Sunday, August 21, 2011

„Vertu úti, vinur"


Samskiptamiðillinn Facebook er öflugt tæki. Nota má miðilinn til að bera út rógburð, hefja aðra til skýjanna og koma skoðunum á framfæri. Giftingar og skilnaðir, barnsfæðingar og andlát: Engu skiptir hvert tilefnið er, alltaf er hægt að grafast fyrir um eðli og uppruna atburða með því einu að grandskoða Facebook.

Sjálf styðst ég við fréttir af Facebook í vinnunni. Ég er blaðamaður og eðli starfsins felur í sér að sannreyna heimildir, fylgja atburðarás afturábak að upphafi og velta upp fleiri hliðum á stökum málum, áður en ég mynda mér skoðun á því hvort efnið sé vænlegt til umfjöllunar. Og eins og það sé ekki nóg; ég get einnig dregið ályktanir og myndað mér skoðanir af athugasemdum annarra, sem deila fréttum af fjölmiðlum landsins.


Auðvitað koma upp ágreiningsmál. Ég er ekki lúnkin við að liggja yfir umræðuþráðum og lognast iðulega út af í miðjum rifrildum, sem snúast um hvaða silkihúfa á að koma ofan á hina, nema á mig sé yrt og það í mínu innsta rými: Minni eigin Facebook síðu.

Ég hef að mestu haldið mér utan við þjóðfélagsdeilur og kosið að þvaðra því meira um mýkri hliðar mannlífsins; þarfir og þrár kvenna sem eru farnar að nálgast miðjan aldur og stöku sinnum slæ ég á létta strengi í pistlum mínum.

Að blanda mér í einstaka ágreiningsmál um dagskrárgerð þáttagerðarmanna, efnistök annarra pistlahöfunda eða jafnvel vangaveltur um háralit kvenna, hegðan og raungreind vekur engan áhuga; hvorki hjá konunni, pistlahöfundinum né blaðamanninum mér.

Ég ber almenna virðingu fyrir konum og þrátt fyrir að ekki geti allir verið á sama máli, finnst mér ótækt þegar talað er niður til ungra stúlkna fyrir það eitt að bera annan háralit en harðlínufólk telur æskilegt, mér finnst hreint út sagt skelfilegt að snyrtivörur skuli nefndar í sömu andrá og gáfnafar og að háir hælar skuli vera átaldir merki um glyðrugang í daglegu lífi.

Þannig reis einn snillingurinn upp nú í morgun, örfáum mínútum eftir að ég hafði deilt pistli samstarfskonu minnará mínu eigin heimasvæði og hóf upp volduga raust sína. Í athugasemd sinni spurði hann mig hvort umrædd væri ekki einmitt ein af þeim „skinkum“ sem systurdóttir hans vitnar að hans sögn reglulega í. Fram kom þá einnig að umrædd systurdóttir hefur hvað eftir annað „dúxað í skóla“ og að hann væri afskaplega feginn að: „systurdóttir hans teldi sig ekki þurfa á því að halda að fara í bílaréttingar eða á sprautuverkstæði í útlitsbreytingu til þess að finnast hún einhvers virði.“

Nú hef ég aldrei heyrt þess getið að konur leitist við að breyta útliti sínu gegnum bílaréttingar né sprautuverkstæði og get einungis vonað það eitt að stúlkan sem maðurinn vitnaði í, sé ekki það stórgerð að vinnuvéla yrði þörf, ætlaði hún að breyta útliti sínu og líkamlegum áherslum, að mati vitringsins. Og vissulega dreg ég fyrrgreint stórlega í efa. Orðljótur dúxinn, sem kallar jafnöldrur sínar skinkur í daglegu tali, er eflaust fíngerð og falleg stúlka sem á framtíðina fyrir sér. Það voru stórkarlaleg orð mannsins sem stungu mig í augun og særðu siðgæðisvitund mína.

Af hverju leyfir fólk sér í sífellu að tala illa um fallegar konur á opinberum vettvangi og hvers vegna grípa svona fáir til varna?

Ég gerði vanmáttuga athugasemd við orð mannsins, þar sem ég sat með úfið hár og sötraði fyrsta kaffibolla dagsins. Benti honum á að það væri varla fallega gert af fullorðnum manni að fela sig á bak við orð systurdóttur sinnar, sem er jafnaldri samstarfskonu minnar og gera kæruleysislegar staðhæfingar hennar sem átyllu til að gera lítið úr ungum stúlkum, sem hafa skoðanir á mannlífinu og jöfnum réttindum kvenna með ólíka sýn á lífið.

En í stað þess að taka sneiðina til sín, veðraðist maðurinn nú allur upp og sagðist handviss um að útlit samstarfskonu minnar bæri vott um lágt sjálfsmat og klykkti kokhraustur út með því að hann þyrfti ekki átyllur til að setja fram niðrandi fullyrðingar um ungar stúlkur með ljósan háralit; nei, því með orðum mínum hefði ég nánast kallað stúlkuna allt annað en skinku sjálf.

Í meðferðargeiranum er ofangreind samræðutækni kölluð „frávarp,“ en höfundar greinar um Varnarhætti á Wikipedia komast ágætlega að orði um tæknina: Smellið HÉR til að lesa nánar.

Eitt andartak langaði mig að slá um mig með orðum Böðvars gamla frá Hnífsdal og bjóða manninum að stúdera viðhorf einstakra karla til kvenna á þriðja áratug síðustu aldar, en dró í land á síðustu stundu. Þó Böðvar gamli hafi þekkt konur, er ekki þar með sagt að geðstirðir, miðaldra menn sem fá útrás á Facebook geri slíkt hið sama.

Mér finnst sú hugmynd Ellýar og Tobbu að hrinda úr vör þætti sem sniðinn er að fegurð og heilsu, lífsstíl og samskiptum kynjanna stórkostleg. Að ung stúlka skuli hafa slíkt hugrekki sem skrifin þau útheimta, að koma stallsystrum sínum í fjölmiðlageiranum til opinberra varna þykir mér líka bera vott um virðingu fyrir því frumkvæði sem konur búa sannlega yfir og að miðaldra karlmenn skuli finna sig knúna til að skrá niðrandi athugasemdir um fallegar konur á mína eigin Facebook síðu, er ég leyfi mér að lýsa yfir stuðningi við fyrrgreint, þykir mér með öllu óhæft, siðlaust og úr takt við almenna kurteisi.

Ég er hvorki knúin áfram af uppblásinni siðgæðiskennd, né er það í eðli mínu að kasta mér umsvifalaust út í djúpu laugina þegar ágreiningsmál um æskilega hegðan og réttlætanlegt áhugasvið kvenna rísa upp í daglegu tali.

En ég hef vissulega full og óskipt réttindi til að velja þá einstaklinga sem standa mér næst í rafheimum og ég hef hvorki áhuga né vilja til þess að skeggræða útlit og áhugasvið þeirra kvenna sem kjósa að fjalla um fegurð og heilsu að atvinnu í niðrandi samhengi, vegna þess eins að miðaldra maður grípur þá fásinnu í sig að einungis þær konur sem kjósa að sneiða hjá snyrtistofum og gæti þess vandlega að aldrei sjáist í hold, eigi atkvæðisrétt í umræðunni.

Karlinn sem hóf upp raust sína á Facebook síðu minni í dag er ekki lengur vinur minn í rafheimum. Ég vísaði honum umsvifalaust á dyr fyrir niðurlægjandi orðaval í garð stúlkunnar sem hrósaði tilvonandi dagskrárgerðarkonum fyrir hugmyndaauðgi og frumkvæði í heimi fjölmiðla og ég mun gera slíkt hið sama, beri upp neikvæða umræðu í garð kvenna með ólík hugðarefni í mínu nánasta umhverfi aftur.

Ég mun eyða út þeim einstaklingum sem láta niðrandi orð falla um konur á Facebook síðu minni. Ég gerði það nú í morgun og mun gera það aftur, þar til engar athugasemdir standa eftir, sem fela í sér niðurlægjandi viðhorf til kynystra minna.

Ég get ekki umsnúið viðhorfum þeirra sem bera niðurlægjandi viðhorf í brjósti til þeirra kvenna sem hafa hugrekki til að vera fallegar í daglegu lífi. En ég get sannarlega kosið að halda mér utan við umræður sem fela í sér illa dulda kvenfyrirlitningu og andúð á fegurð.

Dætur þjóðarinnar, snúum bökum saman og upprætum fyrirlitningu í garð kynsystra okkar, í hvaða mynd sem umræðuna ber upp.

Til þin, sem skráðir orðin á síðu mína í morgun:

Vertu úti með ljótu orðin, vinur. Þessar konur eru systur mínar.  

No comments:

Post a Comment