Sunday, April 24, 2011

Konur horfa stundum á klám

Þegar ég rita orðin, líður mér eins og ég hafi rofið eið systralagsins; ljóstrað upp leyndum hvötum mýkra kynsins, hvíslað dónalegum orðum að alheiminum og sagt eitthvað sem verður ekki tekið aftur.

Konur horfa stundum á klám.

Ég komst að því fyrir stuttu. Klámið fer svo leynt meðal kynsystra minna að við ræðum áhorfið ekki einu sinni yfir kaffibolla. Aldrei hef ég rekist á konu sem skellti DVD disk á borðið, smellti í góm og sagði: „Helvíti góð ræma. Viltu skipta?“ í þeirri von að ég ætti aðra betri, sem ég væri til í að deila með stallsystrum mínum.


Sjálf horfi ég ekki á klám. En ég þekki konur sem gera það stundum og einhverra hluta vegna, þekki ég einnig karlmann sem hefur slíka iðju að atvinnu. Ég kynntist honum fyrir stuttu síðan og kalla hann „erlenda fylgdarsveininn.“

Ég fann hann á klámsíðu sem er starfrækt í útlöndum. Hann er aðeins hærri en ég að eigin sögn og starfar gegnum vefmyndavél. Maðurinn þjónar einungis hinu kyninu og ræðir fáklæddur við konur út um allan heim.

Heilluð af manninum og hugmyndafræðinni sem liggur að baki vændisstarsfemi karla ákvað ég að gefa mig á tal við hann undir formerkjum atvinnu minnar. Ég sagði honum hvað ég geri. Hvaðan ég er. Að ég hafi aldrei horft á klám. Að íslenskar konur njóti réttinda sem eru fáheyrð í öðrum löndum. Að forsætisráðherra landsins sé samkynhneigð. Að fyrsta kona í heiminum til gegna starfi forseta hafi sest í stól á Íslandi. Að feminismi sé ríkjandi í flestum viðhorfum hér á norðurhveli, en einhverra hluta vegna eigi íslenskar konur þó enn erfitt með að viðurkenna að þær horfi á klám.

„I´m a journalist“ sagði ég og klykkti út með orðunum: „Would you be willing to give me an interview about your work and the type of women that seek your services?“

„I would be honored,“ svaraði nakti maðurinn hinu megin á línunni og þandi brjóstvöðvana.

Ég skrifaði niður nokkrar spurningar og sendi honum yfir hafið. Lagði fram allt sem mig langar að vita. Og maðurinn svaraði mér. Á óaðfinnanlegri ensku. Með hrífandi orðalagi. Daðurkenndum róm. Hann virðist hafa hripað niður orðin af léttleika og gleði, hugfanginn af þeirri hugdettu að brátt kæmi viðtal við hann á íslenskum vefmiðli.

„I really would like to stay in touch with you,“ sagði hann þegar ég opnaði MSN-ið mitt nokkrum dögum seinna. „Even if just as friends,“ og krumpuð af kurteisi svaraði ég og sagði já.

Það er ekki á hverjum degi sem erlendir fylgdarsveinar bjóða mér upp í dans. Því síður á ég því að venjast að þeir svari spurningum mínum af einlægni. En vegir mínir eru órannsakanlegir.

Fallegi maðurinn hinu megin á línunni starfar við vefvændi og hann sagði mér að væri ég með vefmyndavél sjálf, væri hægur vandi fyrir hann að horfa á mig til baka. Hann veitti mér einlægt viðtal sem snerist að mestu um eðli karlvændis og þau viðhorf sem hann hefur til starfans.

Ég hlakka til að vinna viðtalið. Kynnast viðhorfum þeirra karla sem starfa við vefvændi og eru fagmenn í geiranum. Konur horfa nefnilega stundum á klám.

Þær gera það bara í laumi.

Pistillinn fjallaði um viðtal við bandarískan fylgdarsvein sem birtist á bleikt.is: Smellið HÉR

Pistlinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment