Sunday, May 15, 2011

Guð blessi Ísland

Mín innri þjóðarsál er örlítið flöt sem stendur. Auðvitað tók ég æðiskast í gærkvöldi þegar stigaspjaldið birtist á skjá íslenskra landsmanna, öskraði „Ítalía“ og dillaði mér heiftúðug við þýska dægurlagið. Uppfærði stöðuna á Facebook, áráttukennd á svip, hvæsti á barnið sem greip fjarstýringuna og lyppaðist vanmáttug niður í sófann þegar fyrir lá að Azerbaijan sigraði keppnina í ár.


Ég horfi aldrei á stórviðburði sem tengjast samkeppni af einhverju tagi. Tilheyri engu íþróttafélagi og diskótera aldrei átök milli afburðafólks við félaga mína og vini. Þess í stað skrifa ég greinar, reyki nokkrar sígarettur og hvísla einhverri bölvaðri vitleysu út í vindinn. Slekk á sjónvarpinu þegar vora tekur og fletti annars hugar yfir fréttamiðla af og til.

Ég tilheyri engum stjórnmálaflokki. Ræði ekki trúarbrögð og sneiði hjá umræðum sem tengjast þjóðfélagsástandinu. Henti útvarpinu þegar kreppan skall á og hef ekki horft á Eurovision síðan árið 2006.

En ég tók æðiskast í gær.

Ég veit ekki af hverju ég brjálaðist yfir Söngvakeppni Evrópskra Sjónvarpsstöðva. Sennilega var minn tími kominn. Mælirinn orðinn fullur. Innri nörður minn kviknaði til lífsins í gær yfir atburðarásinni sem fram fór í Dusseldorf og mér fannst sem enginn morgundagur myndi nokkru sinni renna upp.


Vinkona mín brjálaðist þegar fyrir lá að ég kaus þetta:




Önnur hótaði að loka Facebook aðgangi sínum þegar ég sagðist einnig heillast af þeim:




Sjálf fylltist ég örvæntingu þegar ljóst var að þessir unnu:





Þegar keppni var lokið rann loks upp fyrir mér hvers vegna karlmenn horfa á fótbolta. Það geirr þeim kleift að öskra. Tilfinningin er ekki ólík því að vera lítið, áhyggjulaust og algerlega frjálst barn. Það skiptir engu hver vinnur, það skiptir einfaldlega máli að vera með. Mín innri þjóðarsál fékk útrás fyrir evrópskan keppnisanda í gærkvöldi. Þess vildi ég óska að ég fengi vikulega útrás yfir sykursætum tónlistarviðburðum, þar sem ég iðka engar íþróttir, ræði aldrei stjórnmál og tilheyri engum félagasamtökum.

Guð blessi Ísland: Þjóðinni sem gerði mér kleift að taka æðiskast yfir evrópskum dægurlögum í gær.



No comments:

Post a Comment