Sunday, June 19, 2011

Veena Malik er systir mín

Hún er hugrökk, greind og falleg. Sterk og beinskeytt kona sem þarf að verja kvenlega eiginleika sína og störf á hverjum degi. Gamanleikkonan og íslamska fyrirsætan Veena Malik vakti heimsathygli þegar hún stóð uppi í hárinu á íslömsku klerkastéttinni í janúar sl. og bauð tvöföldum siðgæðisreglum pakistanska samfélagsins byrginn í ríkissjónvarpinu þar ytra.


Uppþotinu olli þáttaka hennar í indversku raunveruleikasjónvarpi, en hún keppti til sigurs í þáttaröðinni Big Boss og vingaðist þar við karlkyns þáttakanda. Veena er falleg kona og kvenleg með eindæmum, hún fer ekki í felur með aðdáun sína á mýkri gildum og er rómantísk með eindæmum. Réttindi kvenna snúast ekki einvörðungu um launajafnrétti, heldur eru að mínu mati, þau réttindi að mega njóta ásta, vera kvenlegar og rækta meðfædda eiginleika sína, án þess að eiga aðkast, samfélagslega fordóma og jafnvel líflát á hættu.

Veena er hálaunakona. Virt leikkona og þekkt andlit. Hún hefur starfað sem fyrirsæta, átti í sambandi við þekktan krikketleikara um skeið en sleit sambandinu þegar maðurinn hafði lagt svo illilega hendur á hana, að stórsá á þessari fallegu konu. Hún ræddi sambandsslitin í indverskum fjölmiðlum og sagði óhrædd að enginn sannur karlmaður legði nokkru sinni hendur á konur.

"Ég er frægari en hann," sagði hún beinum orðum við indverska fjölmiðla. "Hann þoldi ekki að verða undir í opinberri umræðu. Ég skyggði á manninn og þess vegna sló hann mig í gólfið, læsti mig næturlangt inni á baðherbergi og fór út að skemmta sér á meðan. Ég elska hann ennþá en ég get ekki eytt ævi minni með karlmanni sem leggur hendur á mig. Enginn sannur maður lemur konu."

Fyrrgreind orð þættu eflaust hégómafull ef kona léti þau falla á Íslandi. En Veena býr í Pakistan og er íslamstrúar. Hún hafði slitið sambandi sínu við krikketleikarann sem lagði á hana hendur og var einhleyp þegar hún tók þátt í indverska raunveruleikaþættinum Big Boss. Þar vingaðist hún við annan þáttakanda og lenti í lífshættu þegar hún sneri aftur til Pakistan.

Þess vegna sýndi hún fádæma hugrekki þegar hún lét ofangreind orð falla.

Baráttumál Veenu snúast ekki um launafjárhæðir eða kjarasamninga. Hún þénar meir en flestir landar sínir og hefur skilað öllum systkinum sínum gegnum nám. Þvert á móti snúast baráttumál hennar um rétt kvenna til að standa jafnfætis karlmönnum án þess að afsala sér réttindum til kvenleika og því sjálfsagða vali að mega fara eigin leiðir í einkalífinu. 

Veena berst fyrir rétti allra kvenna til að elska, án þess að vera varpað á bálköst trúarbragða fyrir upploginn hórdóm.

Íslamska klerkaveldið sagði Veenu ýta undir neikvæðar staðalímyndir með hegðan sinni, framkomu og útliti og fóru leikar svo að Veena var leidd fyrir pakistanska dómstóla í ríkissjónvarpinu þar ytra, yfirheyrð og spurð í þaula um kynhegðun sína.

Hvað í raun gerðist á milli Veenu og annarra þáttakenda í indverska smellinum Big Boss er og verður alltaf á huldu. En fyrir kynhegðun sína, þarfir og þrár þurfti Veena að sitja fyrir svörum og um leið, verja eigið líf.

Það kann að hljóma undarlega fyrir einhverjum, en réttarhöld í pakistanska ríkissjónvarpinu eru raunveruleg og ákæra getur endað með lífláti, sé viðkomandi fundinn sekur um ósæmilega hegðun.

Í myndbrotinu, sem hér fer á eftir, berst Veena Malik fyrir lífi sínu.

Ég fór að gráta, þegar þessi hugrakka stúlka sagðist hafa vakið athygli Pamelu Anderson á aðstæðum barna í Pakistan. Í augum Veenu er Pamela, sem vinstrisinnaðir hreintrúnaðarfemínistar álíta sem handbendi alls ills, sterk kona sem hefur víðtæk áhrif í vestrænu samfélagi.

Hef ég skoðun á Pamelu Anderson? Sáralitla, ef nokkra. Það sem grætti mig var einlægni Veenu. Baráttuandi hennar og barnsleg trú gerir kappræður norræna femínista sem berjast fyrir kynjakvóta og mæla mót staðgöngumæðrun, að eins konar tespjalli sem fara fram í lokuðum vinkonuboðum. Til eru nefnilega konur, sem greiða fyrir með lífi sínu, fyrir það eitt að hafa hugrekki til að vera kvenlegar.

Í mínum augum er ekkert til sem heitir neikvæðar, kvenlegar staðalímyndir.

Einungis fordæmingarherferðir sem ýta undir skömm og vanlíðan kvenna, sem búa yfir nægu hugrekki til að elska. 




Pistilinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment