Sunday, May 29, 2011

Allir liggja undir grun

Ég er fremur passív í daglegu lífi. Brosi blíðlyndislega við kassann í Bónus, reyni aldrei við karlmenn og læt mér nægja haframjöl í annað hvert mál. Sofna snemma á kvöldin og klæðist náttbuxum við hvert tækifæri.

En það kemur sannarlega fyrir.

Þeir sem til þekkja segja undantekningarlaust að það gerist þegar ég megi síst eiga von á. Ég trúi orðtækinu og er alltaf á verði. Píri augun yfir stöðumælavörðum sem grunlausir skrifa á mig sektir í miðbænum, horfi rannsakandi augum á blásaklausa vinnufélaga og grandskoða vinabeiðnir sem berast mér á Facebook.


Allir einhleypir karlmenn undir fimmtugu liggja í mínum augum undir grun. Að undanskildum akfeitum, það er að segja. Ég er ekki gefin fyrir þykkholda menn, né heldur þá sem ná mér upp að brjósti. En ég á erfitt með að standast einkennisklædda karlmenn.

Sér í lagi þá sem slá mig út af laginu við mjólkurkælinn í matvöruverslunum á kvöldin. Og það gerðist akkúrat eitthvað kvöldið í nýyfirstaðinni viku. Einmitt þegar ég átti síst von á.

Maðurinn skartaði dökku hári með grásprengt í vöngum og greip grunlaus á svip mjólkurfernu, meðan ég gekk yfir gólfið. Gekk í humátt á eftir mér að kassanum. Íklæddur svörtum lögreglubúning með talstöð á mjöðminni.

Andrúmsloftið var rafmagnað.

Hvaða aðferðafræði ætti ég að beita til að vekja athygli á mér?

Ætti ég að kasta í hann M & M? Rúlla kókflösku eftir gólfinu? Reka upp vein? Ég velti því fyrir mér um stund að detta, en hætti við. Þó fall sé fararheill, gerist þetta ekki alltaf eins og í amerískum bíómyndum. Þess utan gæti ég flækt kápuna í skónum og fallið orðið hálf klaufalegt.

Ég gæti jafnvel dottið á manninn.

Tók ekki sénsinn og leit þess í stað táknrænu augnaráði framan í afgreiðslumanninn um leið og ég afhenti morgunmatinn yfir afgreiðsluborðið. Einlæg löngun til að skrifa eigið símanúmer á Visa nótuna greip mig enn á ný, en ég beit á jaxlinn og kvittaði orðalaust út í bláinn.

Maðurinn gekk á eftir mér út úr búðinni. Tækifærið var að renna mér úr greipum. Leiftursnögg hugsun fór um huga minn, þegar ég leit í baksýnisspegilinn og sá stöðuljósin á bílnum hans. Ætti ég að bakka á manninn? Setja upp stút og hlæja einfeldningslega í þeirri von að við myndum enda saman á kaffihúsi kringum miðnætti, hann með talstöðina á mjöðminni og ég vopnuð innkaupapokum?

Auðvitað kom þó slíkt ekki til greina. Maðurinn var augljóslega íklæddur einkennisbúning og sat undir stýri á lögreglubifreið. Ég gæti hlotið dóm fyrir að ráðast á eigur hins opinbera.

Það var ekki fyrr en heim var komið að alheimurinn talaði til mín.

Facebook hefur svör við öllu.

Eftir leiðum sem mér er óljúft að ljóstra upp, hafði ég upp á umræddum gegnum samskiptasíðuna góðu. Sendi hnyttið bréf að áeggjan vinkonu, hló dátt að eigin fyndni og sofnaði sátt á svip eftir að hafa sent grunlausum einstakling í einkennisbúning nokkrar línur sem ég undirritaði sem „konan við mjólkurkælinn.“

Daginn eftir var komið bréf í pósthólfið þar sem undirritaður þakkaði af stakri kurteisi fyrir auðsýndan áhuga og brosti að viðleitni minni.

Þess má geta að mig grípur æði þegar ég verð taugaveikluð.

Ég keypti tíu lítra af mjólk þegar ég sá manninn.

Í stuttu máli sagt hló ég dulítið að eigin fyndni. Það er svo auðvelt að vera hnyttinn á prenti. Ég fjaraði út og fór í sumarbústað. Gleymdi öllu sem gengið hafði á í bænum.

Ég var utan þjónustusvæðis, sjáið til.

Uppfrískuð eftir dvöl í einrúmi undir stjörnubjörtum himni mætti ég galvösk til bæjar og reif utan af mér nokkra brandara þegar langþráð vinnuvika rann upp að nýju. Svaraði hinum nýfundna vini mínum aftur, sem af stakri kurteisi sendi mér annað bréf og innti mig eftir ævintýrum helgarinnar.

Hnarreist sendi ég manninum nú annað bréf, fullviss um að kímnigáfa mín hefði náð nýjum hæðum er ég sagði: „Annars er ég að velta því fyrir mér hvort óhætt sé að stíga í vænginn við þig, herra lögreglumaður. Ef Gwyneth hefði ekki orðað hlutina svona vel, hefði ég eflaust skellt í pistil.“

Þar átti ég vissulega við Frú Palthrow sem bregður sér í hlutverk kynfræðanda í ónefndum bandarískum sjónvarpsþætti. Ég sendi honum lítið myndbrot af frúnni þar sem hún fer á kostum í kennslustund, kveikti mér glaðbeitt í sígarettu og drakk örlítinn rjóma.

Mikið svakalega get ég verið fyndin í matvörubúðum ...




Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment