Hann spurði mig eitt sinn hvað fjölskylda væri í raun. Hvort kjarni hjónabandsins væri fólginn í matreiðslu konunnar meðan maðurinn horfði á fréttir.
Ég leit á hann og sagði honum að fjölskylda væru ástvinir sem stæðu saman og gerðu hvorum öðrum kleift að láta eigin drauma rætast. Hann leit þreyttum augum á mig og samsinnti mér í engu. En hann andmælti mér ekki heldur. Þess í stað ríkti þögn um stund og svo kveikti hann sér í sígarettu.
Þetta var í síðasta sinn sem við ræddum saman.
Við fórum aldrei út í Viðey. Lukum aldrei við lögfræðiskuldina. Fengum einungis eina sólarlandaferð að launum fyrir hugrekkið sem við sýndum þegar við eyddum jólahýrunni í flugmiða og stungum af til Tenerife. Snæddum bara einu sinni sushi undir berum himni. Hlógum ekki nægilega oft að Trailer Park Boys. Gleymdum að standa saman gegnum kreppuna. Nutum ásta að hinsta sinni í rökkvuðum kirkjugarði.
Það hvarflaði að mér að kveðjuatlotin fælu í sér fyrirboða en bandaði þeirri hugsun frá mér.
Eldri syni mínum þótti hann eilítið líkur vingjarnlegum varðhundi þegar hann rataði fyrst inn í líf mitt. Hrár og karlmannlegur, veðraður eftir átök lífsins, hlýr og fordómalaus; maðurinn minn.
Ég tala enn upphátt við Selinn Snorra. Ég ávarpa hann á hverjum degi. Snerti stundum farþegasætið meðan ég ek um götur Reykjavíkur eins og ég gerði meðan við deildum enn bílferðum og hlæ að huglægum skrýtlum sem féllu eitt sinn á milli okkar.
Ég lagði eignarhald á fötin hans. Klæddist þeim fyrstu dagana eftir að allt gekk yfir og hjúfraði mig upp að koddanum sem hann hvíldist eitt sinn á. Velti því fyrir mér hvort ég gæti nálgast hann með því einu að snerta veggina.
„Ég heiti Jökull og er lögreglumaður,“ sagði maðurinn í símanum.
Hann kenndi mér stærðfræði. Reiknaði út flatarmál meðan ég sötraði kaffi og hlýddi þolinmóður á drenginn sem ég réði fyrir lokaprófið. Strákinn sem sveittur sat yfir okkur og reyndi í einlægni að útskýra hvernig ummál er reiknað, fyrir smáaura á tímann.
„Sambýliskona hans var ekki með númerið þitt og því hringdum við í móður eldri drengsins, sem gaf mér númerið hjá þér,“ hélt hann áfram meðan ég horfði annars hugar á litla drenginn minn mjaka sér á rassinum eftir parketlögðu gólfinu og elta sólargeisla sem smugu inn um lúinn risgluggann.
Hann bjargaði lífi barnsins þegar meðvitund mín fjaraði út á fæðingarbekknum. Ég minnist þeirra óljóst; allra þeirra sem klæddust hvítum sloppum inni í herberginu meðan ég öskraði á meira hláturgas. „Tangir,“ hrópaði einhver meðan voldug gyðja frá víkindaöldinni hvíslaði orðunum: „Við ætlum að þræða þvaglegg upp í þig núna, svo við náum barninu út,“ en mér fannst hún vera með tígurlegar fléttur sem náðu niður á bak.
„Við reyndum að hringja í föður hans, en hann svarar ekki síma,“ hélt röddin hinu megin á línunni áfram.
Við skildum fljótlega eftir fæðingu barnsins. Samband okkar var stormasamt og sjálf fór ég hamförum inni á heimilinu. Ég skil ekki enn hvernig hann þraukaði gegnum meðgönguna. Hann var með hlýjar hendur. Ég gleymdi með öllu að þakka honum fyrir. Mér fannst framkoma hans sjálfsögð.
„Ástæðan fyrir því að ég hringi í þig er sú að Snorri Valur er látinn. Hann andaðist í nótt,“ hélt lögreglumaðurinn áfram.
Ég hélt honum veglegt þrítugsafmæli, nokkrum mánuðum eftir að hann dó. Ég fór og keypti tvo bolla af Latte og gekk virðulega með þá yfir Fossvogskirkjugarðinn. Kveikti mér í sígarettu, skvetti kaffi yfir gröfina og hló að eigin fyndi meðan ég reykti eina með honum.
Sorgin er ferli; ekki stakur atburður sem fellur af himnum og grúfir yfir í ákveðinn tíma. Hún er lagskipt og fyrsta birtingarmynd hennar er afneitun. Ég upplifði depurð og létti. Ekki bara er dauðinn endanlegur, heldur bindur hann einnig endi á baráttuna. Mig dreymdi hann í margar vikur. Um stund vildi ég trúa því að hann væri ekki farinn. Að við gætum átt samskipti meðan ég svaf.
Sum stigin eru sterkari en önnur; reiðin er erfið. Ég kenndi læknunum um, þeim sem rituðu lyfseðlana sem smám saman drógu hann til dauða. Gældi við þá hugmynd að ráða lögfræðing. Áfelldist kerfið. Gagnrýndi meðferð síbrotamanna og skerta möguleika þeirra sem glíma við fíknivanda. Hellti mér yfir uppeldisfræðikennarann og sagði henni að Ritalin hefði dregið barnsföður minn til dauða.
Sorgin reyndist mér erfiðust allra þeirra lagskiptu tilfinninga sem ég upplifði. Ég fann til sektar þegar ég naut ásta að nýju við karlmann. Þó barnsfaðir minn hefði fyrir löngu tekið saman við aðra konu áður en andlátið bar að, fannst mér eins og við hefðum tekið saman að nýju þegar hann dó og öll mín skref út í lífið voru vörðuð skömm og andúð á eigin upprisu um tíma.
Sáttin kom síðust. Ég velti því lengi fyrir mér hvernig henni yrði háttað. Hvort mér yrði unnt að elska að nýju. Treysta blint og einblína á augnablikið. Þá vissi ég ekki að sáttin sem sérfræðingar tala um, er ekki fólgin í nýju upphafi sem bindur enda á allar minningar, heldur þakklæti fyrir þá reynslu sem atburðarásin hafði í för með sér.
Semper amicus eris; domus cum oculos conivebo me ducas velim - þú verður alltaf vinur minn; leiddu mig heim þegar ég loka augunum.
Ég hef aldrei sagt neinum hvað orðin þýða. Ég lét snúa þeim yfir á latínu stuttu eftir að hann dó og á frummálinu stafa þau: "Semper Amicus Eris," en þau merkja: "Þú verður alltaf vinur minn" og er sama yfirskriftin og ég lét letra á legstæði hans, sem trónir við kaffibollann sem ég skildi eftir síðast þegar ég heimsótti Selinn.
Fæstir gera sér grein fyrir því að þetta er ástæða þess að ég lít á afmælisdaga sem hátíð lífsins.
Þeir minna mig á þá staðreynd að ég fæ að fylgjast með syni okkar vaxa úr grasi.
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment