Wednesday, December 15, 2010

Allt sem ekki má

Ég veit ekkert skemmtilegra en að kaupa snyrtivörur. Mála varirnar rósrauðar „svo minni á opin kvenmannssköp“ samkvæmt skilgreiningu prófessors sem reyndar var vikið úr starfi fyrir nokkrum árum síðan, fyrir það eitt að gera opinberlega aðsúg að kvenlegum fyrirsætum.

Mér þykir hæfileg „klámvæðing“ skemmtileg í einkalífinu. Haldið ykkur fast; ég á nokkur sett af sokkaböndum og fór í mína fyrstu litgreiningu tólf ára gömul. Hef tékkað mig inn í lýtaaðgerð og gerst sek um að kaupa brjóstahaldara með púðum. Klæðist háhæluðum skóm þegar mikið liggur við. Kann að vera einsömul og elska ábyrgðarlaust daður.

Ég hef gaman að karlmannlegum kvikmyndum frá sjöunda áratugnum. Clint Eastwood þykir mér bestur. Æðstur allra er þó Charles Bronson. Lostafullar senurnar í Morgan Kane bókunum koma mér til og innst inni dreymir mig um að vera handtekin.

Þá hef ég ekki tölu á þeim síðkvöldum sem ég hef varið í dagdrauma og smástúlkulegar hugmyndir um væntanlegan lífsförunaut; hvaða eiginleikum hann skuli helst gæddur og hvar ég muni væntanlega rekast á hann í fyrsta sinn.

There. I´ve said it. Allt sem ekki má. Viðurkennt löngun mína eftir maka og einlægri nánd. Útlistað andúð minni á einhliða notkun hjálpartækja ástarlífsins og opinberað skoðun mína á ljúfri nauðsyn rennilegs lífsförunautar. Gert lítið úr viðurkenndum hugtökum og baðað mig upp úr andfemínískum ljóma konu, sem þráir ekkert heitar en að kynnast góðum manni og dekstra við heimilið, með blúndum lagða svuntu um grannt mittið og fjaðrakúst í vel snyrtri hönd.

Mig langar einfaldlega til að kynnast karlmanni sem kann að meta mig sem konu. Karlmanni sem gengur ekki um með dýrari skartgripi en ég; karlmanni sem notar ekki rakakrem. Mig langar að kynnast karlmanni sem þénar meira og lyftir þyngri hlutum en ég er fær um að gera. Ég þrái karlmann sem kann að meta sokkabönd og síðkjóla, opnar hurðir á undan mér og skiptir um dekk þegar springur á bílnum. Umfram allt langar mig þó að kynnast karlmanni sem áreynslulaust hefur frumkvæði að kynnum okkar og er fær um að halda glæðunum á lífi.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að fullkomið jafnræði geti aldrei ríkt milli kynjanna. Til eru störf sem fáar konur geta sinnt; líkt og að standa uppi á dekki í byljandi stormi. Karlmönnum er þá ókleift að ganga með börn. Kynin eru einfaldlega ólík að gerð og lögun.  

Og það er allt í lagi.

Mér finnst gaman að vera kona og enn skemmtilegra að upplifa kynbundinn mun á síðkvöldum, meðan ég tala undir rós við væntanlegan elskhuga og daðra út í nóttina, óræð á svip. Mér finnst yndislegt að finna hæðarmun á mér og manni.

Ég vill ekki; tala hærra, lyfta þyngra eða ráða yfir stærri einingum en karlmaður.

Þau sérkenni sem ég bý yfir sem kona, eru nefnilega stórkostleg. Og ekki langar mig að standa jafnfætis karlmanni, hvað þá hegða mér sem slíkur. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að kona, sem þráir það eitt að líkjast karlmanni, hljóti að skorta allan metnað.

Í mínum augum eiga konur nefnilega að setja markið hærra.

Þær eiga að vera konur. 


Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment