Mér er minniststæð bókin úr Rauðu Seríunni sem bar nafnið „Engir karlmenn, takk!“ eftir hina ódauðlegu Sigge Stark. Bókin sú arna fjallaði um konur sem tóku höndum saman og stofnuðu kommúnu í kjölfar áfalla í einkalífinu.
Í stuttu máli sagt snerust reglur kommúnunnar um fjarvist karla og samstöðu gagnkynhneigðra kvenna – sem allar sem ein höfðu ákveðið að líta aldrei hitt kynið aftur augum. Ein af fætur öðrum falla þær fyrir grunsamlega kynþokkafullum kavalíeríum og laumast á fundi þeirra í skjóli nætur. Þó ég muni enda ekki hvernig bókin góða endar, minnir mig að allar hafi þær höndlað ástina að lokum, blessunarlega frelsaðar úr viðjum einsemdar og vissar um endalok, sem myndu sæma hefðardömum.
Ég var ekki há í loftinu þegar ég las bókina góðu. Reyndar var ég ekki nema tíu ára gömul. Ég átti erfitt með að greina innihaldið á tíðum og gerði mér enga grein fyrir því af hverju konurnar í bókinni voru sumar hverjar svona skelfilega bitrar. Erótískar senurnar þvældust fyrir mér þar sem ég, tíu ára gömul, hafði að sjálfsögðu aldrei verið kysst og því spólaði ég annars hugar yfir háfleygar lýsingar á logandi lendum og innilegum kossum.
Skilaboðin voru engu að síður augljós. Konur eiga að vera skelfilega þverar og karlmenn einkar staðfastir. Lífið endar um þrítugt og það eru bara leiðindaskarfar sem taka pokann sinn og fara, þegar höfnun blasir við. Sannir karlmenn klífa fjöll og falla í stafi þegar kona svarar ekki símanum í þriðja sinn. Þegar þar er komið sögu, setjast sannir karlmenn niður og skrifa bréf, höggva tré í eldivið og hrópa nafn konunnar við ljúfan lækjarnið síðla kvölds, helst meðan þeir veiða silung.
Sannir karlmenn kljúfa höfnun í herðar niður, sýna aldrei veikleikamerki og myndu fremur veslast upp og deyja, en að sjá á bak ástinni sinni. Raunverulegar konur eru þá fámálar, fremur fjarlægar og afar erfiðar í allri nálgun. Sannar konur flögra gjarna um á kvenlegum hælum, líkt og léttstígar skógargyðjur og eru einkar viðkvæmar á tilfinningasviðinu.
Sannar konur þarfnast mikillar verndar og eru allar á óræðum aldri.
Umrædd staðaltýpa þvælist nokkuð fyrir mér þessa dagana, þar sem ég er að feta mín fyrstu skref á stefnumótamarkaðinum eftir talsvert hlé. Af og til verður mér hugsað til ritsnilldar Sigge Stark og velti því fyrir mér um leið hvernig konunum í bókinni datt í hug að stofna kommúnu.
Ég er fremur opin í allri nálgun sjálf og velti því af og til fyrir mér hvort einlægni sé fráhrindandi. Á ég að vera eins og konurnar í bókinni hennar Sigge Stark – hrópa „láttu mig í friði!“, læðast svo bak við næsta horn og bíða þess í ofvæni að staðfastur vonbiðillinn stiki sterklegum skrefum yfir nærtækustu hraðahindrun og renni gleiðfættur yfir yfirborðskenndar mótbárur mínar, eða er fremur við hæfi að ég þegi leyndardómsfull yfir kertaljósum, brosi óræð út í rökkrið og hlusti af svo seiðandi athygli að jaðri við banvænu blóðþrýstingsfalli?
Vissulega hvíslar Sigge Stark stundum í eyru mín og rödd hennar er full trúnaðartrausts þegar hún reynir að telja mér trú um að eftirsóknarverðar séu þær konur sem eru ófáanlegar. Eitthvað segir mér þó að farið sé að slá út í fyrir henni fröken gömlu Stark, þar sem nútímakarlmenn bera skartgripi, öfugt við sjarmöra Rauðu Seríunnar og lesa gjarna Cosmopolitan sjálfir, þó ekki væri nema til að glugga í hugarheim kvenna.
Það var ekki fyrr en nýverið að ég áttaði mig á þeirri leiðu staðreynd að karlmennirnir hennar Sigge Stark eru ekki til nema í skáldsögum og konurnar sem stofnuðu kommúnuna yrðu réttilega álitnar samkynhneigðar.
Ágengir karlmenn eru nefnilega öllu jöfnu handteknir og ófáanlegar konur enda uppi einar.
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment