Sunday, June 26, 2011

Ég hélt þær væru englar

Einu sinni hélt ég að þær væru englar sem hvísluðu út í nóttina og bjuggu í eyðimörkinni. Rólyndar, sefandi og dularfullar í fjarskanum. Seiðandi eins og suðrænt ævintýri sem býr utan seilingar og ómar úr fjarska þegar nátta tekur. Mér fannst þær vera að syngja um ástina.


Ég er íslensk. Og sakna þeirra. Aldrei séð eina í nærmynd og langar ekki að vita hvernig þær fara að því að nudda saman afturfótunum við vængina, til að framkalla hljóðið sem dáleiddi litla stelpu og seiðir enn til sín fullorðna konu sem vildi stundum óska þess að til væru engisprettubúgarðar sem eru til þess eins gerðir að svala útþránni sem aldrei slokknar. 

Ég var komin á fullorðinsár þegar ég áttaði mig loks á því að þær eru grænar að lit og gladdist þegar ég heimsótti miðil um tvítugt, sem sagði mér að um það leyti sem ég yrði gömul kona hefði ég lagt heimshöfin sjö að baki.

Þegar ég lygni aftur augunum og hlusta á þær dansa í rökkrinu er engu líkara en ég sé eilíf. Mér líður eins og þær lofi mér ljúfum sögulokum þegar ég leyfi þeim að taka leiksviðið yfir. Það get ég svarið að ég heyri þær segja mér eitt og annað, meðan ég sötra gosdrykk á erlendum svölum og teyga í mig næturloftið.

Ég þarf ekki meira, sjáðu til. Aldrei verið gefin fyrir skipulagðar pakkaferðir, finnst leiðinlegt að ferðast í hópum og sneiði hjá aðaláfangastöðum ferðamanna. Ég þrái gróna menningu sem er úr alfaraleið, gamlar konur sem sitja lúnar á steintröppum og glotta lífsreyndar mót miskunnarlausri sólinni, forvitin börn sem hafa sjaldan séð norræna ferðalanga ganga um steinilögð strætin og hvíslandi öldugjálfur handan við næsta horn.

Þegar ég var yngri ákvað ég að safna sandkornum frá öllum sólarströndum sem ég hef heimsótt um ævina, dansa kringum glerflöskur sem geyma minningar af sendinni snertingu í fjarskanum og heiðra þær öldur sem ég hef leikið við í sjávarmálinu.

Ég á vinkonu sem dansar berfætt við engisprettur á kvöldin. Hún sendir mér stundum bréf og skrifaði pistil í gær. Það kemur kona hét hann og fjallaði um okkur tvær. Svalirnar hennar sem geyma einn stól og sígaretturnar sem við ætlum að reykja í rökkrinu. Þau ævintýri sem bíða okkar í skjóli hitabeltisnátta og laumuleg brosin sem læðast yfir andlit okkar beggja þegar dagur er að kvöldi kominn.

Þegar út á svalirnar umræddu verður komið, ætla ég að segja henni að lífið hafi aldrei ætlað mér maka og jarðbundin málalok. Ég ætla að útskýra fyrir henni að orðin hafi mér verið gefin og að heimshöfin sjö eigi hug minn allan. Að sannleikann sé að finna í söng engisprettna á fjarlægum sólarströndum og öldugjálfri rétt eftir miðnæturbil í niðamyrkri.

Ég ætla að segja henni að það eina sem þurfi til að verða góður heimspekingur, sé hæfileikinn til að undrast. Að kjarna lífins megi finna í fátæklegum flugmiða og lúnu vegabréfi, sem tryggi mér vist í himnaríki þar til laufin taka að falla af trjánnum og vegurinn liggur aftur heim.

Orðin sem hún lætur falla í skiptum fyrir mín verða að eilífu geymd á svölunum sem snúa í norður. Þau eru okkar að varðveita, látin falla undir fjögur, umbreytast í endurminningar þegar sól rís að nýju og umheimurinn vaknar allt upp á nýtt.

Þær eru fallegar á kvöldin; finnst þér ekki?




Pistlinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment