Orðin ógurlegu.
Mig langar í kærasta.
Síðasti pistill fæddist einhvern veginn bara. Það vill enginn vera „dessa“ en það er skammaryrði yfir konur sem eru orðnar þreyttar á endalausu markaðspoti og verða „desperate“ með tímanum.
Það þykir aldrei boða gott að vera „desperate“. Einhleyp kona skal vera fálát og undirgefin í samskiptum við hitt kynið, helst óræð og einkar nægjusöm. Að sjálfsögðu skal einhleyp kona til hins ítrasta njóta þess að vera á lausu og fyrir alla muni, ekki ræða löngun til þess að deila hugðarefnum með hinu kyninu. Líkt og orðin ein hafi slíkt töfragildi, að lýsi kona yfir löngun til að deila rúmi með manni; verði slíkt hið sama að neikvæðri möntru, sem svo aftur gerir það að verkum að viðkomandi muni aldrei ganga út.
Konur eiga að kunna að hjálpa sér sjálfar.
Með tilkomu kvenfrelsisbyltingarinnar hefur umræðan um batterí reyndar brostið á svo um munar. Flóðbylgja ummæla um kynlífsleikföng hefur tröllriðið spjallsíðum og kaffiboðum undanfarin ár og stundum kallað fram kinnroða hjá undirritaðri. Konur ættu fyrir alla muni að eiga hjálpartæki og leikföng af öllum stærðum og gerðum; kúlur og bolta, göndla og víbrandi dótafélaga sem öllum er ætlað það eina hlutverk að leysa karlmenn af hólmi, gott ef ekki í eitt skipti fyrir öll.
Þá ræða konur gjarna kynfæri sín opinskátt; „Rósin mín“ verandi eitt af þeim orðum sem kynfræðingar hafa uppálagt þeim kynsystrum okkar sem hafa feminísk gildi að leiðarljósi að nota. Í dag má segja „píka“ ef kona fer með frasann. Þykir ekki lengur dónalegt. Það er fátt eitt sem fellur undir bannyrði í kaffiboðum kvenna, ef undanskilin eru ofansögð orð.
Mig langar í kærasta.
Kona sem fer með slíka frasa, er af flestum stallsystrum sínum álitin eitthvað skrýtin.
Sá lítinn skets á YouTube um daginn, senu úr myndinni Shaft in Africa frá árinu 1973. Í senunni var ljósleit kona kynnt til sögunnar, sem með klókindum tókst að ginna gamla leynilögreglumanninn upp á herbergi og reyndi ólm og uppvæg að draga hann á tálar.
„Mr. Shaft, you can usually tell by a mans nose,“ sagði gellan útsmogin á svip og smellti látleysislega í góm meðan hún skáskaut augunum að rúminu; „...and the length and thickness of his thumbs ...“
Umrædd sena var mikil opinberun fyrir mig, sem undrandi gapti á skjáinn. Mátti segja svona árið 1973? Er virkilega hægt að lesa í karlmenn á þessa vegu? Myndu einhverjir troða bómul í nasavængina, pumpa silicon í þumlana og breiða úr hvoru tveggja á barnum ef víst væri?
Mig langar í kærasta.
Kannski ég hendi batteríunum, skreppi á barinn og hvísli letilega út yfir borðið: „I always look for a man with a prominent nose ... and long, thick thumbs.“
Það mátti fyrir tæpum fjörtíu árum síðan. Því ekki í dag?
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment