Þeir hrökkva stundum í kút, karlmennirnir. „Ætlarðu að skrifa pistil um mig?“ spurði einn þeirra þegar ég sagði honum hvaða atvinnu ég hef.
Ég er blaðamaður.
Ég hef gaman af þessu. Velti því stundum fyrir mér hvort einhverjum þyki fréttnæmt að ég hafi sötrað kaffi með miðaldra manni fyrir nokkrum mánuðum síðan, skellt upp úr þegar annar bauð mér að aka um Hvalfjörðinn eða hvenær bréfaskipti mín þyki jaðra við þjóðaröryggi.
Það er magnað hvaða áhrif atvinnuvegur getur haft í daglegu lífi.
„Ertu með stúdentspróf?“ spurði annar þegar ég ræddi dagleg störf mín um daginn.
Ég er ómenntuð með öllu. Lauk grunnskóla og fjaraði út á listnámsbraut, einhverjum árum eftir að fyrsti bíllinn minn gaf upp öndina. Stormaði glaðbeitt inn á reykmettaða ritstjórn einungis 23 ára að aldri og bauð fram viðtal við erlenda popphljómsveit sem ætlaði að halda tónleika á Íslandi.
Breska sveitin Saint Etienne hélt konsert hér á landi eftir stuttlegt spjall mitt við söngkonuna, sem ræddi við mig gegnum síma meðan hún sat á hótelherbergi á ónefndum stað í Evrópu. Spjallið birtist í tímaritinu MANNLÍF og markaði upphafið að ævistarfi mínu. Lifibrauði. Atvinnuvegi.
Ég hef gaman af því sem ég geri. Alltaf lesið bækur. Skrifað ljóð. Safnað pennavinum. Ætlaði mér aldrei að verða blaðamaður. Ég stefndi á réttarsálfræði þegar ég lauk grunnskóla og dreymdi um að verða réttarlæknir þegar ég var lítið barn. Drakk í mig glæpasögur og naut þess að leysa morðgátur þegar ég var yngri.
Orðin höfðu á endanum yfirhöndina. Mér finnst gaman að raða bókstöfum á blað. Þeir koma mér eðlilega fyrir sjónir. Stundum tek ég viðtöl. Öðrum stundum rita ég umfjallanir. Orðin dansa svo skemmtilega. Mér finnst gaman að stíga tangó við bókstafi þegar dimma tekur.
Einhverjir hafa bloggað um skrifin. Gagnrýnt mig harðlega. Ég flissa þegar svo ber við.
Ég er blaðamaður. Kannski skrifa ég bók. Mér finnst gott að drekka kaffi.
„Ætlarðu nokkuð að skrifa pistil um mig?“ spurði einn um daginn og ég vissi ekki hverju ég átti að svara. Ég skrifa stundum um þá reynslu sem ég hef lagt að baki. Þá einstaklinga sem hafa snert við mér og mótað líf mitt á einhverja vegu.
En ég geng ekki með diktafón í vasanum og blýant bak við eyrað.
„Ætlarðu nokkuð að skrifa pistil um mig,“ spurði ókunnugur maðurinn inni á rökkvuðum skemmtistað. Ég var stödd á sænsku diskóteki. Sötraði gosdrykk í þröngu rými undir dynjandi þunga hátalara og smeygði mér hjá augngotum eftir bestu getu. „Þú hefur ekki snert mig,“ langaði mig að hvísla en hélt aftur af orðunum og brosti. „Kannski,“ sagði ég þess í stað og leit óræð út í rökkrið.
„Hverju leitar þú að í fari annarra?“ spurði hann í framhaldinu kíminn og höndlaði bjórinn. Mig rak í rogastans. Ég get ekki greitt götu annarra. Gert einhverjum kleift að verða frægur. Velgengni er bundin einurð og frumleika. Ekki umfjöllun stakra blaðamanna sem ferðast um heiminn og elda kjötbollur þegar heim er komið.
Ég reyndi að segja honum að erfitt væri að kveikja í sálum annarra ef rétt rýkur úr þinni eigin. Að ég leitaði eftir heilsteyptri nálgun, einlægni og sannleika í öðru fólki. „Frumkvæði,“ svaraði ég. „Ég leita einstaklinga sem hafa hugrekki til að vera samkvæmir sjálfum sér. Sem hafa, með einlægni sinni, eitthvað fram að færa. Ég leita þeirra sem breyta heiminum, einn dag í einu. Ég leita móðurinnar sem berst fyrir barninu sínu. Manninum sem fylgdi hugmynd eftir. Stúlkunni sem dansar þegar enginn sér til. Barninu sem er trúir á Guð.“
Ég kláraði gosið mitt og kvaddi fljótlega eftir að hafa látið orðin falla. Örmagnaðist á litlu hótelherbergi úti í heimi og lokaði augunum eftir vel heppnaðan dag í erlendri stórborg sem aldrei sefur.
Orðin „Ætlarðu nokkuð að skrifa pistil um mig,“ óma enn í huga mínu. Leitandi augu á sænsku diskóteki, ókunnug andlit og karlmaður með bjór. Spurningin „hverju leitar þú að í öðrum?“ og mitt eigið svar sem kom okkur báðum á óvart.
Þakka þér fyrir orðin. Þau eru einskis verð nema ég komi þeim á blað. Ég skrifa stundum pistil um þig og öll þín andlit. Þú ert allir menn sem ég þekki. Þó aðeins einn.
Það er gaman að vera kona.
Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment