Sunday, April 24, 2011

Konur horfa stundum á klám

Þegar ég rita orðin, líður mér eins og ég hafi rofið eið systralagsins; ljóstrað upp leyndum hvötum mýkra kynsins, hvíslað dónalegum orðum að alheiminum og sagt eitthvað sem verður ekki tekið aftur.

Konur horfa stundum á klám.

Ég komst að því fyrir stuttu. Klámið fer svo leynt meðal kynsystra minna að við ræðum áhorfið ekki einu sinni yfir kaffibolla. Aldrei hef ég rekist á konu sem skellti DVD disk á borðið, smellti í góm og sagði: „Helvíti góð ræma. Viltu skipta?“ í þeirri von að ég ætti aðra betri, sem ég væri til í að deila með stallsystrum mínum.

Sunday, April 17, 2011

Web Cam Virgin

Ég hef ekki leikið mér á netinu í nokkur ár. Að vísu vinn ég yfir netið, en ég nota vefinn einungis til að skila inn gögnum og greinum. MSN-ið mitt liggur næstum óhreyft og Facebook er galopið gegnum samskiptaforritið.

Undanfarna mánuði virðast hertar öryggisreglur á netinu hafa tekið mið af því að ég uppfæri allar persónuupplýsingar á Facebook. Auðvitað var mér boðið að tengja MSN við Facebook fyrir stuttu og á Windows Life rýminu mínu hef ég eindregið verið hvött til að tengjast vinum mínum gegnum síðuna og fylgjast um leið með þeirra ferðalögum á vefnum.

VAKNAÐU, KONA...

Sunday, April 10, 2011

Ég þekki konur

Ég skrifaði gjarna ljóð þegar ég var yngri. Las þau stundum upp hofmóðug á svip fyrir agndofa móður mína, sem klappaði virðulega saman lófunum og hrósaði mér í hástert fyrir hugmyndaauðgi og ritsnilli. Ljóðin geymdi ég í lítilli bók sem ég á ennþá. Hún trónir í bókahillunni minni; lúin skrudda sem geymir barnalega skrift og einlægar vonir ungrar stúlku.

Sunday, April 3, 2011

Hvað er að frétta af mömmu þinni?

Ég var sjö ára þegar fyrsta viðtalið birtist. Það kom í Lesbók Morgunblaðsins og þau vildu hafa mig með á myndinni. Ég man ekki ýkja mikið eftir viðtalinu sjálfu, aðeins að hún sagði að konan væri vafningsviður sem fléttaði sig utan um karlmanninn.

Símtölin sem fylgdu á eftir voru mikilvæg. Móðir mín flissaði og í kjölfarið heyrði ég eitthvað um kappræður. Hún mætti og talaði gegn rauðsokkunum. Ég var þó of ung til að skilja um hvað málið snerist. Að lokum gerði ég mér grein fyrir því að orð móður minnar höfðu snúið þjóðfélaginu á hvolf.