Wednesday, December 8, 2010

All By Myself

„Þú ættir að njóta þess að vera einhleyp, Klara“ var oftar en ekki viðkvæðið hér í den þegar ég, sem ung kona á leið út í lífið, impraði á þeim lymska dagdraum að kynnast karlmanni. Einhverjum sem myndi svipta mig ráði og rænu með útbreidda arma að vopni, brosmildum kavalíer sem, með kveikjara einn í vasanum, myndi leiftra í kvenlegum vindling og væntalega hjarta mínu um leið, meðan ég blakaði augnhárunum og brosti út í niðdimma nóttina.
 
„Þú ættir að læra að njóta þess að vera ein“ sungu miðaldra mæður oftar en ekki í kór meðan ég setti á mig varalit og vænti þess að mæta manni á miðri leið meðan ég fikraði mig varfærnislega niður Laugaveginn og tók stefnuna á barinn, vongóð um að allar góðar stúlkur hefðu fyrir löngu farið í háttinn og gætu því ekki gripið mig glóðvolga á ferðalagi mínu til Gómórru gleðinnar. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég setti skömmustuleg á mig perlur og rjóð í kinnum smellti mér í háa hæla; ég hef enga tölu á því hversu oft ég skimaði laumulega í kringum mig í þeirri von að engin virðuleg húsmóðir með röntgenaugu biði mín handan við húshornið og mældi mig vandlætislega út.

„Þú skalt vona að þú verðir ein“ var viðkvæðið meðan ég læddi nælonsokkum upp langa leggina og lét mig dreyma um nálægð og nautnir. „Ekki bíða eftir manni.“ Og þannig lærðist mér að vonin eftir nánd er skammaryrði, svo skelfilega þurfandi að við liggur að úthrópa þurfi konur sem kunna að laða að sér hitt kynið. Samkvæmt umræddri heimspeki þykir einsemd ekki bara smart, heldur um leið afar eftirsóknarverð. Hver þarfnast enda rakvélar á tímum kvenfrelsis og til hvers fara konur í lýtaaðgerðir til annars en að ganga í augun á óvininum?

Klara, þú átt að taka þér nokkur ár núna og læra að vera ein.“  Þessi orð heyrði ég oftar en ekki og einsömul bar ég því samviskusamlega Hagkaupspoka upp tröppurnar sem lágu að einfeldningslegri risíbúðinni sem ég tók á leigu sem ung og einstæð móðir, sannfærð um að loks væri ég að gera rétt, þegar ég neitaði ástleitnum elskhuga mínum um húslykla. Einhvers staðar á leiðinni lærðist mér einnig að það er ekkert virðulegra en kona sem borgar sína reikninga sjálf, skiptir samviskusamlega um dekk þegar springur í rigningu og afþakkar alla hjálp við burð húsgagna.

„Þú skalt njóta þess að vera ein“ sönglaði kvennakórinn í skipulögðum tón, þegar ég fyrir nokkrum árum sleit sambandi og gerði mér endanlega grein fyrir því að nokkur tími myndi að  öllum líkindum líða þar til ég hvíldi að nýju í örmum álitlegs elskhuga, niðurbrotin yfir þeirri staðreynd að hér með væri daglegur unaður með öllu, út af borðinu, nema ef vera skyldi að ég þjónustaði mig sjálf.

Það tók mig árin mörg að átta mig á þeirri staðreynd að kvennakórinn, sem hefur sönglað í eyru mín undanfarin tuttugu ár – er harðgiftur og kemur heim til eiginmanna á hverju kvöldi. Það hefur tekið mig tímana tvenna að átta mig á því að það var aldrei óuppfyllt þrá mín eftir félaga sem hvatti þessar konur til að gefa mér óumbeðin ráð; það var þeirra eigin óánægja í umræddum hjónaböndum sem knúði þær til að yfirfæra eigin þrár á litla stúlku, sem var að feta sín fyrstu spor út í lífið og þráði það eitt að kynnast ungum manni.

Það kostaði mig gríðarlegt hugrekki að standa upp að lokum og þurrka skömmina af andliti mínu áður en ég fór yfir með þann einfeldningslega sannleika, að ekki einungis hef ég aldrei misst sjónar á töfrum ástarinnar heldur einnig þeirri staðreynd að ég er fullþroska kona sem hefur síður en svo í hyggju að eldast einsömul. 


Pistlilinn má lesa í heild sinn á bleikt.is: Smellið HÉR



No comments:

Post a Comment