Og þá að ferðalaginu sjálfu. Það er dásamlegt að ferðast. Það finnst mér. Öðruvísi að leggja upp í langferð með lítið barn, skrýtið að leigja íbúð í öðru landi og enn fáránlegra að hafa enga orðabók við hendina. Ég er ekkert gefin fyrir ferðamannastaði, því þó ég falli undir skilgreininguna „túristi“ sjálf, finnst mér einhvern veginn svo rómantískt að fara af stað með vegabréf og fyrirframgreitt kreditkort í farteskinu, setja derhúfu á drenginn og bíða andaktug í Leifsstöð þar til að flugtaki kemur.
Það er flókið að ferðast með lítið barn. Ekki vegna þess að börn verði að búa við reglu og gefi upp öndina ef kvöldmaturinn er kortéri of seinn á borðið, heldur vegna þess að þau hafa aðrar þarfir en fullorðnir og ég hef enga hugmynd um hvernig ég segi: „Er einhver skiptiaðstaða í nágrenninu? Sonur minn er búinn að kúka svo hressilega að ég verð að vippa þessari óguðlegu bleyju af bossanum áður en við köfnum bæði í anddyrinu...“
Þess í stað sagði ég tilneydd orðin: „Ayuda mi, por favor, está muy mal“, tók fyrir nefið og benti á barnið. Í lauslegri þýðingu útleggjast orðin sem: „Viltu vera svo góð/ur að hjálpa mér, þetta er mjög slæmt“ og otaði óttaslegin fingri að brúskaðri bleyju barnsins, sem spretti úr spori um leið og ég lyfti fingri og hvarf út í spænska nóttina, útataður í súkkulaði og með grunsamlega þunga bleyju í eftirdragi.
Ég veit núna hvernig ég hrópa á hjálp vegna banvænnar kúkableyju á spænsku:
Me ayudan, el niño está dispuesto a caca!
Vegir mæðra eru órannsakanlegir.
Spánverjar eru upp til hópa barnvæn þjóð. Hljóðlátir einstaklingar, athugulir og auðmjúkir við fyrstu sýn. Ég gerði mér ekki fulla grein fyrir því hversu vel íbúarnir í ofurlitla þorpinu fylgdust með drengnum mínum fyrr en vel var liðið á ferðina og umhyggja þeirra sem eldri voru, virtist á tíðum vera draumkennd og eilíf í eðli sínu.
Já, Spánverjar eru upp til hópa barnvænir einstaklingar með hlýja sál og athugul augu. Því komst ég að eitt kvöldið, þegar þriggja ára gamall sonur minn brunaði á brott í sólbökuðum sandölum, tróð bústinni hendinni upp í freistandi dótasjálfsala, rak upp gól þegar ekkert kom niður um pínulitla lúguna og hljóp einbeittur á svip í burtu; sármóðgaður og eilítið gráðugur í hreyfingum.
Rök og þvæld móðir hans sem úrvinda af svita og kókdrykkju, dröslaðist á fertugum fótum á eftir barninu, verður eilíflega þakklát spænskum körlum sem sátu í hring við eitt útiborðið og bentu allir í einu til hægri þegar ég hvíslaði: „Dondé está mi hijo?“ sem á bjagaðri spænsku merkir „Hvar er sonur minn?“
Svona var meginþorri ferðarinnar. Ég lærði að segja „hægri“ og „vinstri“ – „áfram“ og „afturábak“ – „hvar er sonur minn“ og svo auðvitað orðin ódauðlegu: „Mig vantar nýtt snuð, veistu hvar apótekið er?“
Þegar ofvirkniköst yngri sonar míns keyrðu um þverbak í suðrænni hitamollunni lærðist mér líka að útskýra fyrir undrandi vegfarendum að hann væri „un poco loco“ eða einfaldlega „doldið brjálaður“ og að hann væri „muy rapido y fuerte“ eða „afskaplega snöggur og sterkur“.
Á einhverjum tímapunkti rifjaðist allt í einu upp fyrir mér hvernig ég öskra á hjálp og að lokum lærðist mér að biðja afsökunar. Það er ógurlega áhrifaríkt að segja „Lo Siento“ þegar eitthvað gerist sem enginn á von á; en orðin þessi merkja einfaldlega „mér þykir þetta leitt“. Þessi orð fór ég með líkt og möntru þegar í verslunarmiðstöðina var komið; drengurinn fann nefnilega upp á því að grípa í ókunnar konur mér til skelfingar og skammar meðan ég skaust milli verslanna, vopnuð regnhlífarkerru og litlu barni með forvitna fingur.
Spænsku konurnar í fallegu kjólunum horfðu móðurlega á drenginn og orðin „de nada“ (iss, það var ekkert) urðu að fögru hljómfalli meðan ég ferðaðist í alltof litlum lyftum milli hæða og skrönglaðist í átt að næsta leigubíl.
Barnið braggaðist öll þessi lifandis ósköp á fimm vikna ferðalaginu, sem lauk í byrjun ágúst en hófst í Leifsstöð í lok júní. Bætti við sig íslenskum orðum í ókunnu landi, hló stórkarlalega að flækingshundum á ferðum okkar og er núna, mér til undrunar og gleði, farinn að taka utan um móður sína við ólíklegustu tækifæri, þar sem við vorum næstum orðin samvaxin á mjöðmunum eftir sólarhrings samvistir í rúman mánuð og grætur nú sáran þegar ég skil hann eftir á leikskólanum.
Fimm vikna ferðalag, sem krafðist allrar minnar útsjónarsemi og kænsku sem unnt er að beita á ögurstundu kenndi mér að allt er fertugum fært. Að mæður geta víst bjargað sér með bendingum og einkennilegum orðasamsetningum. Að bleyjur eru seldar um allan heim og að orðið „chupa“ merkið snuð. Þó vel sé liðið á sumarvertíðina, finn ég mig loks knúna til að deila bjagaðri spænsku minni með öðrum foreldrum í sambærilegri stöðu og ítreka að Spánverjar eru upp til hópa barnvænir og hlýjir einstaklingar sem hafa fullan skilning á fjölbreytilegustu aðstæðum sem komið geta upp á ferðalögum:
Mér þykir leitt að drengurinn skuli stöðugt vera að pota í yður, frú:
Lamento que el niño siempre debe ser para explotar, señora
Nei, nei, hann er alls ekki risi, íslensk börn eru bara stórvaxin:
No, no, no es un gigante, los niños son tan grandes en Islandia
Æ litla krúttið, hann er að reyna að segja kakkalakki á spænsku .... awww.
Oh, qué lindo que es, él está tratando de decir cucaracha en español .... awww.
Eftir gríðarlega útsjónarsamt ferðalag yfir höfin blá, ótrúleg ævintýri í spænskum stórmörkuðum og ógleymanlega flugferð get ég því einungis gefið öðrum foreldrum það ódauðlega ráð að senda mér hiklaust tölvupóst ef vanda ber upp í spænskumælandi löndum. Ég er snillingur í Google Translate, get eflaust sent ykkur útsmognar þýðingar á óvenjulegustu orðasamsetningum er tengjast athæfi lítilla barna í sólarlöndum og er næstum alltaf ... skilningsrík.
Pistilinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment