Flest snerust ljóðin um ástina og þá sérstaklega það sem hafði farið aflaga að eigin mati. Ótæpilegt magn hefur runnið til sjávar síðan ég fór stórum orðum um eigin ósigra í einkalífinu í bundnu máli og viðhorfin hafa slípast með árunum. Ég er löngu hætt að semja ljóð og les sjaldan leirburð annarra.
Ég rakst á skemmtilegt ljóð fyrir stuttu, sem ber heitið „Ég þekki konur“, var ritað af karlmanni sem gaf út samnefnda ljóðabók. Maðurinn sá arna var alþýðuskáld og bar nafnið Böðvar frá Hnífsdal. Bókin kom út árið 1930 og hefur án efa þótt hörð ádeila á samtíma Böðvars, sem stóð í orðum sínum upp fyrir þær stúlkur sem gengu á þeim tíma undir nafninu portkonur.
Í dag yrði Böðvar álitinn argasti femínisti, þrátt fyrir að hafa verið stimplaður fátæk fyllibytta á umræddum árum. Það var sem rofaði fyrir sólu þegar ég las niður orðin hans í fyrsta sinn og áttaði mig á því að í raun er ekkert nýtt undir sólinni.
Ljóðið er einfalt og snart mig, en íslenskur karlmaður ritaði orðin upp úr 1920. Hann fangaði huga portkvenna síns samtíma og gerði hugðarefni þeirra ódauðleg með einföldum leirburði sínum.
Gefum Böðvari orðið, en hann var einungis tvítugur að aldri þegar hann ritaði þessar línur:
Ég þekki konur
Ég þekki konur með eld í æðum
frjálsar í skapi, fyndnar í ræðum
þær þekkja lífið og lífsins sorgir
en minnast aldrei á brunnar borgir
Æskan er svívirt og eiðar lognir
en brennumenn í burtu flognir
heimurinn dæmir þær hyggju spilltar
um nætur bestar, í nautnum villtar
Dæmir þær úrhrök og einskis virði
og dræpi þær eflaust ef hann þyrði
heimur skolaðu hendur þínar
ég þekki sjálfur systur mínar
Konur sem dansa með dauðann í hjarta
þær kunna að elska en ekki að kvarta
konur sem hlægja og hylja tárin
þær brosa fegurst þá blæða sárin
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment