Tuesday, June 14, 2011

Af lesbíum, útlendingum og transkonum

 Í síðasta pistli mínum ræddi ég það ferðalag sem konunar að baki Bleikt hafa lagt að baki og hver viðbrögð almennings urðu, þegar vefurinn fór í loftið. Konurnar að baki Bleikt hafa átt undir högg að sækja sökum fordóma og legið undir þeim ásökunum að vera andfemínískar. Konurnar að baki Bleikt hafa, að mati þeirra sem gagnrýnt hafa efnistök miðilsins, ýtt undir misrétti kynjanna og neikvæðar staðalímyndir með vali á greinum þeim sem ritstjórn hefur valið að birta.


„Við erum femínistar!“ hafa gagnrýnisraddir sagt og ennfremur að femínismi eigi ekkert skylt við bleika litinn. „Út með litatóninn!“ hafa aðrar hrópað og fordæmt þau efnistök sem ritstjórn hefur valið að fjalla um.

En hvað er femínismi? Hugmyndafræðin hefur mörg andlit og það er ekkert einhlítt þegar að femínisma kemur. Femínismi er kynslóðabundinn og baráttumálin taka alltaf mið af þjóðfélagslegri stöðu kvenna að hverju sinni.

Ekki allir femínistar ganga í rauðum sokkum og blóta karlmönnum. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er finna má á vefsíðu Femínistafélags Íslands, er „femínisti karl eða kona, sem veit að jafnrétti hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Sú barátta nær ekki einungis til forréttindahópa millistéttarinnar í augum okkar sem mynda ritstjórn Bleikt, heldur endurspeglar sú barátta kröfu fyrir auknum réttindum í öllum skúmaskotum þjóðfélagsins.

Til eru þeir femínistar sem ganga um á háum hælum og eiga varalit í veskinu. Misskilnings hefur gætt og hefur gagnrýni litast af þeim mýtum, að sannir femínistar þverneiti að ganga í fallegum undirfatnaði og fái í raun – aldrei að ríða. Þetta þykir mér leitt, því um ósannindi er að ræða. Femínista má finna í öllum stéttum þjóðfélagsins, en baráttumál þeirra eru misjöfn.

Hér mun ég því drepa lauslega á nokkrum undirgreinum borgaralegs femínisma sem jafnan verða útundan þegar réttindi kvenna bera á góma á opinberum vettvangi. Að hluta til er pistill minn tilkominn vegna þeirrar gagnrýni sem vefurinn hefur orðið fyrir, en tilgangur minn er einnig sá að vekja enn fremur athygli á réttindum þeirra kvenna sem tilheyra minnihlutahópum.

Kynþáttafemínismi: Barátta fyrir réttindum kvenna af ólíkum uppruna

Þann 31 janúar sl. tók Hlín Einarsdóttir, ritstjóri Bleikt viðtal við Kristínu Avon, sem er hálfur Íslendingur og hálfur Filipseyingur. Viðtalið bar heitið Fólk hefur kallað mig ótrúlegustu nöfnum og vakti gríðarlega athygli fyrir efnistökin, en Kristín hefur mætt miklum fordómum vegna uppruna síns og það þrátt fyrir að hún tali lýtalausa íslensku. Þannig sagði Kristín í viðtalinu að „fullorðin kona hefði kallað hana drasl, þegar hún var einungis fimm ára gömul“ og lýsti þannig á einlægan og hispurslausan hátt, duldum fordómum íslenskra kvenna í garð erlendra kvenna.

Kristín gagnrýndi af einlægni, þau andfemínísku viðhorf sem ákveðnir þjóðfélagshópar hafa í garð kvenna af ólíkum uppruna, sökum fordóma þeirra sömu sem stafa af vanþekkingu og ítrekaði mikilvægi þess að allar konur væru jafnar.

Viðtalið endurspeglaði baráttu ritstjórnar Bleikt fyrir rétti þeirra kvenna sem eru ekki af íslenskum uppruna og mæta því ekki einungis hindrunum sem konur, heldur einnig sem útlendingar. Við höfum því fjallað um kynþáttafemínisma og velt upp þeirri spurningu hvort fordómar í garð kvenna af öðrum kynþáttum líðist enn meðal ákveðinna þjóðfélagshópa á Íslandi, hvort konur af erlendu bergi brotnar mæti ekki einungis kynbundnu ójafnrétti heldur berjist einnig við kynþáttafordóma og örðugleika tengdum stéttarskiptingu í ofanálag.

Rödd Kristínar heyrðist gegnum viðtalið sem birtist á Bleikt og vakti þjóðarathygli.

Lesbískur femínismi: Barátta fyrir auknum réttindum samkynhneigðra kvenna

Birgitta Þorsteinsdóttir ritaði pistilinn Samkynhneigð = Kynlífssýki? í flipann Samskipti kynjanna þann 18 mars sl. og deildi þar hart á fordóma gagnkynhneigðra kvenna í garð samkynhneigðra kvenna. Benti Birgittta jafnframt á að lesbískum konum liði gjarna illa í návist gagkynhneigðra kvenna þegar báðar væru fáklæddar. Hún tíundaði það andrúmsloft sem myndast í búningsklefum kvenna, þegar lesbía er viðstödd og þau óþægindi sem samkynhneigðar konur verða fyrir í samfélagi sem aðhyllist gagnkynhneigð viðhorf.

Tilgangur Birgittu var ekki sá að alhæfa að allar gagnkynhneigðar konur hefðu fordóma gagnvart konum með aðra kynhneigð, heldur að benda á að til væru konur sem gætu ekki greint á milli, sökum vanþekkingar.

Ég veit ekki hversu oft vinkonur mínar hafa fengið spurningar frá fáfróðu fólk á borð við: „Ertu ekki hrædd við að afklæðast fyrir framan hana?“ eða „Ertu ekki hrædd um að hún verði ástfangin af þér?“ eða jafnvel „Ertu ekkert smeyk við að hún reyni við þig eða reyni að kyssa þig, káfa á þér?“ sagði Birgitta meðal annars í pistli sínum og bætti því jafnframt við, að spurningar á borð við þessar særi hana, þar sem hún laðist ekki að öllum konum, þrátt fyrir að vera lesbía.

Birgitta er lesbískur femínisti, sem berst fyrir jöfnum rétti samkynhneigðra og gagnkynheigðra kvenna. Fögnuðu ófáar samkynhneigðar konur orðum Birgittu, því enn eiga samkynhneigðar konur langt í land í ákveðnum baráttumálum áður en þær geta talist standa jafnfætis gagnkynhneigðum konum.

Sjálf ritaði ég um þá baráttu lesbískra mæðra þann 27 febrúar sl. Grein mín bar heitið Lesbíur berjast fyrir bættum hag foreldra og fjallaði um deilur samkynhneigðra við Fæðingarorlofssjóð út af eyðublöðum sem sjóðurinn neitaði að breyta í samræmi við kyn foreldra nýfæddra barna. Er þá ótalið viðtalið sem birtist við Guðrúnu Ó. Axelsdóttur daginn eftir, en það bar heitið Allar birtingarmyndir ástarinnar eru fallegar og snerist um baráttu samkynhneigðra kvenna fyrir aukinni fræðslu grunnskólabarna og  grunnskólakennara um ólík fjölskylduform.

Trans-femínismi: Barátta fyrir réttindum kvenna sem fæddust í karlkyns líkama

Völu Grand þarf vart að kynna, en hún var ein frægasta transkona Íslands, áður en hún undirgekkst kynleiðréttingaraðgerð. Vala heldur úti glæsilegum sjónvarpsþáttum gegnum vefmiðilinn Bleikt, en hún hefur ekki einungis mætt fordómum vegna kynferðis síns heldur einnig vegna hörundslitar, en Vala er dökk eins og Kristín Avon og hefur því átt við ramman reip að draga í jafnréttismálum.

Vala er ekki eini trans-femínistinn sem ljáir vefmiðlinum Bleikt röddu sína, því ítarlegt viðtal birtist við Uglu Stefaníu, formann Hinsegin Norðurland, þann 16 febrúar sl. og bar viðtalið yfirheitið Af hverju ertu ekki bara hommi eins og venjulegt fólk? Það var Malín Brand, aðstoðarritstjóri Bleikt, sem ræddi við Uglu, sem af einlægni og hugrekki fræddi lesendur um það flókna ferli sem einstaklingur fer í gegnum við leiðréttingu á eigin kyni.

Ugla Stefanía hefur skrifað pistla fyrir Bleikt, sem fjalla um málefni transfólks og daglegt líf þeirra. Hún er fastur penni í Skyldulesningu og birtast greinar hennar reglulega á miðlinum.

Stúlkurnar Vala og Ugla eru trans-femínistar, sem með hugrekki og einlægni sinni berjast fyrir bættum réttindum transkvenna og þeirra kvenna sem hafa þegar gengist undir kynleiðréttingaraðgerð, þeim þætti femínisma sem hefur orðið útundan í lesbíska og gagnkynhneigða femínismanum. Báðar hafa þær ljáð Bleikt röddu sína og glætt baráttuna auknu lífi.

„Trukkalessur, Tæjur og Stelpuhommar“ eru viðurnefni þeirra kvenna sem hér eru nefndar að ofan. Götuslangur. Níðyrði. Orð sem enginn vill kannast við en flestir segja einhverju sinni á ævinni. Gagnkynhneigðir, „hreinræktaðir“ millistéttarfemínistar taka sjaldan á málefnum þessa kvenna, þrátt fyrir ötula baráttu fyrir bættum kjörum kvenna í sömu stöðu.

Þær konur, sem hafa hvað mest gengið fram í þjóðfélaginu í nafni kvenréttinda, hafa barist fyrir bættum launakjörum en vegna félagslegs forskots sem hinar sömu hafa, umfram kynferði sitt, hafa þau femínísku mannréttindamál sem hér eru nefnd, orðið útundan að mestu. Réttindi þeirra þjóðfélagshópa, sem hér er um rætt, transkvenna, útlendinga og lesbía, eru af skornum skammti í velferðarþjóðfélagi sem státar af fáheyrðum réttindum kvenna á alþjóðavettvangi.

Hvergi hef ég rekist á röð greina úr garði harðlínufemínista sem taka mið af því að bæta réttindi þessa þjóðfélagshópa sem hér eru nefndir að ofan, á öðrum miðli en Bleikt ef undanskilin eru stök viðtöl sem birst hafa í öðrum fjölmiðlum og hafa fjallað um menningu jaðarhópa.

Viðtölum þeim, sem þessar hugrökku stúlkur höfðu veitt fjölmiðlum áður en Bleikt fór í loftið, var flestum ætlað að gægjast inn í skúmaskot mannlífsins og lýsa yfir fordómaleysi miðilsins sem um málið fjallaði, þegar í raun tilgangurinn var sá að selja eintök.

Raddir þessa kvenna fengu aukið vægi þegar vefmiðillinn Bleikt fór í loftið og boðskapur þeirra, baráttuefni og markmið urðu loks þjóðinni skýr. Við erum fullgildar konur – er inntak orða þeirra.

Fyrrgreindar umfjallanir eru háfemínískar í eðli sínu. Þær fjalla um réttindaskort kvenna í þjóðfélagi sem státar sig af ötulli baráttu fyrir bættum kjörum og kapphlaupi sem miðar að fullu launajafnræði beggja kynja. Þetta eru konurnar sem verða jafnan útundan og eru hvergi hafðar með í ráðum, utan þess þegar fylla á upp í umfjöllunarkvóta. Vefmiðillinn Bleikt lagði þessum konum verkfæri í hendur.

Bleikt er háfemínískur vefmiðill sem ljáir jaðarhópum innan kvennasamfélagsins röddu og birtir óskir þessa kvenna, þarfir og þrár á miðli sem er ekki einungis sniðinn að konum, heldur einnig ritaður af konum. Að halda öðru fram er fásinna. Undirgreinar þriðju kynslóðar borgaralegs frjálslyndisfemínisma eru fjölmargar og hér hef ég einungis drepið á fáeinum þeirra.

Konurnar sem blóta Bleikt á vefnum, eru róttækir rétttrúnaðarfemínistar og hafa misskilið markmið kvennabaráttunnar með öllu. Þeim gagnrýnisröddum má aldrei rugla saman við raunverulega baráttu kvenna fyrir bættum kjörum. Enn er langt í land í óteljandi málefnum kvenna á Íslandi og þó róttækir femínistar sem enn aðhyllast þá stefnu sem önnur kynslóð femínista trúði skýrt á í kringum 1970, er ekki þar með sagt að allir femínistar gangi um í skósíðum pilsum og versli bómullarnærföt í náttúruvöruverslunum.

Reyndar þekki ég engan femínista sem fellur undir þá neikvæðu staðalímynd sem ég nefni hér að ofan og oft er dregin upp af þeim konum sem aðhyllast róttækan rétttrúnaðarfemínisma, eða hreinstefnufeminisma.

Femínistar eru fullgildar konur; þær njóta kynlífs, búa yfir kímnigáfu og eiga fullan rétt á eigin lífsskoðunum. Ég hef aldrei haldið öðru fram og mun aldrei gera. Það er ljótt að tala illa um konur og kynferðislegar skírskotanir í niðurlægjandi samhengi eiga aldrei rétt á sér þegar skoðanaágreiningur rís vegna ólíkra lífsviðhorfa.

Mér líkar illa að vera nefnd „vel tilhöfð útungungarvél“ eða „áhrifalaus einkaritari með munúðarfullan afturenda“ rétt eins og stúlkurnar sem ég fjallaði um hér að ofan og eru uppnefndar vegna ætternis, kynhneigðar eða kynferðis. Mér líka illa að vera gagnrýnd vegna þess eins að ég laðast að því sem fagurt er og aðhyllist ekki hugmyndafræði þeirra baráttukvenna sem knýja fram eigin markmið með því einu að tala niður til annarra kvenna.

Það er ljótt að skírskota til niðurlægjandi kynhegðunar þó aðilar séu á ólíku máli.

Femínismi hefur fjölmörg andlit og hér hef ég einungis dregið upp þær hliðar, sem eiga undir hvað mest högg að sækja í samfélagi sem er upplýst, tæknivætt og hámenntað. Á komandi vikum mun ég gera femínisma og öll hans andlit af umfjöllunarefni mínu í einhverri mynd og draga fram, skýra ritstjórnarstefnu Bleikt, leiða lesendur í gegnum það ferðalag sem við höfum þegar lagt að baki og útskýra fyrir þeim, sem enn ekki skilja, hvað liggur að baki þeim umfjöllunum sem þegar hafa birst og á hvaða hátt þær fjalla um stöðu kvenna á Íslandi í dag.

Við, sem myndum ritstjórn Bleikt, höfum það hlutverk að standa vörð um réttindi kvenna. Við erum ekki frístundafemínistar. Við berjumst fyrir réttindum og viðurkenningu allra kvenna, óháð stétt og stöðu, ljáum minnihlutahópum röddu og erum óhræddar við að tala máli þeirra. Þessi er ritstjórnarstefna Bleikt og hefur verið frá fyrsta degi.

Bleikt er afþreyingarmiðill með femínísku ívafi, kvenlegu sniði sem ætlað er að framkalla bros á miðjum degi og ljá minnihlutahópum öfluga rödd sem mælir fyrir hönd þeirra kvenna sem eiga undir högg að sækja, án beiskju og ofsa. Konurnar sem mæla á Bleikt hafa kærleika að leiðarljósi og tala aldrei niður til annarra kvenna. 

Konurnar að baki Bleikt eru femínistar í fullu starfi. 

Pistilinn má einnig lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment