður.

Meðan notendur einkamálasíðna gengu enn undir dulnefnum og Þjóðskrá var þykk skræða sem þurfti að fletta gegnum, lifðu alter-egó mín einkar góðu lífi. Ég man tæpast hverju ég fann upp á í þá daga, en mörgum árum seinna renni ég af og til yfir minningarnar, ljúfmælt og eilítið angurvær.

Þræddi mig gegnum einkamal.is þegar vefurinn var að byrja, notaðist við einfeldningslegt útlit sem vart væri bjóðandi notendum í dag og naut mín við að skrifa bréf, sem urðu vísar að litlum pistlum seinna meir, faldi mig bak við fjölbreytileg notendanöfn og svissaði út prófílum eins og ég ætti lífið að leysa. Þetta var á tímum upphringisambands, þegar enn þurfti að tengja utanáliggjandi mótöld við tölvur og tengjast netinu gegnum símalínu. Meðan mínútan kostaði enn hjá símafyrirtækjum og reikningar urðu svimandi háir ef of löngum tíma var varið á netinu.

Árdagar einkamálasíðna voru ljúfir tímar.  

Einkamálasíður urðu mér vettvangur opinberana sem ég hafði aldrei sagt neinum áður; gósenland alter-egóa sem ég gróf djúpt úr hugskotum mínum og vakti til lífsins. Ég hef alltaf notið þess að sitja við skriftir, en fersk og ómótuð sem ég var á ritmarkaðinum í þá daga, kynntist ég fyrir fullt og allt þeirri ljúfu nautn að geta skapað karaktera fyrir aftan tölvuskjá, vandlega varin af músinni, sem í einni hendingu, gat hent út prófílum, skapað nýja og veitt mér félagsskap í formi bréfaskrifta við ókunna menn.

Í þá daga voru myndbirtingar næstum óþekkt fyrirbæri á einkamálasíðum. Auðvitað rötuðu alltaf einhverjar ljósmyndir inn í pósthólfið og óttinn við að opna viðhengin var þá alltaf hinn sami. „Hvað ef ég þekki manninn á bak við bréfin?“ og óttaslegið andvarpið sem fylgdi í kjölfarið, þegar í ljós kom að um fyrrum nágranna gat verið að ræða. Jafnvel maðurinn í kjörbúðinni var með reikning á einkamálasíðunni góðu.

Sjálf sendi ég aldrei ljósmyndir af sjálfri mér í árdaga einkamálasíðna. Ég kunni betur við mig í rökkrinu, vopnuð einföldum orðum og innantómum loforðum sem aldrei urðu að veruleika. Allt mátti á einkamálasíðunum. Brosti ísmeygilega þegar sömu fórnarlömbin bitu hvað eftir annað á agnið og svissaði samviskulaus millum þjóðfélagshópa eins og að fletta blaðsíðum.

Þeir voru ófáir, herramennirnir, sem fengu að kenna á ritsnilli minni. Á örskotstundu umbreyttist ég úr ósköp venjulegri konu sem eldaði kjötbollur á kvöldmatartíma; í meistara útúrsnúninga, myrka einkamáladrottningu sem umyrðalaust tók karlmenn „af lífi“ gegnum bréfaskriftir og skemmti mér óspart þegar ég rak þá nokkra á gat.

Allt meðan ég fylgdist annars hugar með kvöldfréttum á RÚV.

Þetta var áður en ég gerði mér fulla og óskipta grein fyrir því að hægt er að setja mið á ólíka markhópa. Þetta var meðan ég enn flæddi yfir rómantíska bakka mína í ímyndaðri leit að ástmanni og lét sem ég væri stödd í fjarlægri heimsálfu og þar að auki veðurteppt, þegar einhver þeirra bar upp þá einföldu spurningu, hvort ekki væri hægt að hitta á mig við tækifæri.

Einhverju sinni sagðist ég meira að segja fótbrotin; einungis til að ljúga mig frá ágengu deiti.

Þetta var löngu áður en ég gerði mér nokkra grein fyrir því að einn góðan veðurdag, myndu litlu frásagnirnar sem ég einu sinni fór svo fjálglega með undir dulnefni á einkamálasíðum, verða efni í einlæga pistla sem eflaust yllu fjaðrafoki á örfáum íslenskum heimilum.

Hefði mig rennt fyrrnefnt í grun, er ég ekki í vafa um að ég hefði geymt öll bréfin.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR