Ég var sjö ára þegar fyrsta viðtalið birtist. Það kom í Lesbók Morgunblaðsins og þau vildu hafa mig með á myndinni. Ég man ekki ýkja mikið eftir viðtalinu sjálfu, aðeins að hún sagði að konan væri vafningsviður sem fléttaði sig utan um karlmanninn.
Símtölin sem fylgdu á eftir voru mikilvæg. Móðir mín flissaði og í kjölfarið heyrði ég eitthvað um kappræður. Hún mætti og talaði gegn rauðsokkunum. Ég var þó of ung til að skilja um hvað málið snerist. Að lokum gerði ég mér grein fyrir því að orð móður minnar höfðu snúið þjóðfélaginu á hvolf.
Ég skynjaði umræðuna með huga sjö ára barns sem svaraði undirleit áleitnum spurningum kennara og foreldrum bekkjarfélaga, fjarskyldum ættingjum og gangandi vegfarendum ef því var að skipta. Í þá daga var ekkert internet til og spurningin: „Hvað er að frétta af henni mömmu þinni?“ dundi í eyrunum á mér alla daga.
Enginn minntist orði á að rauðsokkurnar væru reiðar út í hana. Þær fregnir fékk ég við eldhúsborðið heima. „Mikið eru þær vitlausar“ flissaði mamma og flaggaði helgarblöðunum. Einhver konan hafði rokið í viðtal og svarað.
„Er hún mamma þín ekki með neinum manni núna?“ var yfirleitt viðkvæðið þegar ég rak inn höfuðið hjá vinkonum mínum. Stundum var ég króuð af inni í eldhúsi hjá fullorðna fólkinu, sem hleypti mér ekki inn að leika fyrr en ég hafði lekið út mikilvægum upplýsingum um svefnherbergisvenjur minnar eigin móður. Ég fékk kökusneið að launum ef ég svaraði rétt.
Ég var viðkunnalegt barn með ljósa lokka og vildi fyrir alla muni gera öðrum til geðs. Mér lærðist fljótt að svarið „Nei, ég held ekki“ var ekki viðeigandi svo ég bullaði eitthvað um ímyndaða elskhuga og laug því hraðar en vindurinn ferðast að móðir mín ætti í æsispennandi ástarævintýrum með nafnlausum mönnum sem ég kunni ómögulega nein deili á.
Smjaðursleg brosin gáfu mér yfirleitt til kynna að ég hefði svarað rétt þegar ég laug um einkalíf móður minnar. Ég sagði henni aldrei hvað fór fram í öðrum eldhúsum og því síður að ég væri króuð af þegar ég gekk inn um hurðina hjá allflestum bekkjarsystrum mínum.
Ég hef aldrei talað um þorsta almennings eftir vitneskju um einkalíf móður minnar á opinberum vettvangi fyrr. Í raun held ég að hún viti ekki enn hversu oft ég heyrði spurninguna. Þetta er í fyrsta sinn sem ég viðurkenni í einlægni að þjóðsöngur barnæsku minnar voru orðin: „Hvað er að frétta af henni mömmu þinni? Er hún með einhverjum manni núna?“
Ég fæ enn spurninguna af og til.
Stundum segi ég einfaldlega: „Ég veit það ekki“ og nýt vonbrigðanna sem svarið framkallar.
Allir höfðu skoðanir á mömmu. Og deildu þeim ólmir með mér. Stundum var ég innt eftir því hvort móðir mín væri klikkuð. Þetta var áður en internetið varð til, fyrir tíma einkarekinna útvarpsstöðva, meðan fréttaflutningur fór enn fram í dagblaðaformi og sjónvarpið fór í frí á sumrin.
Þetta var fyrir tíma glaðbeittra pistlahöfunda, sem þjakaðir af forræðishyggju, sjá sig í dag knúna til að sá fræjum afbakaðrar réttsýni og uppgerðarlegri mannúð í hjörtu almennings. Áður en orðið „feminismi“ var sagt upphátt á íslenskri grundu í fyrsta sinn. Meðan á þessu stóð, starfaði Ögmundur Jónasson enn sem fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, skyr var selt í pökkum og aðeins ein brennivínsbúð var starfandi á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Þetta var áður en rauðsokkurnar fengu á sig nafnið „kvenréttindakonur“. Meðan rólóvellir voru enn starfandi í henni gömlu Reykjavík. Þetta var stuttu eftir að íslenskar konur brenndu brjóstahaldara á báli á miðju Lækjartorgi til að mótmæla þjóðfélagslegri stöðu sinni. Nokkuð var liðið síðan faðir minn reif niður dollaraseðla og sturtaði ofan í klósettið til að sýna andúð sína á auðvaldinu. Einhverju síðar var hann handtekinn fyrir kröfugöngu gegn NATO. Afi minn lét hann dúsa í klefa niðri á stöð til að kenna honum að taka afleiðingum gjörða sinna.
Í þá daga stóð fólk undir orðum sínum og steig kokhraust í ræðustól, ritaði í blöðin undir nafni og kom á kappræðum ef eitthvað þótti bjáta á. Þannig skoruðu rauðsokkur móður mína á hólm þegar hún mælti mót kvennabaráttunni og hún mætti þeim í hátíðarsal Menntaskólans í Hamrahlíð.
Einhverjar rituðu á móti henni og komu fram undir nafni. Lesendabréf flugu fram og til baka og ádeilan stigmagnaðist þar til allt þjóðfélagið hreinlega logaði af mótsögnum. Allir höfðu skoðanir sem þeir ólmir vildu deila. En einu bar öllum saman um, ákveðinn spurningu varð með einhverju móti að svara: Var hún Rósa Ingólfsdóttir með einhverjum manni?
Þetta var áður en ég fullorðnaðist og lærði að mér er óhætt að segja:
„Þér kemur það einfaldlega ekki við.“
Pressan fjallaði um pistilinn, en til lesa fréttina: Smellið HÉR
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment