Það er rökkvað á torginu hennar Steinu. Hlýtt í lofti og einkennilega friðsælt. Hann lætur ekki mikið yfir sér, bleðillinn sem stendur við enda húsalengjunnar og virðist lítið meira en vesæl stétt á daginn. Steina hefur skrifað um torgið í pistlum sínum og segist stundum skreppa þangað þegar heitt er í veðri á daginn.
Ég hef aldrei komið á torgið áður. Það er að finna í Algorfa og er staðsett í hjarta þorpsins. Ég trúi henni ekki þegar hún segist fara þangað á kvöldin og taka börnin með, dreg eilítið seiminn og annað augað í pung.
Drengurinn er ekki vanur að flandra um í erlendum þorpum á kvöldin, hvað þá vaka fram yfir fréttatíma. Heima á Íslandi er hann drifinn í rúmið um leið og maturinn er tekinn af borðinu og fær ekki að standa upp fyrr en morgna tekur að nýju.
Drengurinn er ekki vanur að flandra um í erlendum þorpum á kvöldin, hvað þá vaka fram yfir fréttatíma. Heima á Íslandi er hann drifinn í rúmið um leið og maturinn er tekinn af borðinu og fær ekki að standa upp fyrr en morgna tekur að nýju.
En þau tala bara eitt tungumál, börnin. Það birtist í leik og brýst út í hlátri. Torgið er smækkuð útgáfa af himnaríki og lifnar við þegar rökkva tekur í þorpinu. Mannlífið iðar og spænska þjóðarsálin vaknar til lífsins þegar engispretturnar taka að syngja um ástina á kvöldin. Drengurinn minn, sem hefur aldrei fyrr leikið við börn á spænsku torgi, skilur umsvifalaust um hvað leikurinn á að snúast, meðan mæðurnar spjalla við lítið hringborð og ræða leyndarmál á tungumáli sem einungis konur skilja.
Hann blandar sér í hópinn með forvitnum handahreyfingum og hleypur af stað. Þau eru umhyggjusöm, ókunnug börnin, sem eru á öllum aldri og fara forvitnum augum um Galdur, sem dembir sér mitt í barnakösina, grípur voldugt barnareiðhjól og brunar af stað.
Þetta er stór stund í lífi Galdurs og börnin skynja alvöruna. Hann hefur aldrei stigið á hjól áður, hvað þá knúið pedala áfram. Móðurleg sex ára stúlkan, sem er dóttir Steinu, ræður ferðinni því hún heldur í stýrið en ábúðarfullur drengurinn, sem er af spænskum ættum, tryggir að barnið sitji kirfilega í hnakknum alla leiðina yfir torgið og til baka aftur.
Eflaust eru þau tíu talsins, sem elta hugfangið barnið, sem talar ekki stakt orð í öðru tungumáli og vart sínu eigin, en hjólar eins og sigurvegari á Ólympíuleikum og hlær, meðan túttan veltur og derhúfan böðlast undir framhljólið á stéttinni. En börnunum er alveg sama. Það er kvöld á torginu og umkringd foreldrum sínum, er þeim frjálst að leika.
Eitt augnablik langar mig að hrópa: „Farið varlega, krakkar mínir!“ en ég hætti við. Börnin hafa sitt lag á hlutunum. Það ríkir jafnræði á torginu. Drengurinn minn er svo fallega heilbrigður á torginu að eitt andartak langar mig að gráta. Þau skilja ekki hugtök á borð við greiningar og hafa aldrei heyrt um einhverfu, börnin á torginu og í raun er þeim eflaust sama, því leikurinn er allt sem skiptir máli og orð eru óþörf þegar þau bruna með Galdur á glæstu hjólinu.
Hann er fallegur í eigin styrkleikum þegar þeir eiginleikar sem hann hefur vald yfir fá að ráða. Þegar hann ræður eigin hraða og ferðast um í samræmi við getu. Hann er fallegur þegar hann sigrar heiminn með orðunum: „Bæ gúgú!“ og bendir á könguló sem skríður skelfingu lostin undan forvitnum fingrum drengsins. Stórbrotinn þegar hann stígur pedalana af miklum móð og óumdeildur sigurvegari þegar hann hendir sér í fang mitt, móður og másandi með servíettu í hendi og snýtir sér eftir leikinn.
Hann er fallegur þegar hann stígur skref sem honum var ógerlegt áður. Fyndinn þegar hann gónir furðu lostinn á einmana bjöllu skríða yfir stéttina í leit að skjóli. Ákveðinn þegar hann neitar að koma heim. Sposkur á svip þegar hann treður hendinni af áfergju inn í dótasjálfsalann á leið okkar til baka og undraverður þegar hann klæðir sig sjálfur úr við útihurðina.
Hann er óskrifað blað í sögu lífsins og lærdómsþyrst lítið barn sem hefur afsannað fyrir löngu þá kenningu, að einhverfir geti ekki myndað tengsl við annað fólk. Hann sigraði heiminn á torginu í kvöld því styrkleikar hans fengu að ráða og það eitt skiptir máli. Þess vegna ætla ég að leggja þroskaleikföng til hliðar um stund og leyfa Galdri að ferðast á sínum eigin hraða meðan við erum í litla þorpinu, því hann þekkir leiðina sem liggur að aukinni getu og leiðir mig að svarinu hjálparlaust.
Börnin geyma öll svörin sjálf; því þau tala máli engla.
Pistlinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment