Hið víðfemda tengslanet kvenna liggur eins og ósýnilegur þráður milli húsþaka, þéttriðið milli kaffibolla og gegnum símalínur; smáskilaboða og tvíræðra tölvupósta. Birtist oftar en ekki í formi hálfkveðinna vísna, lágrödduðum samtölum sem fram fara á rökkvuðum síðkvöldum; fagurlega mótuðum og vel máluðum vörum sem hvísla hálfluktri vitneskju um hitt kynið undir fjögur augu og svo má lengi áfram telja.
Hið víðfemda tengslanet kvenna læðist milli ilmvatnsglasa og framandi netsokka, fléttar sig um fagurmótaða leggi og fær okkur allar til að flissa að grandalausum körlum, sem vita ekki oftar en ekki hvaðan á sig veðrið stendur fyrr en sannleikurinn skellur flatur á borðinu; orðunum: „Kannski hefur hann aldrei lært að tala,“ sem er klassíker.
Þessi lína kallar alltaf fram myndina af Gísla á Uppsölum. „Hann er bara svona lokaður“ er einkar vinsæl útskýring, þó hún standist ekki við nánari athugun. Ég á sæg af vinum sem tala fjálglega um upplifanir sínar af hinu kyninu yfir kaffibolla, en þegja þegar heim er komið.
„Listen to my words – believe in my actions“ er ein besta lína sem kvenleg heyrn mín hefur numið gegnum tíðina og með það eitt í huga, hefur mér tekist að lesa í óteljandi vonbiðla undanfarin ár og oftar en ekki tekist að svara spurningum vinkvenna minna sem forviða velta upp efninu: „Hvers vegna talar hann aldrei um tilfinningar sínar?“
Karlmenn hafa óteljandi tjáningarform og túlka oft tilfinningar sínar og viðhorf á fjölbreytilegustu vegu. Opna hurðir fyrir ástkonum, vaska upp að löngum vinnudegi loknum og leggja fram aðstoð sína, þegar neyð ber að höndum hjá konu. Eini munurinn er fólginn í þeirri staðreynd að karlmenn nálgast umræðuna oft á ólíka vegu, séu þeir bornir saman við konur. Meðvitaðir um að fæst orð beri minnsta ábyrgð, sýna þeir því oftar en ekki væntumþykju í verki.
Og karlmanni sem langar að kynnast konu, vefst ekki tunga um tönn, langi hann að bjóða umræddri á stefnumót. Karlmanni sem langar að kynnast konu, reynist stundum erfitt að stynja upp orðunum: „Má bjóða þér á deit?“ en orðin koma, skynji hann hæfilega hvatningu af hálfu konunnar.
Stefnumótadansinn er nefnilega eins konar samspil og á aldrei að vera fólginn í fíflalegum eltingarleik. Ég var til að mynda að deita um daginn, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. En þar sem ég hef stúderað getu karlmanna til að hafa frumkvæði grannt undanfarin ár, kom mér á óvart hversu ástmaður minn reyndist feiminn við að bera upp einfaldar spurningar á borð við: „Má ég koma í heimsókn til þín?“
Sá hinn sami, sem ég er reyndar hætt að hitta í dag, kenndi mér með framkomu sinni að þegar karlmaður þegir; er næsta víst að hann telji að þér kunni að mislíka svörin. Enginn er svo lokaður að honum takist ekki að mynda sér opinbera skoðun á næturstað. Aldrei hef ég heyrt talað um karlmann sem „dettur“ inn í samband. Karlmaður sem er þvingaður í samskiptum er einfaldlega hræddur við að koma fram af hreinskilni og einurð því hann óttast viðbrögð konunnar sem hann kann að meta.
Svo einfalt er það.
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment