Sunday, May 29, 2011

Allir liggja undir grun

Ég er fremur passív í daglegu lífi. Brosi blíðlyndislega við kassann í Bónus, reyni aldrei við karlmenn og læt mér nægja haframjöl í annað hvert mál. Sofna snemma á kvöldin og klæðist náttbuxum við hvert tækifæri.

En það kemur sannarlega fyrir.

Þeir sem til þekkja segja undantekningarlaust að það gerist þegar ég megi síst eiga von á. Ég trúi orðtækinu og er alltaf á verði. Píri augun yfir stöðumælavörðum sem grunlausir skrifa á mig sektir í miðbænum, horfi rannsakandi augum á blásaklausa vinnufélaga og grandskoða vinabeiðnir sem berast mér á Facebook.

Tuesday, May 24, 2011

Ætlarðu að skrifa pistil um mig?

Þeir hrökkva stundum í kút, karlmennirnir. „Ætlarðu að skrifa pistil um mig?“ spurði einn þeirra þegar ég sagði honum hvaða atvinnu ég hef.

Ég er blaðamaður.

Ég hef gaman af þessu. Velti því stundum fyrir mér hvort einhverjum þyki fréttnæmt að ég hafi sötrað kaffi með miðaldra manni fyrir nokkrum mánuðum síðan, skellt upp úr þegar annar bauð mér að aka um Hvalfjörðinn eða hvenær bréfaskipti mín þyki jaðra við þjóðaröryggi.

Sunday, May 15, 2011

Guð blessi Ísland

Mín innri þjóðarsál er örlítið flöt sem stendur. Auðvitað tók ég æðiskast í gærkvöldi þegar stigaspjaldið birtist á skjá íslenskra landsmanna, öskraði „Ítalía“ og dillaði mér heiftúðug við þýska dægurlagið. Uppfærði stöðuna á Facebook, áráttukennd á svip, hvæsti á barnið sem greip fjarstýringuna og lyppaðist vanmáttug niður í sófann þegar fyrir lá að Azerbaijan sigraði keppnina í ár.

Sunday, May 1, 2011

Semper Amicus Eris

Hann spurði mig eitt sinn hvað fjölskylda væri í raun. Hvort kjarni hjónabandsins væri fólginn í matreiðslu konunnar meðan maðurinn horfði á fréttir.

Ég leit á hann og sagði honum að fjölskylda væru ástvinir sem stæðu saman og gerðu hvorum öðrum kleift að láta eigin drauma rætast. Hann leit þreyttum augum á mig og samsinnti mér í engu. En hann andmælti mér ekki heldur. Þess í stað ríkti þögn um stund og svo kveikti hann sér í sígarettu.

Þetta var í síðasta sinn sem við ræddum saman.