Sunday, March 20, 2011

Er ekki erfitt að vera svona gömul?

Ég rek alltaf upp stór augu þegar ég heyri spurninguna: „Finnst þér ekki erfitt að vera orðin svona gömul?“ Spyrjendur eru öllu jöfnu ungar konur sem glíma við komplexa. Stúlkur sem enn dásama unglingsárin. Mæður barna sem enn eru ómálga. Konur sem eru mun yngri en ég.

„Finnst þér ekkert erfitt að vera orðin svona gömul?“ spyrja þær gjarna þegar ég gef upp aldur minn og segi þeim öllum að ég sé orðin fertug.


„En þú ert með líkama ungrar stúlku...“ andvarpa þær oft í kjölfarið og á eftir fylgir: „...ég vildi að ég væri svona grönn. Ég hef alltaf átt erfitt með að megra mig. Segðu mér samt, finnst þér í alvöru ekkert erfitt að vera orðin svona gömul?“ og eftir sit ég iðulega, orðlaus af undrun og agndofa yfir þeirri staðreynd að flestar ætlast þær til þess að ég, í fullri einlægni, svari.

Sennilega væri viðeigandi svar: „Jú, um daginn var ég meira að segja spurð að aldri og ég stóð mig að því að ljúga...“ en ég kem einfaldlega ekki orðunum þeim upp.  

„Finnst þér í alvöru ekkert erfitt að vera orðin svona gömul?“ ómar í eyrunum á mér alla daga.

Mér langar að hrópa „Nei, því ég er á lífi!“ en svarið stendur fast í hálsinum á mér.

Þess í stað þegi ég og brosi. Umla eitthvað um afstæðan tíma og beini umræðuefninu að öðru.

Ég gæti auðvitað svarað spurningunni með ísmeygilegum róm og gefið í skyn að ég væri nýbúin að fara í Botox. Vitnað í Demi Moore og hvíslað: „það er hægt að halda í ungdóminn lengur“ og malað eins og köttur þegar  stúlkurnar létu nærgöngul ummæli falla um líkama minn.

Í framhaldinu myndi ég síðan hringja í miðaldra vinkonu, hlæja með gaggandi takti og segja hryssingslega: „Heyrðu, já, nú erum við aldeilis orðnar fertugar, manneskja. Manstu hvað við vorum flottar í den?“ og uppskera að launum svarið: „Já, Klara mín! Og hvernig finnst þér svo að vera orðin fertug?“ sem ég myndi að öllum líkindum svara með orðunum: „Heyrðu, mér finnst það bara fínt, manneskja! Nú er ég loks orðin kelling!“

Auðvitað fylgja svo orðin: „Helvíti, hvernig ferðu annars alltaf að því að vera svona grönn?“

Og ég gæti sagt: „Jah, það er nú bara leyndó, góða mín.“

Malað af unaði yfir afbrýðinni hinu megin á línunni og skellt síðan á.

Ég myndi hlæja stórkarlalega að orðum námsráðgjafans sem sagði mér að bráðum yrði ég „Horny“ og vitnaði þar í aldur minn. Hún átti við væntanlegt afmæli  mitt. „Svo verður þú Horny - One“ gaggaði konan „og Horny – Two“, kipptist glaðhlakkanlega til á stólnum og lagfærði rándýr gleraugun á andlitinu.

Þess má geta að ég dró umsókn um skólavist til baka þegar viðtali lauk.

Kannski hefur mér yfirsést eitthvað í öllu fjörinu. Eru aldursklúbbar starfræktir á höfuðborgarsvæðinu? Einhverjir leyniklúbbar sem ég hef aldrei vitað af? Gleðjast aldurshópar í einlægni yfir aldri meðlima, hrópa: „Velkomin í klúbbinn, kellingin þín!“ og blása í blöðrur þegar nýr áratugur rennur upp?

„Af hverju ertu svona grönn – er ekki erfitt að vera svona gömul – hvernig ferðu að þessu?“

Spurningarnar dynja á mér. Nærgöngular athugasemdir um líkama minn. Niðurlægjandi ummæli um árin sem ég hef lagt að baki. Óskiljanlegar pílur. Stundum er engu líkara en ég eigi að skammast mín.

Ég get ekki sagt umræddum konum að afmælisdagar feli í sér hátíð lífsins. Að þeim beri að fagna með reisn og þakklæti. Að reynslan sé besta veganestið. Ég get ekki sagt þeim að ég verði alltaf örlítið meyr á tímamótum. Að kaflaskipti snerti djúpt við mér.  

Ég get ekki útskýrt fyrir þeim að afmælisdagar hafi sérstaka merkingu í mínum augum, því ég missti ástvin fyrir skömmu. Ég kann illa við að segja þeim að afmælisdagar og þar með talin árin, sem ég hef lagt að baki, séu mér dýrmæt því ég er enn á lífi.

Í  öllu þessu ofboði finnst mér stundum gleymast að afmæli eru merkisdagar.

Í þeim felst að ég lifi.

Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR

No comments:

Post a Comment