Stefnumótareglur hafa þvælst fyrir augunum á mér að undanförnu. Óskrifaðar reglur markaðsins hafa breyst síðan ég stóð á tvítugu og þar er tækninni helst um að kenna. Hér í den fóru einhleypir á djammið og kræktu sér í kortér í þrjú daður, skruppu á kaffihús á fimmtudögum og blikkuðu yfir borðið.
Fyrirrennar gsm tækja, símboðarnir, þóttu gríðarlega smart þegar ég var yngri og karlmaður sem gekk með slíkt tæki á mjöðminni þótti sýna af sér eins konar vald í samskiptum. Ekki mátti hringja í símboða nema mikið lægi við og þar af leiðandi voru þeir lítt notaðir í stefnumótaleikjum. Fyrir einum fimmtán árum síðan skrifuðu konur enn bréf og sendu boðsmiða inn um lúguna hjá viðkomandi, sér í lagi ef tilgangurinn var að bjóða á deit. Ég er orðin svolítið ringluð í stefnumótaleikjunum og kann ekki að fikra mig eftir vefsíðum nútímans, sem yngri kynslóðin kann svo listilega að meðhöndla.
Sjálfri finnast mér aldursmörk seiðandi. Líkt og aldurinn færi manni ákveðna reisn, kynferðislega yfirvegun og áður óþekkt sjálfsöryggi. Það get ég svarið að mér finnst eitthvað smart við það eitt að verða fertug.
Ég er orðin konan sem ég óttaðist fyrir tuttugu árum síðan, meðvituð kynvera sem þræðir hugðarefni sín af kostgæfni, nautnum og yfirvegun, næstum letilega eins og malandi köttur á dúnmjúkum sófasvæfli. Ég er orðin konan sem klæðist fatnaði sem ég hefði aldrei látið mig dreyma um þegar ég var yngri. Gone are the days of youth, þegar ég klæddist gallabuxum og bol við hvert tækifæri, brosti feimnislega þegar strákur bauð mér út og varð skotin í einhverjum fyrir rælni.
Ég er orðin að konunni sem ég leit upp til í gamla daga. Ég klæðist korsettum við hvert tækifæri, bý yfir hugrekki til að ganga í nælonsokkum og veit upp á hár, hversu fleginn bolurinn á að vera. Vandi nútímans er aftur á móti ekki fólginn í því hvernig klæðnaður er ákjósanlegur, heldur öllu fremur í því hvernig ég tek mig út á ljósmyndum. Sannleikurinn er nefnilega sá, að með tilkomu tölvunnar hefur stefnumótaleikurinn tekið á sig aðra ásýnd og tilhugalífið, sem áður fór fram á þreyttum og lúnum kaffihúsum, fer nú fram inni í heimabúinni stofu. Fyrir framan tölvuskjá. Í dag er eins gott að kona, sem er að feta sín fyrstu skref á markaðinum eftir ákveðinn tíma, hafi aðgang að góðum ljósmyndara og allra helst að förðunarfræðing líka, sem hefur getu og þolinmæði til að standa af sér langar og þreytandi myndatökur af konu, sem er að feta sín fyrstu skref á markaðinum og ætlar sér að koma vel fyrir í samskiptum við hitt kynið.
Vinkona mín, sem gjörþekkir einkamálasíðurnar, fór til að mynda á blint stefnumót í gær, eftir æsispennandi leik á internetinu undanfarnar vikur. Eftir miklar vangaveltur um ágæti mannsins á bak við ljósmyndirnar, samþykkti vinkona mín með semingi saklausa kaffihúsaferð og klykkti út með orðunum: „reynslan hefur kennt mér að meðan kemistría ríkir á netinu, er hið sama yfirleitt upp á tengingnum in real life.“
Ég er aftur á móti algerlega ný á rafræna markaðinum og þyrstir í að læra reglurnar sem fylgja vefsíðum. Tjékk; á fallegar myndir. Tjékk; er hnyttin í tilsvörum. Tjékk; nota gsm síma.
Þar af leiðandi fylgi ég hinni alvitru vinkonu minni hvert skref, ef undanskilin eru deitin sem hún krækir í gegnum internetið af slíkri kostgæfni og kunnáttu, að sjálfri svimar mig við tilhugsunina. Ég kemst ekki með tærnar þar sem hún hefur hælana á rafræna stefnumótamarkaðinum.
Skellti því upp nýrri forsíðumynd á Facebook þegar ljóst var orðið að vinkonan hafi krækt í rafrænt stefnumót „in real life“ eins og hún kallar það – allt gegnum internetið sem mér er enn hálf ókunnugt. Hringdi spennt í hana hálftíma fyrir deitið og beið í ofvæni (ásamt konunni) eftir því að herrann myndi hringja bjöllunni, reiðubúinn að hefja leikinn í persónu.
Staðráðin í að sigra heiminn með annarri hendi, vopnuð seiðandi forsíðumynd og yfirborðskenndri kunnáttu á „Are You Interested“ setti ég í framhaldinu Barry White á fóninn og syrgði þá staðreynd að enginn heyrði tónlistina nema ég.
Vinkonan kvaddi glaðbeitt í gærkvöldi gegnum símann og flögraði meðvituð um eigin kynvitund á vit örlaganna. Sjálf starði ég á skjáinn og rýndi í einkennilegar prófílmyndir af tilvonandi sjarmörum á síðum „Are You Interested“ og endurspilaði Barry White til miðnættis í gærkvöldi. Ég hef ekki enn heyrt í vinkonunni og veit því ekki hvernig stefnumótið endaði. En kveðjuorð hennar eru mér enn minnisstæð.
Hún klykkti nefnilega út með orðunum „hvað ef ég kem ekki eins vel fyrir í persónu og ljósmyndirnar af mér gáfu til kynna?“
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR