Thursday, December 30, 2010

Málaðu mig fallega

Stefnumótareglur hafa þvælst fyrir augunum á mér að undanförnu. Óskrifaðar reglur markaðsins hafa breyst síðan ég stóð á tvítugu og þar er tækninni helst um að kenna. Hér í den fóru einhleypir á djammið og kræktu sér í kortér í þrjú daður, skruppu á kaffihús á fimmtudögum og blikkuðu yfir borðið.

Fyrirrennar gsm tækja, símboðarnir, þóttu gríðarlega smart þegar ég var yngri og karlmaður sem gekk með slíkt tæki á mjöðminni þótti sýna af sér eins konar vald í samskiptum. Ekki mátti hringja í símboða nema mikið lægi við og þar af leiðandi voru þeir lítt notaðir í stefnumótaleikjum. Fyrir einum fimmtán árum síðan skrifuðu konur enn bréf og sendu boðsmiða inn um lúguna hjá viðkomandi, sér í lagi ef tilgangurinn var að bjóða á deit. Ég er orðin svolítið ringluð í stefnumótaleikjunum og kann ekki að fikra mig eftir vefsíðum nútímans, sem yngri kynslóðin kann svo listilega að meðhöndla.

Sjálfri finnast mér aldursmörk seiðandi. Líkt og aldurinn færi manni ákveðna reisn, kynferðislega yfirvegun og áður óþekkt sjálfsöryggi. Það get ég svarið að mér finnst eitthvað smart við það eitt að verða fertug.

Ég er orðin konan sem ég óttaðist fyrir tuttugu árum síðan, meðvituð kynvera sem þræðir hugðarefni sín af kostgæfni, nautnum og yfirvegun, næstum letilega eins og malandi köttur á dúnmjúkum sófasvæfli. Ég er orðin konan sem klæðist fatnaði sem ég hefði aldrei látið mig dreyma um þegar ég var yngri. Gone are the days of youth, þegar ég klæddist gallabuxum og bol við hvert tækifæri, brosti feimnislega þegar strákur bauð mér út og varð skotin í einhverjum fyrir rælni.

Ég er orðin að konunni sem ég leit upp til í gamla daga. Ég klæðist korsettum við hvert tækifæri, bý yfir hugrekki til að ganga í nælonsokkum og veit upp á hár, hversu fleginn bolurinn á að vera. Vandi nútímans er aftur á móti ekki fólginn í því hvernig klæðnaður er ákjósanlegur, heldur öllu fremur í því hvernig ég tek mig út á ljósmyndum. Sannleikurinn er nefnilega sá, að með tilkomu tölvunnar hefur stefnumótaleikurinn tekið á sig aðra ásýnd og tilhugalífið, sem áður fór fram á þreyttum og lúnum kaffihúsum, fer nú fram inni í heimabúinni stofu. Fyrir framan tölvuskjá. Í dag er eins gott að kona, sem er að feta sín fyrstu skref á markaðinum eftir ákveðinn tíma, hafi aðgang að góðum ljósmyndara og allra helst að förðunarfræðing líka, sem hefur getu og þolinmæði til að standa af sér langar og þreytandi myndatökur af konu, sem er að feta sín fyrstu skref á markaðinum og ætlar sér að koma vel fyrir í samskiptum við hitt kynið.


Vinkona mín, sem gjörþekkir einkamálasíðurnar, fór til að mynda á blint stefnumót í gær, eftir æsispennandi leik á internetinu undanfarnar vikur. Eftir miklar vangaveltur um ágæti mannsins á bak við ljósmyndirnar, samþykkti vinkona mín með semingi saklausa kaffihúsaferð og klykkti út með orðunum: „reynslan hefur kennt mér að meðan kemistría ríkir á netinu, er hið sama yfirleitt upp á tengingnum in real life.“

 Ég er aftur á móti algerlega ný á rafræna markaðinum og þyrstir í að læra reglurnar sem fylgja vefsíðum. Tjékk; á fallegar myndir. Tjékk; er hnyttin í tilsvörum. Tjékk; nota gsm síma.

Þar af leiðandi fylgi ég hinni alvitru vinkonu minni hvert skref, ef undanskilin eru deitin sem hún krækir í gegnum internetið af slíkri kostgæfni og kunnáttu, að sjálfri svimar mig við tilhugsunina. Ég kemst ekki með tærnar þar sem hún hefur hælana á rafræna stefnumótamarkaðinum.

Skellti því upp nýrri forsíðumynd á Facebook þegar ljóst var orðið að vinkonan hafi krækt í rafrænt stefnumót „in real life“ eins og hún kallar það – allt gegnum internetið sem mér er enn hálf ókunnugt. Hringdi spennt í hana hálftíma fyrir deitið og beið í ofvæni (ásamt konunni) eftir því að herrann myndi hringja bjöllunni, reiðubúinn að hefja leikinn í persónu.

Staðráðin í að sigra heiminn með annarri hendi, vopnuð seiðandi forsíðumynd og yfirborðskenndri kunnáttu á „Are You Interested“ setti ég í framhaldinu Barry White á fóninn og syrgði þá staðreynd að enginn heyrði tónlistina nema ég.

Vinkonan kvaddi glaðbeitt í gærkvöldi gegnum símann og flögraði meðvituð um eigin kynvitund á vit örlaganna. Sjálf starði ég á skjáinn og rýndi í einkennilegar prófílmyndir af tilvonandi sjarmörum á síðum „Are You Interested“ og endurspilaði Barry White til miðnættis í gærkvöldi. Ég hef ekki enn heyrt í vinkonunni og veit því ekki hvernig stefnumótið endaði. En kveðjuorð hennar eru mér enn minnisstæð.

Hún klykkti nefnilega út með orðunum „hvað ef ég kem ekki eins vel fyrir í persónu og ljósmyndirnar af mér gáfu til kynna?“

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Sunday, December 26, 2010

Orð eru til alls líkleg

Hið víðfemda tengslanet kvenna liggur eins og ósýnilegur þráður milli húsþaka, þéttriðið milli kaffibolla og gegnum símalínur; smáskilaboða og tvíræðra tölvupósta. Birtist oftar en ekki í formi hálfkveðinna vísna, lágrödduðum samtölum sem fram fara á rökkvuðum síðkvöldum; fagurlega mótuðum og vel máluðum vörum sem hvísla hálfluktri vitneskju um hitt kynið undir fjögur augu og svo má lengi áfram telja.

Hið víðfemda tengslanet kvenna læðist milli ilmvatnsglasa og framandi netsokka, fléttar sig um fagurmótaða leggi og fær okkur allar til að flissa að grandalausum körlum, sem vita ekki oftar en ekki hvaðan á sig veðrið stendur fyrr en sannleikurinn skellur flatur á borðinu; orðunum: „Kannski hefur hann aldrei lært að tala,“ sem er klassíker.

Þessi lína kallar alltaf fram myndina af Gísla á Uppsölum. „Hann er bara svona lokaður“ er einkar vinsæl útskýring, þó hún standist ekki við nánari athugun. Ég á sæg af vinum sem tala fjálglega um upplifanir sínar af hinu kyninu yfir kaffibolla, en þegja þegar heim er komið.

„Listen to my words – believe in my actions“ er ein besta lína sem kvenleg heyrn mín hefur numið gegnum tíðina og með það eitt í huga, hefur mér tekist að lesa í óteljandi vonbiðla undanfarin ár og oftar en ekki tekist að svara spurningum vinkvenna minna sem forviða velta upp efninu: Hvers vegna talar hann aldrei um tilfinningar sínar?“

Karlmenn hafa óteljandi tjáningarform og túlka oft tilfinningar sínar og viðhorf á fjölbreytilegustu vegu. Opna hurðir fyrir ástkonum, vaska upp að löngum vinnudegi loknum og leggja fram aðstoð sína, þegar neyð ber að höndum hjá konu. Eini munurinn er fólginn í þeirri staðreynd að karlmenn nálgast umræðuna oft á ólíka vegu, séu þeir bornir saman við konur. Meðvitaðir um að fæst orð beri minnsta ábyrgð, sýna þeir því oftar en ekki væntumþykju í verki.

Og karlmanni sem langar að kynnast konu, vefst ekki tunga um tönn, langi hann að bjóða umræddri á stefnumót. Karlmanni sem langar að kynnast konu, reynist stundum erfitt að stynja upp orðunum: „Má bjóða þér á deit?“ en orðin koma, skynji hann hæfilega hvatningu af hálfu konunnar.

Stefnumótadansinn er nefnilega eins konar samspil og á aldrei að vera fólginn í fíflalegum eltingarleik. Ég var til að mynda að deita um daginn, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. En þar sem ég hef stúderað getu karlmanna til að hafa frumkvæði grannt undanfarin ár, kom mér á óvart hversu ástmaður minn reyndist feiminn við að bera upp einfaldar spurningar á borð við: „Má ég koma í heimsókn til þín?“

Sá hinn sami, sem ég er reyndar hætt að hitta í dag, kenndi mér með framkomu sinni að þegar karlmaður þegir; er næsta víst að hann telji að þér kunni að mislíka svörin. Enginn er svo lokaður að honum takist ekki að mynda sér opinbera skoðun á næturstað. Aldrei hef ég heyrt talað um karlmann sem „dettur“ inn í samband. Karlmaður sem er þvingaður í samskiptum er einfaldlega hræddur við að koma fram af hreinskilni og einurð því hann óttast viðbrögð konunnar sem hann kann að meta.

Svo einfalt er það.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Tuesday, December 21, 2010

Reglurnar

Ég trúi á mátt einlægni og seiðandi gildi sanninda. Ég trúi á mátulegar játningar og hæfilegan skammt af hreinskilni. Ég trúi á einhleypar konur sem enn beita fyrir sig ástinni og veit að það eru karlmenni á sveimi í höfuðborginni, sem gera slíkt hið sama. Ég trúi ekki á platónsk samskipti sem enda loks í rúminu á fimmtánda stefnumóti og hef enga trú á því að karlmaður missi áhugann, gerist kona ástleitin.

Ég trúi á þekkingu þá sem konur öðlast með aldrinum og veit að ekkert er kynþokkafyllra en sjálfsöryggi. Þegjandi samþykki er ekkert endilega smart, þó því sé borið fyrir í bókum.

Þó á ég stórskemmtilega bók, sem kom út fyrir löngu og ber nafnið Reglurnar. Í stuttu máli sagt snýst innihald bókarinnar um þær „reglur“ sem konur setja fyrir sig á stefnumótum og þau tákn sem þær lesa í. Bókin góða boðar ansi harðan sannleik og á vart erindi á íslenskan markað þar sem hún meðal annars boðar það eitt að „stefnumót á laugardegi skulir þú aldrei samþykkja seinna en á miðvikudegi.“ 

Hef talsvert velt umræddri reglu fyrir mér og hvað hún eiginlega þýði. Merkir þetta að karlmaðurinn skuli bera ómælda virðingu fyrir tíma konunnar, sem augljóslega (samkvæmt Reglunum) er svo gríðarlega upptekin að sé fundur ekki bókaður með viku fyrirvara, sé ómögulegt að komast að?

Í bókinni góðu segir: „Maður sem hefur í hyggju að kvænast þér bíður ekki fram á síðustu stundu með að bjóða þér út. Þvert á móti er hann kurteis og tillitsamur og dauðhræddur um að ef hann bjóði þér ekki út með að minnsta kosti fimm daga fyrirvara fái hann ekki að hitta þig fyrr en eftir viku eða meira“

Samkvæmt bókinni góðu skaltu þá „aldrei ávarpa mann að fyrra bragði og ALLS EKKI bjóða honum upp í dans.“ Oh boy, ég hef þverbrotið reglurnar nú þegar. Hvað hef ég gert? Frumkvæði er fráhrindandi. Ef ég einungis hefði haft vit á því að halda aftur af mér áður en ég trúlofaði mig hér um árið, hefði látið vera að senda ástmanni mínum línu eftir fyrstu nótt okkar saman og hent gsm símanum mínum.

Stigagangurinn væri eflaust enn fullur af blómum. Og ég ... ófáanleg, tæki enn fálát á mót rómantískum hraðsendingum – yppandi öxlum og blakandi augnhárunum. 

Ég er vonlaus yngismeyja.

Þrátt fyrir alla þá reynslu sem ég hef lagt að baki, á ég nefnilega erfitt með að fylgja fyrirfram ákveðnum stefnumótareglum og veit ekki fyrir nokkurn mun hvernig ég á að hegða mér þegar þess er krafist að ég sýni af mér hegðun sem samræmist mannasiðum á borð við þá sem ástarsögur og sjálfshjálparbækur boða.

Ég er öllu líklegri til að klæðast flegnum fatnaði, glyðrast gegnum kvöldið og flissa viðstöðulaust ofan í hálsmálið á dansherranum, flögra á augnhárunum einum saman út í myrka nóttina og hvísla letilega út í rökkrið meðan ég læðist gegnum árafjöldann sem ég hef þegar lagt að baki.

Þar sem ég er vonlaus rómantíker, ætla ég því að beita fyrir mig einlægni næst þegar ég fer á stefnumót. Þá ætla ég að mala letilega af unaði ef maðurinn opnar fyrir mér hurðina, missa vasaklútinn minn í gólfið og halla mér mjúklega fram í flegnum bol þegar hann býðst til að borga reikninginn. En umfram allt, ætla ég að láta starfsmenn matvöruverslanna um að lesa ástarsögur í matartímum. Ég harðneita að kaupa fleiri bækur úr Rauðu Seríunni, jafnvel þó þær fari á tilboð í Hagkaup.

Ég ætla að fylgja eigin hyggjuviti og innsæi þegar að stefnumótareglum kemur, því ég er einnig þeirrar trúar að stefnumótaklækir séu báðum kynjum meðfæddir og að sannleikurinn verði ekki fundinn upp gegnum fallegar bækur, heldur fólk sem er með gott hjartalag.

Sunday, December 19, 2010

Engir karlmenn, takk!

Mér er minniststæð bókin úr Rauðu Seríunni sem bar nafnið „Engir karlmenn, takk!“ eftir hina ódauðlegu Sigge Stark. Bókin sú arna fjallaði um konur sem tóku höndum saman og stofnuðu kommúnu í kjölfar áfalla í einkalífinu.

Í stuttu máli sagt snerust reglur kommúnunnar um fjarvist karla og samstöðu gagnkynhneigðra kvenna – sem allar sem ein höfðu ákveðið að líta aldrei hitt kynið aftur augum. Ein af fætur öðrum falla þær fyrir grunsamlega kynþokkafullum kavalíeríum og laumast á fundi þeirra í skjóli nætur. Þó ég muni enda ekki hvernig bókin góða endar, minnir mig að allar hafi þær höndlað ástina að lokum, blessunarlega frelsaðar úr viðjum einsemdar og vissar um endalok, sem myndu sæma hefðardömum.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég las bókina góðu. Reyndar var ég ekki nema tíu ára gömul. Ég átti erfitt með að greina innihaldið á tíðum og gerði mér enga grein fyrir því af hverju konurnar í bókinni voru sumar hverjar svona skelfilega bitrar. Erótískar senurnar þvældust fyrir mér þar sem ég, tíu ára gömul, hafði að sjálfsögðu aldrei verið kysst og því spólaði ég annars hugar yfir háfleygar lýsingar á logandi lendum og innilegum kossum.

Skilaboðin voru engu að síður augljós. Konur eiga að vera skelfilega þverar og karlmenn einkar staðfastir. Lífið endar um þrítugt og það eru bara leiðindaskarfar sem taka pokann sinn og fara, þegar höfnun blasir við. Sannir karlmenn klífa fjöll og falla í stafi þegar kona svarar ekki símanum í þriðja sinn. Þegar þar er komið sögu, setjast sannir karlmenn niður og skrifa bréf, höggva tré í eldivið og hrópa nafn konunnar við ljúfan lækjarnið síðla kvölds, helst meðan þeir veiða silung.

Sannir karlmenn kljúfa höfnun í herðar niður, sýna aldrei veikleikamerki og myndu fremur veslast upp og deyja, en að sjá á bak ástinni sinni. Raunverulegar konur eru þá fámálar, fremur fjarlægar og afar erfiðar í allri nálgun. Sannar konur flögra gjarna um á kvenlegum hælum, líkt og léttstígar skógargyðjur og eru einkar viðkvæmar á tilfinningasviðinu.

Sannar konur þarfnast mikillar verndar og eru allar á óræðum aldri.

Umrædd staðaltýpa þvælist nokkuð fyrir mér þessa dagana, þar sem ég er að feta mín fyrstu skref á stefnumótamarkaðinum eftir talsvert hlé. Af og til verður mér hugsað til ritsnilldar Sigge Stark og velti því fyrir mér um leið hvernig konunum í bókinni datt í hug að stofna kommúnu.

Ég er fremur opin í allri nálgun sjálf og velti því af og til fyrir mér hvort einlægni sé fráhrindandi. Á ég að vera eins og konurnar í bókinni hennar Sigge Stark – hrópa láttu mig í friði!“, læðast svo bak við næsta horn og bíða þess í ofvæni að staðfastur vonbiðillinn stiki sterklegum skrefum yfir nærtækustu hraðahindrun og renni gleiðfættur yfir yfirborðskenndar mótbárur mínar, eða er fremur við hæfi að ég þegi leyndardómsfull yfir kertaljósum, brosi óræð út í rökkrið og hlusti af svo seiðandi athygli að jaðri við banvænu blóðþrýstingsfalli?

Vissulega hvíslar Sigge Stark stundum í eyru mín og rödd hennar er full trúnaðartrausts þegar hún reynir að telja mér trú um að eftirsóknarverðar séu þær konur sem eru ófáanlegar. Eitthvað segir mér þó að farið sé að slá út í fyrir henni fröken gömlu Stark, þar sem nútímakarlmenn bera skartgripi, öfugt við sjarmöra Rauðu Seríunnar og lesa gjarna Cosmopolitan sjálfir, þó ekki væri nema til að glugga í hugarheim kvenna.

Það var ekki fyrr en nýverið að ég áttaði mig á þeirri leiðu staðreynd að karlmennirnir hennar Sigge Stark eru ekki til nema í skáldsögum og konurnar sem stofnuðu kommúnuna yrðu réttilega álitnar samkynhneigðar.

Ágengir karlmenn eru nefnilega öllu jöfnu handteknir og ófáanlegar konur enda uppi einar.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Wednesday, December 15, 2010

Allt sem ekki má

Ég veit ekkert skemmtilegra en að kaupa snyrtivörur. Mála varirnar rósrauðar „svo minni á opin kvenmannssköp“ samkvæmt skilgreiningu prófessors sem reyndar var vikið úr starfi fyrir nokkrum árum síðan, fyrir það eitt að gera opinberlega aðsúg að kvenlegum fyrirsætum.

Mér þykir hæfileg „klámvæðing“ skemmtileg í einkalífinu. Haldið ykkur fast; ég á nokkur sett af sokkaböndum og fór í mína fyrstu litgreiningu tólf ára gömul. Hef tékkað mig inn í lýtaaðgerð og gerst sek um að kaupa brjóstahaldara með púðum. Klæðist háhæluðum skóm þegar mikið liggur við. Kann að vera einsömul og elska ábyrgðarlaust daður.

Ég hef gaman að karlmannlegum kvikmyndum frá sjöunda áratugnum. Clint Eastwood þykir mér bestur. Æðstur allra er þó Charles Bronson. Lostafullar senurnar í Morgan Kane bókunum koma mér til og innst inni dreymir mig um að vera handtekin.

Þá hef ég ekki tölu á þeim síðkvöldum sem ég hef varið í dagdrauma og smástúlkulegar hugmyndir um væntanlegan lífsförunaut; hvaða eiginleikum hann skuli helst gæddur og hvar ég muni væntanlega rekast á hann í fyrsta sinn.

There. I´ve said it. Allt sem ekki má. Viðurkennt löngun mína eftir maka og einlægri nánd. Útlistað andúð minni á einhliða notkun hjálpartækja ástarlífsins og opinberað skoðun mína á ljúfri nauðsyn rennilegs lífsförunautar. Gert lítið úr viðurkenndum hugtökum og baðað mig upp úr andfemínískum ljóma konu, sem þráir ekkert heitar en að kynnast góðum manni og dekstra við heimilið, með blúndum lagða svuntu um grannt mittið og fjaðrakúst í vel snyrtri hönd.

Mig langar einfaldlega til að kynnast karlmanni sem kann að meta mig sem konu. Karlmanni sem gengur ekki um með dýrari skartgripi en ég; karlmanni sem notar ekki rakakrem. Mig langar að kynnast karlmanni sem þénar meira og lyftir þyngri hlutum en ég er fær um að gera. Ég þrái karlmann sem kann að meta sokkabönd og síðkjóla, opnar hurðir á undan mér og skiptir um dekk þegar springur á bílnum. Umfram allt langar mig þó að kynnast karlmanni sem áreynslulaust hefur frumkvæði að kynnum okkar og er fær um að halda glæðunum á lífi.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að fullkomið jafnræði geti aldrei ríkt milli kynjanna. Til eru störf sem fáar konur geta sinnt; líkt og að standa uppi á dekki í byljandi stormi. Karlmönnum er þá ókleift að ganga með börn. Kynin eru einfaldlega ólík að gerð og lögun.  

Og það er allt í lagi.

Mér finnst gaman að vera kona og enn skemmtilegra að upplifa kynbundinn mun á síðkvöldum, meðan ég tala undir rós við væntanlegan elskhuga og daðra út í nóttina, óræð á svip. Mér finnst yndislegt að finna hæðarmun á mér og manni.

Ég vill ekki; tala hærra, lyfta þyngra eða ráða yfir stærri einingum en karlmaður.

Þau sérkenni sem ég bý yfir sem kona, eru nefnilega stórkostleg. Og ekki langar mig að standa jafnfætis karlmanni, hvað þá hegða mér sem slíkur. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að kona, sem þráir það eitt að líkjast karlmanni, hljóti að skorta allan metnað.

Í mínum augum eiga konur nefnilega að setja markið hærra.

Þær eiga að vera konur. 


Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

Monday, December 13, 2010

Mig langar í kærasta

Orðin ógurlegu.

Mig langar í kærasta.

Síðasti pistill fæddist einhvern veginn bara. Það vill enginn vera „dessa“ en það er skammaryrði yfir konur sem eru orðnar þreyttar á endalausu markaðspoti og verða  „desperate“ með tímanum.

Það þykir aldrei boða gott að vera „desperate“. Einhleyp kona skal vera fálát og undirgefin í samskiptum við hitt kynið, helst óræð og einkar nægjusöm. Að sjálfsögðu skal einhleyp kona til hins ítrasta njóta þess að vera á lausu og fyrir alla muni, ekki ræða löngun til þess að deila hugðarefnum með hinu kyninu. Líkt og orðin ein hafi slíkt töfragildi, að lýsi kona yfir löngun til að deila rúmi með manni; verði slíkt hið sama að neikvæðri möntru, sem svo aftur gerir það að verkum að viðkomandi muni aldrei ganga út.

Konur eiga að kunna að hjálpa sér sjálfar.

Með tilkomu kvenfrelsisbyltingarinnar hefur umræðan um batterí reyndar brostið á svo um munar. Flóðbylgja ummæla um kynlífsleikföng hefur tröllriðið spjallsíðum og kaffiboðum undanfarin ár og stundum kallað fram kinnroða hjá undirritaðri. Konur ættu fyrir alla muni að eiga hjálpartæki og leikföng af öllum stærðum og gerðum; kúlur og bolta, göndla og víbrandi dótafélaga sem öllum er ætlað það eina hlutverk að leysa karlmenn af hólmi, gott ef ekki í eitt skipti fyrir öll.

Þá ræða konur gjarna kynfæri sín opinskátt; „Rósin mín“ verandi eitt af þeim orðum sem kynfræðingar hafa uppálagt þeim kynsystrum okkar sem hafa feminísk gildi að leiðarljósi að nota. Í dag má segja „píka“ ef kona fer með frasann. Þykir ekki lengur dónalegt. Það er fátt eitt sem fellur undir bannyrði í kaffiboðum kvenna, ef undanskilin eru ofansögð orð.

Mig langar í kærasta.

Kona sem fer með slíka frasa, er af flestum stallsystrum sínum álitin eitthvað skrýtin.

Sá lítinn skets á YouTube um daginn, senu úr myndinni Shaft in Africa frá árinu 1973. Í senunni var ljósleit kona kynnt til sögunnar, sem með klókindum tókst að ginna gamla leynilögreglumanninn upp á herbergi og reyndi ólm og uppvæg að draga hann á tálar.

„Mr. Shaft, you can usually tell by a mans nose,“ sagði gellan útsmogin á svip og smellti látleysislega í góm meðan hún skáskaut augunum að rúminu; „...and the length and thickness of his thumbs ...“
Umrædd sena var mikil opinberun fyrir mig, sem undrandi gapti á skjáinn. Mátti segja svona árið 1973? Er virkilega hægt að lesa í karlmenn á þessa vegu? Myndu einhverjir troða bómul í nasavængina, pumpa silicon í þumlana og breiða úr hvoru tveggja á barnum ef víst væri?

Mig langar í kærasta.

Kannski ég hendi batteríunum, skreppi á barinn og hvísli letilega út yfir borðið: „I always look for a man with a prominent nose ... and long, thick thumbs.“

Það mátti fyrir tæpum fjörtíu árum síðan. Því ekki í dag?

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR



Wednesday, December 8, 2010

All By Myself

„Þú ættir að njóta þess að vera einhleyp, Klara“ var oftar en ekki viðkvæðið hér í den þegar ég, sem ung kona á leið út í lífið, impraði á þeim lymska dagdraum að kynnast karlmanni. Einhverjum sem myndi svipta mig ráði og rænu með útbreidda arma að vopni, brosmildum kavalíer sem, með kveikjara einn í vasanum, myndi leiftra í kvenlegum vindling og væntalega hjarta mínu um leið, meðan ég blakaði augnhárunum og brosti út í niðdimma nóttina.
 
„Þú ættir að læra að njóta þess að vera ein“ sungu miðaldra mæður oftar en ekki í kór meðan ég setti á mig varalit og vænti þess að mæta manni á miðri leið meðan ég fikraði mig varfærnislega niður Laugaveginn og tók stefnuna á barinn, vongóð um að allar góðar stúlkur hefðu fyrir löngu farið í háttinn og gætu því ekki gripið mig glóðvolga á ferðalagi mínu til Gómórru gleðinnar. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég setti skömmustuleg á mig perlur og rjóð í kinnum smellti mér í háa hæla; ég hef enga tölu á því hversu oft ég skimaði laumulega í kringum mig í þeirri von að engin virðuleg húsmóðir með röntgenaugu biði mín handan við húshornið og mældi mig vandlætislega út.

„Þú skalt vona að þú verðir ein“ var viðkvæðið meðan ég læddi nælonsokkum upp langa leggina og lét mig dreyma um nálægð og nautnir. „Ekki bíða eftir manni.“ Og þannig lærðist mér að vonin eftir nánd er skammaryrði, svo skelfilega þurfandi að við liggur að úthrópa þurfi konur sem kunna að laða að sér hitt kynið. Samkvæmt umræddri heimspeki þykir einsemd ekki bara smart, heldur um leið afar eftirsóknarverð. Hver þarfnast enda rakvélar á tímum kvenfrelsis og til hvers fara konur í lýtaaðgerðir til annars en að ganga í augun á óvininum?

Klara, þú átt að taka þér nokkur ár núna og læra að vera ein.“  Þessi orð heyrði ég oftar en ekki og einsömul bar ég því samviskusamlega Hagkaupspoka upp tröppurnar sem lágu að einfeldningslegri risíbúðinni sem ég tók á leigu sem ung og einstæð móðir, sannfærð um að loks væri ég að gera rétt, þegar ég neitaði ástleitnum elskhuga mínum um húslykla. Einhvers staðar á leiðinni lærðist mér einnig að það er ekkert virðulegra en kona sem borgar sína reikninga sjálf, skiptir samviskusamlega um dekk þegar springur í rigningu og afþakkar alla hjálp við burð húsgagna.

„Þú skalt njóta þess að vera ein“ sönglaði kvennakórinn í skipulögðum tón, þegar ég fyrir nokkrum árum sleit sambandi og gerði mér endanlega grein fyrir því að nokkur tími myndi að  öllum líkindum líða þar til ég hvíldi að nýju í örmum álitlegs elskhuga, niðurbrotin yfir þeirri staðreynd að hér með væri daglegur unaður með öllu, út af borðinu, nema ef vera skyldi að ég þjónustaði mig sjálf.

Það tók mig árin mörg að átta mig á þeirri staðreynd að kvennakórinn, sem hefur sönglað í eyru mín undanfarin tuttugu ár – er harðgiftur og kemur heim til eiginmanna á hverju kvöldi. Það hefur tekið mig tímana tvenna að átta mig á því að það var aldrei óuppfyllt þrá mín eftir félaga sem hvatti þessar konur til að gefa mér óumbeðin ráð; það var þeirra eigin óánægja í umræddum hjónaböndum sem knúði þær til að yfirfæra eigin þrár á litla stúlku, sem var að feta sín fyrstu spor út í lífið og þráði það eitt að kynnast ungum manni.

Það kostaði mig gríðarlegt hugrekki að standa upp að lokum og þurrka skömmina af andliti mínu áður en ég fór yfir með þann einfeldningslega sannleika, að ekki einungis hef ég aldrei misst sjónar á töfrum ástarinnar heldur einnig þeirri staðreynd að ég er fullþroska kona sem hefur síður en svo í hyggju að eldast einsömul. 


Pistlilinn má lesa í heild sinn á bleikt.is: Smellið HÉR