Wednesday, June 29, 2011

Kreisí góð í spænsku

Ég er að fara til Spánar. Oft farið áður. Með misjöfnum árangri. Voða hrifin af spænskri tungu og lagði mig í líma við að læra nokkra frasa síðast þegar leiðin lá til Kanaríeyja.

Móðgaði suma. Jú. Það er rétt. Ég móðga fólk í útlöndum.

Einu sinni sagðist ég vera með blátt auga. Rosa smart. Var stödd á bar og sneri mér að suðrænum sjarmör sem sagði að ég væri með falleg augu. „Aha,“ svaraði ég á ferðamannaspænsku. „Það er vegna þess að augað á mér er blátt.“


Maðurinn hló þessi lifandis ósköp og útskýrði fyrir mér að bara kýklópar væru með eitt auga, en það sama varð ekki sagt um gengilbeinuna sem afgreiddi mig um kaffi á sólríkum svölum daginn eftir.

„Daginn,“ sagði hún letilega. „Hvað segirðu gott?“

„Oh,“ andvarpaði ég út í bláinn. „Það er svo rosalega heitt hérna...ég er að stikna.“

Rosa kokhraust.

Ég kann að koma fyrir mig orði í útlöndum.

Ég komst ekki að því fyrr en tveimur dögum seinna að í stað þess að gera athugasemdir við steikjandi hitann, hafði ég sagt konunni að það væri allt svo ógeðslega dýrt á Spáni að ég væri að fríka út. Ég ruglaðist og svo kann ég bara enga spænsku. Orðin "Calor" og "Caro" þýddu það sama í mínum huga.

Konan, sem hélt að ég væri biluð, tók matseðilinn í burtu, horfði áhyggjufull á mig og gekk svo þögul í burtu.

Ég skrapp á annað kaffihús, þar sem ég fékk ágæta þjónustu, en ég talaði á ensku í það skiptið.

Við vorum á hóteli, eins og títt er um ferðamenn. Gamla, vingjarnlega konan sem afgreiddi svaladrykki við sundlaugarbarinn sýndi viðleitni minni við að krafsa mig áfram á tungumálinu mikinn skilning og skaut stundum að mér orðum. Við urðum ágætis vinkonur, ég og hún. Spænskar konur eru móðurlegar upp til hópa, hlýjar og ábúðarfullar með hárið vandlega sett upp í hnút.

Ég var doldið feimin við konuna, sem reyndi sitt besta til að kenna mér nokkur orð og átti erfitt með að skilja hana þegar hún sagðist vera þreytt eitt síðkvöldið, þegar hún var að taka saman á barnum fyrir lokun.

Ég átti erfitt með að muna hvað „cansada“ þýðir og velti því orðinu milli handanna á mér í margar mínútur. Gekk fram og til baka og allt í einu laust svarinu niður.

„Amiga! Vale, comprendo! Pero es por que tu eres casada!“ öskraði ég sigri hrósandi yfir hótelbarinn.

Konan horfði á mig, skellti hurðinni á eftir sér og gekk orðalaust í burtu.

Ég hafði æpt að 530 hótelgestum að konan væri úrvinda sökum þess að hún væri í hjónabandi.

Hún leit ekki á mig það sem eftir lifði ferðarinnar og ég sendi mömmu eftir gosi á barinn.

Þetta eru þó ekki einu mistökin sem ég hef gert á spænskri grundu. Mér finnst voða gott að reykja sígarettur og þegar við lentum í Barcelona, einhverjum árum seinna, stormaði ég beint að götusópara fyrir utan flugvöllinn og spurði hátíðleg á svip: „Herra minn, væri yður sama þó ég reyki hér?“ og hrökklaðist óttaslegin undan voldugum kústi mannsins, sem öskraði spænsk fúkyrði að mér og djöflaðist eitthvað út í loftið áður en hann hvarf mér sjónum aftur, reykjandi vindil og bölsótandi.

Maðurinn taldi víst að ég væri að hæðast að honum. Það held ég alla vega. En hvað veit ég? Hann talaði bara spænsku.

Ég sagði öllum leigubílstjórum í borginni að fjórtán ára gamall sonur minn, sem var fótbrotinn eftir slysfarir við komuna til Spánar, væri fertugur að aldri. Og þá meina ég: hljóma orðin "catorce" og "cuarenta" ekki næstum eins í fjörtíu stiga hita?

Þegar ég beiddist þess að barnið fengi að sitja fram í vegna þess að hann gat ekki beygt fótinn og var í gipsi upp að nára, sagði ég iðulega að drengurinn hefði verið myrtur fyrir skömmu og væri algerlega miður sín.

"Muerto," umlaði ég í sífellu meðan móðir mín tróð sér í aftursætið og endurtók orðin "numero uno" alla leiðina heim.

Hún átti við húsnúmerið sem ég held að þögull leigubílstjórinn hafi skilið.

Gott ef ég klíndi ekki bara ástarsorg upp á óharðnaðan unglinginn, allt í þeim tilgangi að fá betra sæti fyrir fertugan son minn, sem fyrir kraftaverk spænskrar tungu; hafði ekki einungis lifað eigin dánardag, heldur einnig lagt fleiri ár að baki en móðir hans, sem staulaðist um með sextuga frasabók og brosti.

Ó, ég á endalausar sögur af Spánarferðum. Mistökum okkar mömmu, þegar við töluðum ofan í hvora aðra við kínverska þjónustustúlku og fengum tvöfalt magn af öllum réttum sem bornir voru fram, undrun minni þegar þjónninn kom ekki að borðinu þegar ég öskraði fyrir mistök „Ertu til í að afgreiða okkur núna, öskubakkinn þinn?“ og feginleik mínum, þegar ég áttaði mig á því að spánverjar eru umburðarlynd þjóð og búa yfir glettilegri kímnigáfu.

Ég fer til Spánar á morgun. Verð í mánuð og ætla að garfa í menningunni ytra. Kaupa mér gullslegna kaffikönnu og fræðast um mannlífið á sólarströndum.

Af og til hendi ég pistli inn og segi ykkur af ævintýrum mínum í fjarlægum löndum. Tek kannski mynd af engisprettu og hlæ gegnum orðin. Alla vega, krakkar mínir, ætla ég að hoppa upp í flugvél á morgun og í þetta skiptið hef ég íslenskan túlk mér við hönd þar til ferðalaginu lýkur.

Lengi lifi spænsk/íslenskar frasabækur frá fjórða áratugnum, hugrakkir íslendingar og málhelti á útlenskri grundu.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment