Ég trúi á mátt einlægni og seiðandi gildi sanninda. Ég trúi á mátulegar játningar og hæfilegan skammt af hreinskilni. Ég trúi á einhleypar konur sem enn beita fyrir sig ástinni og veit að það eru karlmenni á sveimi í höfuðborginni, sem gera slíkt hið sama. Ég trúi ekki á platónsk samskipti sem enda loks í rúminu á fimmtánda stefnumóti og hef enga trú á því að karlmaður missi áhugann, gerist kona ástleitin.
Ég trúi á þekkingu þá sem konur öðlast með aldrinum og veit að ekkert er kynþokkafyllra en sjálfsöryggi. Þegjandi samþykki er ekkert endilega smart, þó því sé borið fyrir í bókum.
Þó á ég stórskemmtilega bók, sem kom út fyrir löngu og ber nafnið Reglurnar. Í stuttu máli sagt snýst innihald bókarinnar um þær „reglur“ sem konur setja fyrir sig á stefnumótum og þau tákn sem þær lesa í. Bókin góða boðar ansi harðan sannleik og á vart erindi á íslenskan markað þar sem hún meðal annars boðar það eitt að „stefnumót á laugardegi skulir þú aldrei samþykkja seinna en á miðvikudegi.“
Hef talsvert velt umræddri reglu fyrir mér og hvað hún eiginlega þýði. Merkir þetta að karlmaðurinn skuli bera ómælda virðingu fyrir tíma konunnar, sem augljóslega (samkvæmt Reglunum) er svo gríðarlega upptekin að sé fundur ekki bókaður með viku fyrirvara, sé ómögulegt að komast að?
Í bókinni góðu segir: „Maður sem hefur í hyggju að kvænast þér bíður ekki fram á síðustu stundu með að bjóða þér út. Þvert á móti er hann kurteis og tillitsamur og dauðhræddur um að ef hann bjóði þér ekki út með að minnsta kosti fimm daga fyrirvara fái hann ekki að hitta þig fyrr en eftir viku eða meira“
Samkvæmt bókinni góðu skaltu þá „aldrei ávarpa mann að fyrra bragði og ALLS EKKI bjóða honum upp í dans.“ Oh boy, ég hef þverbrotið reglurnar nú þegar. Hvað hef ég gert? Frumkvæði er fráhrindandi. Ef ég einungis hefði haft vit á því að halda aftur af mér áður en ég trúlofaði mig hér um árið, hefði látið vera að senda ástmanni mínum línu eftir fyrstu nótt okkar saman og hent gsm símanum mínum.
Stigagangurinn væri eflaust enn fullur af blómum. Og ég ... ófáanleg, tæki enn fálát á mót rómantískum hraðsendingum – yppandi öxlum og blakandi augnhárunum.
Ég er vonlaus yngismeyja.
Þrátt fyrir alla þá reynslu sem ég hef lagt að baki, á ég nefnilega erfitt með að fylgja fyrirfram ákveðnum stefnumótareglum og veit ekki fyrir nokkurn mun hvernig ég á að hegða mér þegar þess er krafist að ég sýni af mér hegðun sem samræmist mannasiðum á borð við þá sem ástarsögur og sjálfshjálparbækur boða.
Ég er öllu líklegri til að klæðast flegnum fatnaði, glyðrast gegnum kvöldið og flissa viðstöðulaust ofan í hálsmálið á dansherranum, flögra á augnhárunum einum saman út í myrka nóttina og hvísla letilega út í rökkrið meðan ég læðist gegnum árafjöldann sem ég hef þegar lagt að baki.
Þar sem ég er vonlaus rómantíker, ætla ég því að beita fyrir mig einlægni næst þegar ég fer á stefnumót. Þá ætla ég að mala letilega af unaði ef maðurinn opnar fyrir mér hurðina, missa vasaklútinn minn í gólfið og halla mér mjúklega fram í flegnum bol þegar hann býðst til að borga reikninginn. En umfram allt, ætla ég að láta starfsmenn matvöruverslanna um að lesa ástarsögur í matartímum. Ég harðneita að kaupa fleiri bækur úr Rauðu Seríunni, jafnvel þó þær fari á tilboð í Hagkaup.
Ég ætla að fylgja eigin hyggjuviti og innsæi þegar að stefnumótareglum kemur, því ég er einnig þeirrar trúar að stefnumótaklækir séu báðum kynjum meðfæddir og að sannleikurinn verði ekki fundinn upp gegnum fallegar bækur, heldur fólk sem er með gott hjartalag.
No comments:
Post a Comment