Ég eyddi fimm vikum ytra í sumar og kom eilítið þreytt til baka. Það tekur á að fara einsömul í langferð með lítið barn, stúdera menningu sem mér er framandi og lenda heil á höldnu aftur í Keflavík, sem geymir reykherbergið í Leifsstöð. Eilítið magnað að stíga út fyrir landsteinana og fylgjast með umræðunni, sem bylgjaðist fyrir augum mér í formi blaðagreina sem á tíðum voru ádeilukenndar, til þess eins fallnar að vekja uppþot og innbyrðis átök millum ólíkra þjóðfélagshópa.
Að lesa íslenska fjölmiðla meðan ég var ytra, var eilítið eins og að fylgjast með norrænu nautaati frá Spáni.
Af og til varð mér hugsað til íhaldsaflanna, meðan ég sat ytra og las stóreyg fyrirsagnir íslenskra fjölmiðla, sem mér á tíðum þóttu kreddukenndar og bera keim af áróðskenndri umræðu. Stóra „Jónsamálið“ fór næstum framhjá mér en þó æptu fyrirsagnirnar yfir hafið og skullu á andliti mínu, sem reyndi að glíma við stafina á lúnum skjá í fjörtíu stiga hita, þar sem menningin snýst um aðra og ólíka hluti.
Ég náði ekki að greina hvers vegna ávarpið „hórur“ setti íslensku þjóðina á hvolf og með hvaða hætti vansvefta tónlistarmaður á útihátíð hafði völd og umsvif til að stimpla íslenskar konur sem glyðrur. Hvers vegna orðtakið þótti svo niðrandi og því síður hvers vegna augnablikið varð ódauðlegt í augum íslenskra hreintrúnaðarhópa.
En kannski hafði hitinn einfaldlega fyrir löngu slegið mig algerlega út af laginu og íslensk þjóðarsál mín sofandi meðan á rökræðum þjóðarinnar um gildi ávarpsins stóð sem hæst. Réttast hefði kannski verið að kasta blævængnum með ofsa í stofusófann, reka upp öskur og veina: „Ég er engin hóra!“ út í suðrænt rökkrið. Enda tilvalið, þar sem enginn skildi orð af því sem ég var að segja á Spáni.
Einhvern veginn fékk ég þó ekki af mér að móðgast og sennilega einungis vegna þess að ég var stödd í þúsunda kílómetra fjarlægð frá útihátíðinni margumræddu og því varla gjaldgeng hóra í öðru landi. Þó gluggaði ég í viðtöl við hina ólíklegustu álitsgjafa, sem allir höfðu skoðanir á orðum Jónsa.
Bubbi Morteins flögraði fyrir augunum á mér í formi digurrar fyrirsagnar og jafnvel Erpur Eyvindarson virtist hafa skoðanir á málinu. Femínistafélagið skarst í málið og gott ef fleiri mannréttindarsamtök létu ekki til sín taka í mótmælaskyni við orðagjálfur vansvefta tónlistarmannsins, sem glaðbeittur steig á svið á íslenskri útihátíð og ætlaði að vera eilítið fyndinn.
Svo langt gekk málið, meðan ég barðist við moskítóflugur á suðrænni strönd og þóttist algerlega laus við ótta þegar vespurnar hófu innreið sína í sólbakaða íbúðina, að sjálfur Jónsi steig fram og svaraði ásökunum. Orð hans einkenndust af beiskju og sársauka, þegar hann bað sér vægðar vegna þess að orðin voru látin falla í hita leiksins, en þeim var aldrei ætlað að stimpla herskáar, íslenskar konur sem hórur.
Þegar umræðan virtist vera að ná hámarki, lognaðist hún svo skyndilega út af, jafn skyndilega og hún hafði risið. Aðrir og alvarlegri atburðir höfðu fangað athygli heimsbyggðarinnar og rifrildið sem hófst á útihátíð á Íslandi fuðraði upp í orðagjálfri og féll í gleymskunnar dá.
Jónsi mun að öllum líkindum aldrei nefna „hórur“ á nafn aftur og sennilega hefur maðurinn fengið sér vænan bjór að loknum átökum, en flekklaus ferill hans sem fulltrúi Íslands á erlendri grundu sem tónlistarmanns hefur aftur á móti hlotið ör, sem einungis tíminn getur skorið úr um hvort gróa.
Einu sinni mátti reykja í flugvélum og þegar ég var ung, var bjórinn álitinn hinn mesti skaðvaldur. Í dag þykir óhæfa að nota orðið „hóra“ og dómstóll þjóðarinnar samanstendur af listafólki sem kann að koma fyrir sig orði. Þá má heldur ekki nefna „hvíta, miðaldra menn í jakkafötum með byssu í annarri hendi en Biblíu í hinni“ á nafn nema verið sé að hampa þeim sömu fyrir einstakt jafnaðargeð og gríðarlegt umburðarlyndi í garð ákveðinna minnihlutahópa.
Það má ekki tala dónalega um íslensku þjóðina í dag.
Það er svo ósköp auðvelt að fella dóma um aðra einstaklinga. Að sitja færis og grípa orðin á lofti í hita augnabliksins. Að telja fullvíst að dómharka sé lykillinn að sannleika og réttsýni. Þannig var því farið um umræðuna, þegar leyfa átti bjórinn og óttann sem greip íslensku íhaldsöflin, þegar hleypa átti ölinu inn í landið. „En þá fer fólk að sötra vín alla daga og þjóðin verður ölvuð myrkranna á milli!“ hrópuðu íhaldsmennirnir.
Svo kom bjórinn og allir vita hvernig sú saga fór. Áróðurinn var byggður á kreddukenndum staðhæfingum sem lítt áttu skylt við raunverulega ásókn þjóðarinnar í brennivín. Í dag drekka íslendingar bjór og það jafnvel í Leifsstöð, án þess að lognast út af á næsta bekk og pissa í buxurnar áður en að flugtaki er komið.
Því er eins farið um bannyrði íslenskrar tungu. „Hóra“ er átalið níðyrði, því engin kona vill í raun viðurkenna að kenndir hennar séu hráar, gersneiddar hlýju og byggðar á gráðugum losta. Ekki vill þá nokkur karlmaður á miðjum aldri gangast við þeirri firru að sá hinn sami hafi einhverju sinni látið niðrandi orð falla í garð samkynhneigðra karla, hvað þá staðið í vegi fyrir lífshamingju homma.
Megi Guð vera náðugur þeim sem láta orð falla í flýti.
En gleyma ætti aldrei neinn, að á bak við orðin standa ávallt sálir sem brosa stundum hvað fegurst þegar blæða sárin. Að baki afdrifaríkum ummælum standa jafnan breyskir einstaklingar sem geyma sögu sem aðrir hvorki þekkja né skilja til hlítar.
Kærleikur er vandmeðfarið verkfæri og öflugra vopn sem getur skilað meiri árangri en nokkur níðyrði geta megnað að áorka. Rétt eins og kreddufull íhaldsöflin héldu í bjórbannið fram að síðustu stundu en voru borin ofurafli af frjálslyndum hugsjónamönnum sem höfðu umburðarlyndi og skilning að leiðarljósi, ganga hreintrúnaðarhópar um með dómhörku og vægðarlausa gagnrýni að vopni í þeim eina tilgangi að þagga niður í þeim fáeinu, en hugrökku einstaklingum sem voga sér að benda réttilega á það sem hefur farið aflaga í samskiptum íslensku þjóðarinnar við samlanda sína.
Kærleikurinn er hins vegar eini lykillinn sem getur lokið upp hurðinni sem liggur að raunverulegum árangri. Þess vegna tel ég að íslensku þjóðinni beri að hafa auðmýkt og virðingu að leiðarljósi, ef við ætlum einhverju sinni að ná raunverulegum árangri á sviði mannréttindabaráttu.
Sá yðar kasti fyrsta steininum sem syndlaus er ...
Pistilinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment