Ég ók fram á ferðamann um daginn. Ekki á ferðamanninn, heldur fram á hann. Vongóðan Texasbúa, sem stóð eins og hamingjusamur bjálfi úti í vegakanti og þumlaði umferðina, sem hvissaðist fram hjá og veifaði afhuga bílstjórum, sem allir voru á leið eitthvað annað.
Alveg get ég orðið bit þegar ferðamenn standa vongóðir við Perluna og „þumla“ umferð. Húkka far. Veifa puttanum. Whatever.
Kannski sneri ég bílnum við og sótti manninn, því ég er nýkomin úr löngu ferðalagi og var fótgangandi í fimm vikur sjálf. Kannski vegna þess að undir niðri blundar örlítil þreyta á fyrirsögnum í fjölmiðlum sem snúast um ofbeldi gegn útlendingum. Og jafnvel bara vegna þess að mér fannst fáránlegt að sjá manninn standa með þumalinn út í loftið á gersamlega vonlausum stað, brosandi eins og bjána.
„Where are you headed?“ spurði ég þegar útlendingurinn brosti hress í kampinn og skutlaði bakpokanum í aftursætið. „Oh, yeah ... I need a ride to highway One,“ sagði hann með sterkum hreim. „I am going to hitchhike to Lamelooo,“ og svo þagnaði hann eftir að hafa hrósað veðrinu.
Stutt þögn.
„Are you planning a trip to Landmannalaugar?“ spurði ég varfærnislega. Ég held að „Lamelooo“ hljóti að vera íslenskt kennileiti og á ferðum mínum um heimsbyggðina hefur mér lærst að framburður íslenskrar tungu reynist erlendu fólki erfiður.
„Uh, yeah,“ sagði hann kæruleysislega og kastaði aftur þykku hárinu. „That´s what I said. Lamelooo.“
„Everybody´s been so nice since I came,“ hélt hann áfram brosandi meðan ég fitjaði upp á nefið og reyndi að halda uppi kurteisishjali við ókunnan Texasbúann. „And I plan on hitchhiking all the way to Lamelooo.“
Eitt andartak langaði mig að stoppa bílinn, rífa manninn niður í jörðina og öskra: „People are dying!“ en hélt aftur af mér, brosti krumpuð og sagði „Very nice. Have you got any contacts here in Iceland, someone that you can check in with every day, just to make sure that if you get lost ... people can notify rescue teams in time?“
En viðkunnalegi ferðamaðurinn misskildi mig. „Uh, yeah. My parents know I´m in Iceland, I sent them an email before I came.“
Vonlítil hélt ég áfram og sagði nú: „Yeah, that´s great, but you are travelling by your self and Iceland is a rough country. Do you have any friends over here that you can notify every day, do you have a GPS equipment and warm clothes to take along?“
Þegar hér var komið sögu, var Texasbúinn hættur að vera viðkunnalegur og iðaði örlítið í sætinu.
Sannleikanum laust niður í huga mér: Maðurinn misskildi mig og hélt að ég væri að fiska eftir númerinu. Bjarteygi Texasbúinn á leið til Lamelooo hélt í raun að ég væri að daðra.
Ég gat ekki sagt honum að ég væri áhyggjufull. Óttaslegin vegna allra þeirra fyrirsagna sem hafa borið fyrir augu mín á þessu ári um ferðamenn sem hafa orðið viðskila við hópa, vafrað út í veður og vind og komist til byggða á illan leik. Gat ekki útskýrt fyrir sármóðguðum puttalingnum að björgunarsveitir hefðu á tíðum vart undan að koma villtum ferðalöngum til hjálpar, þar á meðal einum sem sendi SMS til Spánar um daginn og sagðist „vera staddur við læk“ en gat engar aðrar upplýsingar gefið og þeirri leiðsögn urðu íslenskir björgunarsveitarmenn að fikra sig eftir þegar leit að manninum hófst.
Gat ekki útskýrt fyrir staðföstum Texasbúanum að ófáir ferðamenn hafa látið lífið í óbyggðum Íslands undanfarin ár og að björgunarsveitir búa við fjársvelti af hálfu hins opinbera, þrátt fyrir aukningu útkalla. Að þó „the lady at the hotel“ hafi sagt manninum að „the safest route on Landmannalaugar is between the four cabins, because they check the cabins every night, and if you check in and don´t check in again that same evening, they start looking for you instantly.“
Fékk ekki af mér að útskýra að slys á fólki geta orðið um allt land og að erfitt er fyrir björgunarsveitir að bregðast við mörgum útköllum á sama tíma, sér í lagi þegar kalla þarf þyrlu samtímis út vegna lífshættulegra slysa á börnum og forvitnum ferðamönnum sem hafa farið sér að voða við „Lamelooo“ eftir að hafa kastað hárinu kæruleysislega eftir og gleymt GPS tækinu, því einhver snillingurinn sagði að allt yrði í lagi: Fylgst væri með kofunum á hálendinu.
Ég ber óbilandi virðingu fyrir björgunarsveitarmönnum og því meiri fyrir hinni stórgrýttu náttúru Íslands. Fæ ekki af mér að skikka bjartsýna ferðamenn til, þegar hinir sömu leggja einsamlir upp í fífldjörf ferðalög til „Lamelooo“ og fyllist iðulega sorg þegar ég les um andlát á heiðum úti.
En ég get skrifað pistil í þeirri veiku von að mér takist að vekja örfáa lesendur til umhugsunar um það óeigingjarna og erfiða starf sem björgunarsveitarmenn sinna. Ég get með fáeinum orðum komið þakklæti mínu áleiðis til þeirra hugrökku manna og kvenna sem eru vakin og sofin yfir óbyggðum Íslands, koma erlendum bjartsýnismönnum til bjargar á „Lamelooo“ og hika sjaldan við að stefna eigin lífi í hættu svo aðrir megi lifa ferðina af.
Ég hef enga hugmynd um afdrif bandaríska ferðamannsins sem lagði upp í puttaferðalag til „Lamelooo“ fyrir fáeinum dögum, en þökk sé öflugu starfi íslenskra björgunarsveita, sem búa við þröngan kost og halda engu að síður ótrauð áfram: Ég veit að suðurríkjamaðurinn með síða hárið verður í öruggum höndum ef hann villist af leið.
Bravó fyrir þeim hugrökku einstaklingum sem skipa björgunarsveitirnar og óstöðvandi á heiðum og hálendi Íslands; hafa komið óteljandi einstaklingum til bjargar og aðstoðað ástvini við að finna þá sem hafa látið lífið á hrjóstrugum sléttum landsins, í þeim eina tilgangi að leggja þá sömu til hinstu hvílu.
Bravó, krakkar og takk fyrir að hafa hugrekki til að bjarga fólkinu sem villist á Lamelooo.
Pistilinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment