Alveg finnst mér óborganlegt þegar ég heyri spurninguna: „Með hvaða hætti hafa þessar konur barist gegn kynbundnu ofbeldi? Ha? Hvernig ætla þær að taka á stóru málunum?“ Stundum hvái ég (það gerist æði oft þessa dagana) og í fyrstu tók ég spurninguna nærri mér.
„Hvað á ég að gera?“ hugsaði ég í fyrsta sinn sem ég las spurninguna á prenti. „Þessar konur“ eru þær sem starfa við fjölmiðlun og örfáir en háværir einstaklingar segja þær styðja við og ýta undir neikvæðar staðalmyndir með umfjöllunarefnum sínum, í stað þess að skrifa harðvítugar umfjallanir um eðli og tíðni ofbeldis í nánum samböndum á Íslandi og algeran skort á skýrum lagaúrræðum sem snúa að réttindum þolenda í ofbeldissamböndum.
Einmitt.
„Hvað á ég að gera?“ hugsaði ég í örvæntingu við skrifborðið mitt þegar ég sá spurninguna skjóta upp kollinum um daginn og velti málinu lengi vel fyrir mér. „Ég gæti fordæmt ofbeldi og rekið upp herör“ var næsta hugsun. „Skrifað geggjaðar baráttugreinar sem taka mið af því að kenna konum að segja NEI við ofbeldi. Útskýrt fyrir mönnum að það MÁ EKKI lemja.“
Ekki nóg.
„Brjótast inn á heimili ef ég heyri óp bak við luktar dyr og skrifa síðan pistil um málið?“ var næsta hugsun? En ég hef æft sjálfsvarnaríþróttir og geri mér ljósa grein fyrir þeirri hættu sem er fólgin í fífldirfskunni að ganga mitt inn í aðstæður sem ég hef enga stjórn á sjálf. Sennilega hefði ég svo ekki hugrekki til að setja reynsluna á blað í kjölfarið. Þó ég hafi einhverju sinni spriklað út í loftið í skjóli þjálfara undir leiðsögn, er ekki þar með sagt að ég get sveipað mig skikkju og ráðið niðurlögum árásarmanna. Ég get ekki orðið öðrum konum í vanda að neinu liði, ef ég er berskjölduð sjálf.
Til að geta orðið öðrum að liði, þarf þitt eigið yfirráðasvæði að vera öruggt.
Reyndu aldrei að rökræða við ofbeldismann.
Auðvitað er þá alltaf hægt að leita til lögreglunnar, sem hefur það hlutverk að grípa inn í alvarlegar aðstæður, skilja fólk að og stilla til friðar. Þetta eru þeir einstaklingar sem í daglegu starfi koma að umferðarslysum, vinnuslysum og dauðaslysum. Lögreglumenn koma að morðum, sjálfsvígum, nauðgunum, líkamsárásum, ránum og ofbeldi í öllum mögulegum birtingarmyndum.
Fyrir kemur að lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra er hótað limlestingum og jafnvel dauða. Lögreglumenn snúa stundum bláir og marðir heim úr vinnu, jafnvel klóraðir í framan. Lögreglumenn sjá allar hliðar mannlegrar hegðunar og mannlegrar eymdar í sinni verstu mynd á vinnutíma og stundum hætta lögreglumenn lífi sínu, allt meðan á vinnutíma þeirra stendur.
Lögreglumenn hafa meðal annars það hlutverk að hindra framkvæmd kynbundins ofbeldis.
Grunnlaun lögreglumanna eru 211.802 krónur á mánuði.
Þann 10 júní 2011 varð „austurríska leiðin“ að lögum á Alþingi og þetta hefur að sjálfsögðu bein áhrif á dagleg störf lögreglumanna, sem búa við það álag sem hér er lýst að ofan. Lagasetningin er ein veigamesta réttarbót sem þolendur kynbundins ofbeldis hafa litið augum hér á landi, en úrræðið veitir lögreglu heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili sínu og banna honum heimsóknir þangað í tiltekinn tíma. Lagasetningin veitir þolendum kynbundins ofbeldis á eigin heimilum aukin mannréttindi og með þessu móti viðurkenndi Alþingi um leið að réttur þeirra er verða fyrir kynbundnu ofbeldi á heimili sínu vegur þyngra en þess er beitir ofbeldi. Hin raunverulega framkvæmd úrræðisins og ábyrgð er hins vegar í höndum lögeglu.
Fram að degi lagasetningarinnar hafði lögreglan það eina úrræði að fjarlægja fórnarlömbin og koma þeim í skjól, m.a. í neyðarathvarfi, en ofbeldismaðurinn fékk að sitja óáreittur á eigin heimili. Lögreglumönnum ber að framfylgja lögum, ekki að móta kringumstæður að geðþótta.
Lögreglumenn hafa nú verið samningslausir í tæpt ár, en hafa engan verkfallsrétt ólíkt því sem tíðkast meðal annarra starfsstétta. Byrjunarlaun lögreglumanna nema nú 211.802 krónum á mánuði, en það er 27.000 krónum lægra en byrjunarlaun leikskólakennara áður en nýjir kjarasamningar voru undirritaðir fyrir skömmu.
Ekki er þó gert ráð fyrir því að lögreglumenn, sem hafa þann starfa og skyldu að vernda þolendur kynbundins ofbeldis, vinni aukavinnu samhliða fullu starfi við lögæslu. Ef þeir hyggjast gera slíkt, verða þeir að tilkynna það til lögreglustjóra sem metur hvort gefa eigi leyfi. Engu að síður verða lögreglumenn að upplýsa embættið um skuldastöðu sína og þá einnig hverjum þeim skulda. Lögreglumönnum er óheimilt að þiggja gjafir í starfi.
Lífaldur lögreglumanna er lægri en annarra stétta og er ástæðan talin vera álag í starfi.
Þetta er kjarastaða þeirra sem standa vörð um almannaheill og eru fyrstir á vettvang þegar rökstuddur grunur leikur á að kona hafi verið beitt ofbeldi í einhverri mynd. Því kynbundið ofbeldi er ekki einungis frasi sem notaður er sem vopn í rökræðum um almenn réttindi kvenna, heldur raunverulegur vandi sem var falinn um langt skeið og kom ekki upp á yfirborðið í almennri umræðu fyrr en á áttunda áratug á síðustu öld.
Hugtakið „kynbundið ofbeldi“ var sumsé ekki fundið upp á aðalfundi Femínistafélagsins og er ekki ætlað að vera orðasvipa í daglegu þrasi, heldur lýsir hugtakið alvarlegum vanda sem getur hæglega kostað mannslíf, grípi lögregla ekki á tíðum inn í atburðarásina í tæka tíð.
Það er sem sagt alveg stranglega bannað að lemja konur og varðar við lög.
Það fellur í hlut lögreglumanna að framfylgja þeim lögum sem sett eru á Alþingi. Þrátt fyrir að lögreglumönnum beri að framfylgja þeim lögum sem alþingismenn knýja í gegn á þingi, getur alþingismaður fengið varamann til að sitja á þingi fyrir sig meðan hann eða hún situr af sér fangelsisdóm. Lögreglumenn eru hins vegar reknir ef þeir brjóta af sér.
Talsvert var deilt um gildi Austurrísku leiðarinnar, eins og lagasetningin er kölluð en ólík öfl innan íslenskra stjórnmála háðu harða baráttu og var málið á þvælingi fram og til baka um kerfið í nokkur ár. Þann 12 september 2008 var málið fyrst lagt fyrir Alþingi, en tillagan var í það skiptið felld af 35 þingmönnum.
Heilli viku eftir að Austurríska leiðin var lögleidd á Alþingi þann 10 júní á þessu ári og lögreglumönnum, sem enn eru samningslausir og hafa verið um langt skeið, var loks veitt lagaleg heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu lýsti Samband Íslenskra Sveitafélaga yfir þungum áhyggjum af framkvæmd lagasetningarinnar og kom meðal annars fram á fréttavef RÚV að ekki væri ásættanlegt að sveitarfélögin yrðu að sjá ofbeldismönnum, sem vísað er af heimili sínu, fyrir húsnæði.
Á fréttavef RÚV kom m.a. fram: „Reykjavíkurborg á engin önnur úrræði fyrir ofbeldismenn en gistiskýli sem rekin eru fyrir heimilislausa.“ Einnig kom fram að: „Samband Íslenskra Sveitarfélaga teldi ný lög um brottvikningu ofbeldismanns auka við skyldur sveitarfélaga, umfram önnur lög.“
Þess má geta að yfirlýsing þessi var lögð fram viku eftir lagasetninguna og því ótækt að meta með hvaða hætti sveitarfélögin meta svo að heimilislausir ofbeldismenn verði samfélaginu þyngri baggi en fórnarlömb á flótta; klæðalitlar konur og á stundum limlest börn, sem þurfa að leita á náðir ríkis og bæja þegar ofbeldismaðurinn neitar að yfirgefa heimilið. Fréttin bar heitið „Ofbeldismenn með heimilislausum“ en hana má lesa á vef RÚV í heild sinni HÉR
Auðvitað kemur þetta mér allt saman afar einkennilega fyrir sjónir; að harðvítugar kvenréttindakonur sem hafa barist gegn dýrkun neikvæðra staðalmynda skuli hafa hafnað Austurrísku leiðinni á Alþingi árið 2008, að lögreglumenn, sem hafa þá framkvæmd á herðum sínum að fjarlægja ofbeldismenn sem sveitarfélögin telja byrði á herðum þeirra, skuli enn vera samningslausir og hafi verið í tæpt ár þegar hér er komið sögu, með 220.000 krónur í mánaðarlaun og að einhverjir vitringarnir skuli virkilega telja á ábyrgð fjölmiðlakvenna að berjast fyrir útrýmingu kynbundins ofbeldis, þegar staðreyndin er sú að skýrra lagasetninga og framkvæmdar löggjafavaldsins er þörf, ásamt aukinni viðurkenningu karla á kynbundnu ofbeldi og þörfinni fyrir að stemma stigu við slíku.
Ein alvarlegasta birtingarmynd þöggunar er einmitt sú að reyna að telja konum, og þar með talið fjölmiðlakonum, trú um að opinber umræða um kynbundið ofbeldi eigi einungis að vera í höndum kvenna; að karlmenn séu á einhvern hátt undanskildir þeirri þungu ábyrgð að berjast leynt og ljóst gegn dýrkun ofbeldis og þöglu samþykki kynbundinna árása.
Mér er hjartanlega sama í hvaða hús ofbeldismenn eiga að venda, sé þeim hinum sömu vísað af eigin heimili og vona í raun að einhverjir þurfi að gista í bílakjallara eftir beinbrot og limlestingar á varnarlausum konum. Ég er slegin yfir þeirri staðreynd að einu athugasemdir Sambands Íslenskra Sveitarfélaga, viku eftir að Austurríska leiðin var lögleidd á Alþingi nú í sumar, skuli vera yfirlýsingar um bága fjárstöðu sveitarfélaga á Islandi og þá auknu ábyrgð sem færist yfir á Félagsþjónustuna, vilji svo til að karlmanni sé vísað út með lögregluvaldi af eigin heimili fyrir að kjálkabrjóta eiginkonu sína í æðiskasti og meinað að snúa þangað aftur um tiltekinn tíma.
Af þessum viðhorfum mínum er nafn pistilsins dregið; en þegar ég las umfjöllun um yfirlýsingar Sambands Íslenskra Sveitarfélaga frá því í sumar komu mér fyrrgreind orð í hug.
„Varstu að lemja konuna, krúttið þitt?“
Það sem ég á við með því, er að þrátt fyrir baráttu einstakra þingmanna fyrir nýrri lagasetningu sem verndar þolendur og skýran vilja lögreglumanna, sem búa við mikið brottfall úr stéttinni vegna bágra kjara, líta sveitarfélög enn svo á að gerendur muni auka byrði skattgreiðenda, verði þeim vísað út af heimilum sínum og örfáir telja á valdi fjölmiðlakvenna að stemma stigu við vandanum með reglubundnum umfjöllunum.
Til þess að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi þurfa fleiri aðilar en fjölmiðlakonur að koma til. Styrkja þarf stöðu lögreglumanna, svo hæft fólk fáist til starfa. Til að það sé hægt, verður að semja við þá aðila sem hafa þann daglega starfa að verja líf kvenna og stemma stigu við kynbundnu ofbeldi.
Lögreglumenn.
Það er von mín að almenningur gangi nú skörulega til verks og krefjist úrbóta í málefnum þeirra sem standa vörð um okkar málefni; lögreglumanna sem hætta lífi sínu í starfi svo stemma megi stigu við kynbundnu ofbeldi, með öllum mögulegum ráðum.
Við sem skrifum fréttirnar höfum einungis það hlutverk að miðla líðandi atburðum til almennings, við höfum ekki vald til að knýja fram lagabreytingar. Við sem skrifum fréttirnar getum sannlega vakið máls á kjörum ákveðinna þjóðfélagshópa, en á okkar valdi sem höldum um pennann er ekki að hemja og móta mannlegt eðli, heldur einungis að draga fram og skýra stöðu þeirra sem þurfa sárlega á úrbótum að halda.
Það er máttur fjöldans og fordæming neikvæðra athafna sem knýr samfélag til breytinga, ekki vangaveltur kvenna um ákjósanlega hegðun og framkomu. Það veit sá sem allt veit, að sjái ég örla á samstöðuvilja meðal íslenskra kvenna til þess að knýja fram kjarasamninga fyrir lögreglumenn og konur, sem standa sannlega vörð um réttindi þeirra sem eiga sárt að binda, verð ég fyrst allra til að grípa lúðurinn og básúna tíðindum svo heyrist skýrt og greinilega.
Stelpur, það er kominn tími til að krefjast úrbóta í nafni mannúðar og kærleika. Hver ykkar ætlar að taka við kyndlinum úr hendi mér og bera hann áfram?
No comments:
Post a Comment