Sunday, April 17, 2011

Web Cam Virgin

Ég hef ekki leikið mér á netinu í nokkur ár. Að vísu vinn ég yfir netið, en ég nota vefinn einungis til að skila inn gögnum og greinum. MSN-ið mitt liggur næstum óhreyft og Facebook er galopið gegnum samskiptaforritið.

Undanfarna mánuði virðast hertar öryggisreglur á netinu hafa tekið mið af því að ég uppfæri allar persónuupplýsingar á Facebook. Auðvitað var mér boðið að tengja MSN við Facebook fyrir stuttu og á Windows Life rýminu mínu hef ég eindregið verið hvött til að tengjast vinum mínum gegnum síðuna og fylgjast um leið með þeirra ferðalögum á vefnum.

VAKNAÐU, KONA...


Grunlaus skráði ég inn eigið símanúmer á Facebook, tengdi svo MSN-ið við síðuna góðu og uppfærði starfsupplýsingar fyrir nokkrum mánuðum. Þetta gerði ég í þeirri von að ég nyti aukins öryggis á ferðum mínum um frumskóga internetsins.

HÆTTU ...

Heimilisfang, símanúmer, fullt nafn, fæðingardagur; alls þessa krefjast samskiptasíður af mér í nafni aukinna öryggisreglna. „For your increased safety“ stendur á annarri hverri síðu og í framhaldinu er ég krafin um enn fremri upplýsingar.

„We will never give your private information to any third party“ öskra síðurnar á mig.

JÁ, ER ÞAÐ EKKI?

Og grunlaus held ég áfram að skrá upplýsingar, í þeirri von að ég tryggi enn fremur öryggi mitt.

Vissulega samþykki ég tillögur þrákelnislega; þannig tengdi ég einmitt Facebook við MSN fyrir stuttu.

STOPP!

Auðvitað gef ég upp MSN þegar mikið liggur við; þegar ég vill spjalla óhindrað án þess að tengja viðkomandi við mitt allra heilagasta á Facebook og trúði því fullum fetum þar til fyrir viku síðan að ég nyti alþjóðlegrar persónuverndar, vegna allra þeirra upplýsinga sem ég hef nú gefið upp á netinu.

HVERNIG GET ÉG VERIÐ SVONA BARNALEG?

Það gerðist einmitt um daginn. Ég rakst á skemmtilegan mann fyrir skömmu síðan. Sá hinn sami býr að eigin sögn í Sviþjóð og gott betur en það; hann er staðsettur í Gautaborg. Þetta gerðist á einhverri samskiptasíðunni og þar sem hann fékk mig til að brosa, ákvað ég að láta af hendi eigið MSN í skiptum fyrir hans. Það getur verið svo skemmtilegt að spjalla. Ég kallaði hann „svíann“ og henti honum inn.

FRÆNDUR OKKAR ...

„Limit access to your profile“ spurði MSN mig þegar ég bætti honum á vinalistann. Kokhraust smellti ég á „No“ og bætti manninum við. Ég hef ekkert að fela, sjáið til. Galopin bók, frísk og falleg kona á fertugsaldri með sjálfa mig í vasanum og glott á vör. Erlendir menn geta ekki verið hættulegir.

Eða hvað?

Klukkutímar liðu og hláturinn ómaði beggja megin við línuna. Eitthvað komu vefmyndavélar við sögu og ófáum kaffibollum síðar klykkti ég út með orðunum: „nú þarf ég að vinna, það er pistill í fæðingu og hann á að birtast á morgun.“

„Ertu ekki með Facebook?“ spurði ég og hann svaraði því einu að hann væri of gamall fyrir slíka hluti, orðinn 44 ára og gæti ómögulega staðið í svona rugli. „Ekki fara,“ bað hann mig þegar ég sagði honum að brátt yrði ég að hlaupa út, því vinkonur mínar biðu og laugardagskvöld var runnið upp.

„Sendu mér bara sms ef þér leiðist,“ klykkti ég grunlaus út og sendi honum númerið mitt yfir netið. Fálátur varð svíinn við tilöguna og kvaddi með þeim orðum að hann biði mín þegar ég kæmi til baka. Kvöldið leið, ekkert sms barst frá Svíþjóð og dansinn dunaði til miðnættis.

JÚHÚ?!?

Þegar heim var komið, beið svíinn mín enn við tölvuna þrákelnislegur á svip og andvarpaði feginlega þegar ég ræsti upp MSN-ið.

„Hann vill örugglega ekki gefa upp númerið sitt,“ hugsaði ég og smellti mér á spjallið.

Svíinn varð klæminn þetta kvöld. Hann reif út á sér það allra heilagasta meðan við spjölluðum yfir hafið og gantaðist með þann möguleika að við gætum haft kynmök. Eitt andartak hélt ég að maðurinn væri að grínast. Það næsta gerði ég mér grein fyrir því að honum var alvara.

„Sendu mér sms,“ sagði ég við hann en fékk að launum svarið „nei, ég gef ekki upp númerið mitt á netinu.“

NEI, AUÐVITAÐ EKKI...

„En þú ert búinn að dinglast berrassaður fyrir framan mig,“ sagði ég máttvana af undrun.

„Skiptir ekki máli,“ svaraði hann. „Persónuupplýsingar eru annað.“

Hvað vildi maðurinn? Ég ákvað að komast að því og lagðist í rannsóknarleiðangur á netinu. Vissulega eru til forrit sem gera fólki kleift að taka upp vefsamtöl gegnum MSN. Því komst ég að þegar ég fór að leita. Ég veit ekki hvort hann var með slíkt. En því er ég fegin að ekki hvarflaði að mér að fara úr fötunum fyrir manninn. Kannski hafa aðrar konur gert það og endað með stimpilinn „Web Cam Virgin“ á þrýstnum bossanum á erlendum klámsíðum.

VÆRI ÉG HLUTI AF ERLENDRI KLÁMMYND EF ÉG HEFÐI GEFIÐ MIG?

Hann sendi mér tölvupóst. Rétt áður en samskiptum okkar lauk eftir fjögurra daga kynni, tókst mér að leita uppi IP töluna hans á netinu með því einu að fara í gegnum tölvupóstinn minn.

TO CATCH A THIEF YOU´VE GOT TO THINK LIKE ONE:

Ég heimsótti ágæta síðu sem gerir mér kleift að fletta upp IP tölum en leitin skilaði mér takmörkuðum niðurstöðum. Reyndar kom upp nafn karlmanns sem tengist bænum Lundur í Svíþjóð. Og ég sem trúði í einlægni að hann væri staddur í Gautaborg. Héti þar að auki ekki Max, heldur Janus Person. Þegar ég sló upp nafninu í sænsku símaskránni kom í ljós að um tölvufyrirtæki er að ræða og að skráður notandi er ekki til í Svíþjóð. Við nánari athugun kom svo aftur í ljós að umræddur "Max Jonborn", sem er skráður fyrir IP tölunni er einnig skráður fyrir þúsundum annarra IP talna og hefur mikið verið kvartað undan vesalings manninum á netinu.

Max vesalings Jonborn er sumsé ekki til. Hann er alias fyrir þúsundir notenda sem allir eru skráðir á sama heimilisfang og búa í örlitlu húsi í Lundi.

Janus Person á ekki við rök að styðjast heldur.

ER HÆGT AÐ BLOKKA IP TÖLUR OG KAUPA FALSKAR Á NETINU?

Vanmáttug aftengdi ég samstundis MSN við Facebook, afmáði allar persónuupplýsingar sem um mig er að finna á báðum samskiptaforritum og þakkaði Guði almáttugum að ég fór ekki úr fötunum fyrir manninn.

ÞÖKK SÉ FEIKILEGUM KRÖFUM FACEBOOK, NÚ VAR ÉG ORÐIN BERRÖSSUÐ Á INTERNETINU ...

Af einskærum barnaskap ákvað ég að leggja til síðustu atlögu og sendi manninum eftirfarandi skilaboð: „Tell me your Facebook account or call me during a webcam chat – otherwise I don’t see this going any further. Sry … but somethings gotta give,“ með þeim afleiðingum að maðurinn blokkaði mig og hef ég ekki séð hann síðan.

Ég hef enga hugmynd um raunverulegan íverustað vinar míns. Né hvort hann er sænskur. En hann heitir ekki Per og því síður Max.

Að vel ígrunduðu máli ákvað ég að skrifa pistil um málið í þeirri von að reynsla mín og útsjónarsemi geti orðið öðrum grunlausum notendum að gagni. Þið sem hafið fengið dularfullan tölvupóst og dansað á webcam, er upplýsingar um myndbrotið að finna annars staðar á internetinu? Ég var heppin og slapp vel. Í þetta skiptið kom passívt eðli mitt að góðum notum, ég afklæddist ekki frammi fyrir manninum og lét ekki draga mig á tálar.

VISSU ALLIR ÞETTA NEMA ÉG?

Í guðs bænum, krakkar ... gangið hægt um gleðinnar dyr ... það er ekkert grín að gantast á netinu.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment