Saturday, August 27, 2011

Opið svar til Drífu Snædal: „Góðir femínistar og vondir femínistar“

Ég var á heimleið í gærdag þegar lítill fugl hvíslaði því að mér að Drífa Snædal hefði birt pistil á Smugunni. Hváði eilítið, því Drífa birtir eflaust reglulega pistla og efa ég ekki að innlegg hennar í umræðuna séu skelegg, marktæk og hnitmiðuð, þó ég hafi ekki gert að vana mínum að lesa pistla hennar fram að þessu.

Í fyrstu yppti ég annars hugar öxlum og spurði hví smáfuglinn goggaði svona forvitinn í öxlina á mér og dæsti svo, þegar mér varð loks ljóst að innihaldið í orðum Drífu snerist um femínisma, vinnustað minn og starfssystur í fjölmiðlageiranum.


Ég settist niður og las pistilinn þegar heim var komið. Mér finnst Drífa hafa margt til síns máls og pistillinn kynti undir forvitni minni. Okkur greinir á í mörgu, mér og Drífu og skoðanir okkar stangast oft á tíðum beinlínis á. En ég tek ofan fyrir þessari konu engu að síður, því ekki einungis gengur hún algerlega hreint til verks og stendur og fellur með skoðunum sínum undir fullu nafni, heldur örlar einnig á von eftir sáttaumleitan í orðum hennar, þreifingum á sameiginlegum grundvelli svo konur með ólík lífsviðhorf megi taka saman höndum í baráttu fyrir bættum kjörum og þess utan endar hún pistilinn á orðunum: Svar óskast!

Af þeirri einföldu ástæðu að ég sé mannkærleika endurspeglast í orðum Drífu og svo einnig þeirri áskorun að hún væntir svara; hef ég ákveðið að skrifa opið bréf til hennar og birta. Það er von mín að þetta verði ekki fyrsta og síðasta samtal okkar Drífu, því ég ber sjálf þá einlægu von í brjósti að konur úr öllum skúmaskotum þjóðfélagsins megi vinna saman að því að byggja upp náungakærleika og styrkja böndin, svo við megum vinna sameiginlega að því markmiði að leiðrétta þann kynbundna mun sem ríkir í þjóðfélaginu og hlúa að dætrum okkar, sem eru að vaxa úr grasi og erfa þjóðfélagið innan tíðar.

Drífa: Svar mitt er langort og ég fer víða. En mér liggur mikið á hjarta núna. 

Þú hefur pistil þinn á þeim orðum að „umræður undanfarinna daga um hlutverk kvenna í fjölmiðlum hafi verið eins og að hlusta á fólk tala um sitt hvort málið án þess að nokkur túlkur sé á svæðinu.“ Þú bendir réttilega á að umræðan um varalit og hlutverk kvenna hafi flætt yfir bakka sína á veraldarvefnum og að konur virðist skiptast í tvo hópa.

Ég fagna þessari opinskáu umræðu, sem hófst sem nafnlaust níð gegnum spjallþræði á netinu þegar Bleikt hóf göngu sína í desember og virðist taka mið af því einu að skipta konum í ólíka hópa, sem eru annars vegar með og hins vegar á móti konum sem hneigjast til umfjöllunarefna á borð við tísku og fegurð. En um leið fordæmi ég þá kvenfyrirlitningu og það persónuníð sem hefur einkennt umræðuna að sama skapi. Sjálf hef ég aldrei skilið þann ofsa sem einkennir umræðuna og er því fegnust að loks eru raddirnar stignar fram úr skugga nafnleysis og rógburðar. Þessari málefnalegu umræðu hlýt ég að fagna, því nafnlausu níði er ekki hægt að svara; skelegg umfjöllun sem miðar að því að sameina konur er hins vegar löngu þörf og þegar svo er komið að reyndar fjölmiðlakonur hrökklast úr sætum sínum vegna opinberra árása, læt ég til mín taka, hvort sem nærveru minnar er óskað eður ei.

Í pistli þínum segir þú allar þær konur sem lagt hafa orð í belg eiga það sameiginlegt að skilgreina sig sem femínista. Ég er femínisti, Drífa og það sama gildir um flestar þær íslensku konur sem hafa orðið á vegi mínum gegnum lífsleiðina. En hver verður að fá að fljúga sem hann er fiðraður til og þó ekki sé ávallt gripið til sömu orða, fæ ég ekki annað séð en að harðvítugur misskilningur tröllríði þjóðfélaginu; því allar konur vilja aukin réttindi og ekki þekki ég nokkra konu sem finnur sig knúna til að ýta undir kynbundið ofbeldi, skaðlega útlitsdýrkun og eyðileggjandi misrétti gagnvart kynsystrum sínum. Mér þykir afar leitt að kominn sé upp sá ljóti misskilningur að til séu „góðir og slæmir femínistar“ og ég er orðin uppgefin á því opinbera níði sem starfsssystur mínar og ég sjálf, þar með talin, hafa þurft að hlusta á undanfarna mánuði, allt í nafni „hreintrúnaðarstefnu“ sem miðar að því að gera lítið úr konum sem aðhyllast tísku og fegurð.

Drífa, þú ert málefnaleg og níðið sem ég hér vitna til er ekki fólgið í pistli þínum.

Þú segir réttilega að samkvæmt þínum kokkabókum sé femínisti ýmist karl eða kona sem veit að enn hallar á konur í íslensku samfélagi og vill leggja sitt af mörkum til þess að leiðrétta þær ofstækisfullu kreddur að konur hafi það eina hlutverk að vera undirgefnar lyðrur sem mega ekki orð leggja í belg. (Síðustu orðin eru reyndar úr mínum garði komin, en merking orðanna er sú sama, ekki satt?)

Bravó!

Ég tek undir þessa skilgreiningu, Drífa og þú mátt vera sannfærð um að ég hef aldrei litið svo á að til séu „góðir eða vondir“ femínistar. Sjálf hef ég orðið vör við fyrrgreindan skoðanaágreining sem þú nefnir til sögunnar hér. Mér þykir sárt að sjá og heyra hvernig talað er um hugmyndafræðina á opinberum vettvangi og ber þá einu ósk í brjósti að almenningur beri virðingu fyrir baráttumálum kvenna, en hafi ekki hugtök sem falla undir virðingu fyrir réttindum mínum og kynsystra minna að háði og spotti.

Hættið að tala illa um femínisma, bölvaðir fordómaseggirnir ykkar! 

Svo þú tilheyrir þeim hópi sem telur kynjajafnrétti ekki til framdráttar að fókusera á útlit kvenna og þrengja áhugamál þeirra; takmarka hugðarefni kvenna við tísku, förðun og líkamsrækt.

Drífa, það er allt í lagi! Okkur má greina á í einstaka málefnum og mér finnst þú smart fyrir vikið! Ég fagna fjölbreytileikanum, því ólíkar skoðanir kalla á heilbrigða og réttmæta gagnrýni og sé virðing höfð að leiðarljósi í samskiptum, getum við konur áorkað gríðarlega miklu, ef einungis við tökum höndum saman og berjumst réttilega fyrir því sem enn er aflaga; kynbundnu ofbeldi, afbakaðri dýrkun skaðlegra staðalímynda og svo því sem óskiljanlegt er að ekki er enn búið að lagfæra: 10% opinberum launamuni karla og kvenna.

En þar sem ég veit einnig að þú ert fylgjandi kynjakvóta skil ég illa orð þín þegar þú segir: „Hausatalningar eru birtingamynd en ekki innihald og því er það ekki markmið í sjálfu sér að konur hafi rödd í samfélaginu ef sú rödd er einhliða og gerir baráttunni ekki gagn – jafnvel stundum ógagn.“

Ég get ekki borið hönd yfir höfuð allrar kvenþjóðarinnar, því síður svarað opinberlega fyrir hönd allra þeirra fjölmiðlakvenna sem þú ert að vísa til. En þessi orð særa mig, því ég legg mig fram í starfi og skrifa ekki níðgreinar um konur, þó umfjöllunarefni mín falli ekki öllum í geð. Ertu  hér að segja að einungis „réttsýnar“ konur eigi rétt á stöðuveitingum hjá fjölmiðlum, með öðrum orðum þínar eigin skoðanasystur en engar aðrar konur; aðeins þær sem eru á sama máli og þú? Mér þykir þú hér gera lítið úr stöðu minni og þeirra kvenna sem ég starfa með og ýja að því að tilvist okkar í starfi hafi unnið skaða á málstað íslenskra kvenna.

„Ég skil þó að sumar konur í fjölmiðlum skuli skilja þessa gagnrýni sem árás á sig enda er gagnrýninni beint að því samfélagi sem hefur hampað þeim umfram aðrar konur,“ segir þú. Það er alveg rétt, ummælin geta á tiðum verið leiðinleg og orka einkennilega í augum okkar, sem verðum fyrir þessari orrahríð.

Ég hef barist fyrir sæti mínu á vinnustað og lagði mikið á mig til þess að komast þangað sem ég þó er komin í dag. Mitt ferðalag hefur ekki verið þrautalaust og ég hef rekið mig á fjölmarga veggi á leið minni gegnum lífið. Ég hef aldrei notið aðstoðar af hálfu karlmanns þegar ég hef sótt um starf, né hlotið starf á grundvelli þess að vera kona, hvað þá falleg kona, heldur hef ég hlotið mína viðurkenningu á atvinnumarkaðinum á grundvelli elju, hæfileika og úthalds. Ég er ómenntuð, einstæð tveggja barna móðir í leiguíbúð og hef aldrei orðið þess vör að samfélagið hampi mér eða starfssystrum mínum umfram aðrar konur, en kannski áttu ekki við mig og þær konur sem ég starfa með. Kannski áttu við „hinar“ konurnar, sem hafa barist jafn réttilega fyrir sínum stöðuveitingum og ég hef gert. En vita máttu, Drífa, að þessar konur hafa barist, sumar hverjar sigrað og það á háum hælum. Fyrir það eiga þær hinar sömu ekki háð og spott skilið. 

„Og kannski er þetta gagnrýni á þær,“ heldur þú áfram og ég tek undir með þér. Það er rétt. Umræðan undanfarna daga, vikur og mánuði hefur falið í sér óvægna og á stundum fyrirlitlega gagnrýni á okkur sem fjöllum um tísku, fegurð og heilsu. Umræða undanfarinna missera hefur tekið á sig svo ljóta mynd að sjálf hef ég verið kölluð hryðjuverkamaður og borin saman við ofsatrúarhópa innan Íslam, vegna þess eins að ég vakti athygli á baráttu kvenna fyrir femínísku lýðræði í Pakistan. Um daginn rak ég þá augun í níðpistil sem var skrifaður mér til höfuðs, þar sem undirrituð velti fram þeirri spurningu hvort ég væri hætt á Bleikt og var orðalagið dreymið.

Einnig hefur verið gefið í skyn að ég og starfssystur mínar séum ýmist: „Vel til hafðar útungunarvélar eða áhrifalausir einkaritarar með munúðarfulla afturenda,“ og jafnvel mín eigin móðir og systir mín, sem er búsett erlendis og hefur enga skoðun á þessu máli, hafa verið dregnar inn í nafnlausar níðumræður um nafn mitt og persónu á netinu, vegna þess eins að öðru hverju voga ég mér að skrifa um erótík á einum fjölsóttasta vefmiðli landsins: bleikt.is

Hvar eru fylgismenn femíniskra gilda þegar níðyrðin fljúga um mig á netinu?

Einhver sagði mig hafa borið fram illa rökstuddar yfirlýsingar, vegna þess eins að ég fullyrti að: „konur ættu rétt á að vera kvenlegar“ í helgarviðtali við DV nú í sumar og svo mikil var heiftin í gagnrýnisorðum þeim, að ég leyfði mér að draga í efa eitt andartak hvort ég hefði í raun enn ríkisborgararétt á Íslandi eftir fyrrgreindar ærumeiðingar.

Þú ert diplómatísk í orðum, Drífa og ég kýs að svara þér vegna þess að mér þykir pistill þinn málefnalegur. Þú segir í pistli þínum „...ég vil samt frekar nefna þetta ákall til þeirra að nota nú röddina til þess að þoka okkur öllum áfram.“

Vel mælt! 

Ég veit að þú beinir orðum þínum ekki til mín, en Drífa, ég finn mig engu að síður knúna til þess að svara þér og ég geri það, vegna þess að ég get mætt þér og langar að finna sameiginlegan flöt með þér á ólíkri sýn okkar beggja á femínisma. Ég ætla að grípa boltann úr höndum þínum og hlaupa það maraþon sem svarbréf mitt er og að því sögðu, ætla ég að kasta honum aftur yfir til þín. Mig langar að hjálpa þér að skilja mín sjónarmið, þó ekki hvarfli að mér að biðja þig að taka undir skoðanir mínar í einu og öllu. Mig langar að hlýða á þín orð yfir kaffibolla, Drífa og biðja þig að opna augu mín fyrir þínum baráttumarkmiðum, hafi ég ekki komið auga á þau nú þegar. 

„Hættan er að sjálfsögðu sú að slíkt yrði ekki líklegt til vinsælda hjá stjórnendum fjölmiðla og þær sviptar röddinni,“ segir þú og ég leyfi mér að draga slíkt í efa, nema ef ske kynni að ég leggi sjálfviljug fram uppsögn mína, líkt og Ellý Ármanns gerði fyrir stundu síðan, einfaldlega vegna þess að hún réði ekki við það neikvæða álag sem fylgdi því að standa í sviðsljósinu og vera grýtt í nafni kvenréttinda.

Þú segir: „Þessar konur, Bryndís Gyða, Tobba Marínós, Marta María og fleiri hafa skilgreint sig sem femínista og þess vegna hef ég áhuga á að ræða málin við þær af því ég á erfitt með að skilja femínismann í aðgerðum þeirra – ég vil hins vegar gjarnan skilja hann og vonandi komast að sameiginlegum flötum.“

Ég heiti Klara, ég ber virðingu fyrir orðum þínum og ég er hér. Ég vil hitta þig þegar leið þín liggur næst um Reykjavík og ræða málefnalega við þig í ró og næði. Ég vil ekki efna til orrahríðar á netinu, þó ég birti nú opið svar til þín hér, heldur vil ég setjast niður með þér og funda um stöðuna.

Já! Funda um stöðuna! Ég vil hlýða á þín sjónarmið og ég bið þig að hlusta á mín. Ég vil hlýða á mótandi og málefnalega umræðu sem miðar að því að efla hag íslenskra kvenna og styrkja vináttubönd okkar, sem höfum ólíkar áherslur en stefnum að sama markmiði.

Að endingu segir þú: „Ef við miðum við hina víðu skilgreiningu mína að ofan langar mig að vita í hverju er femínisminn fólginn hjá þeim konum sem hafa verið duglegar að skilgreina sig sem femínista á bloggsíðum, bleikt.is og í viðtölum.“

Það skal ég segja þér, kæra Drífa, ef þú samþykkir að hitta mig í hádegismat þegar leið þín liggur til Reykjavíkur næst og ræða við mig í persónu; með kærleika, gagnkvæma virðingu og umhyggju fyrir réttindum og baráttumarkmiðum kvenna að leiðarljósi.

„Svar óskast!“ eru þín lokaorð, kæra Drífa og hér hef ég orðið við beiðni þinni.

Pistil Drífu má lesa HÉR

No comments:

Post a Comment