Þegar ég rita orðin, líður mér eins og ég hafi rofið eið systralagsins; ljóstrað upp leyndum hvötum mýkra kynsins, hvíslað dónalegum orðum að alheiminum og sagt eitthvað sem verður ekki tekið aftur.
Konur horfa stundum á klám.
Ég komst að því fyrir stuttu. Klámið fer svo leynt meðal kynsystra minna að við ræðum áhorfið ekki einu sinni yfir kaffibolla. Aldrei hef ég rekist á konu sem skellti DVD disk á borðið, smellti í góm og sagði: „Helvíti góð ræma. Viltu skipta?“ í þeirri von að ég ætti aðra betri, sem ég væri til í að deila með stallsystrum mínum.