Ég á skemmtilegan vin, sem virðist vaða í konum. Maðurinn sá er einstaklega lipur í talanda og leikur sér að þeirri list að draga konur á tálar. Allar konur ættu að eiga einn svona vin. Þann sem hægt er að hringja í, þegar dregur til tíðinda í einkalífinu, mann sem virðist alltaf hafa svör á reiðum höndum; félaga sem býr yfir þeim sjaldgæfa eiginleika að geta lesið ókunna, einhvern sem veit hvað hitt kynið hugsar OG getur veitt ráð í einkalífinu.
Sami vinur hefur reynst mér eins og sannur bróðir og aldrei stigið í vænginn við mig, heldur matar mig á upplýsingum um hvernig best er að koma fram við sterkara kynið meðan við gæðum okkur á hádegismat hinum á fjölbreytilegustu veitingastöðum.
Á leynifundum sem þessum hlæjum við iðulega mikið, hvíslum því meira yfir borðið og veltum vöngum yfir hinum ótrúlegustu viðreynsluaðferðum. Vinur minn er þess fullviss að ég laði að mér litla drengi, sem íklæddir líkama þrekvaxinna karlmanna, leggja snörur sínar fyrir mig og í einhverjum tilfellum er það enda hárrétt.
Allar konur þyrftu að eiga vin, sem hefur lagt meiri reynslu að baki í einkalífinu en þær.
Ég hef gaman að kauða.
Sá hinn sami hefur kennt mér lexíuna eða tvær um hvernig best er að nálgast karlmann. Hann hefur hvatt mig til hugrekkis, útskýrt þolinmóður fyrir mér að jafnvel karlmenn geti orðið hræddir og að strákum þyki líka gaman að fá kompliment. Ég verð alltaf jafn ógurlega hissa þegar maðurinn hefur upp dimma raust sína, kveikir í vindli og hefur yfir orðin: „karlmenn kunna líka að meta ást, Klara. Sjálfur vill ég einungis þekkja konu sem getur komið fram af ákveðni og kurteisi.“
Ég verð alltaf jafn hissa þegar hann vinur minn reynir að sannfæra mig um að kona sem hefur hæfilegt frumkvæði, geti virkað tælandi á karlmann. Hann hefur kennt mér að karlmenn kunni ekki einungis að meta konur, sem eru ofan á í svefnherberginu, heldur einnig þær sem kunna þá list að vera hæfilega ástleitnar í tilhugalífinu.
„Ekki kann ég að meta konu sem sýnir mér engan áhuga, Klara“ hefur hann hvað eftir annað sagt mér og með því hvatt mig til frumkvæðis og ævintýragirni í samskiptum við elskhuga mína. „Ég vill vera metinn að verðleikum sem karlmaður og elskaður sem slíkur.“
Þetta skýtur algerlega skökku við ef marka má ráðleggingar amerískra stefnumótabóka, sem allar sem ein virðast fjalla um að konur skuli leggja metnað sinn í að vera óræðar, dularfullar og einstaklega erfiðar í allri nálgun. Ég veit stundum vart hvort ég á að treysta á sullið sem ég les í útlendum tímaritum eða traustum ráðleggingum félaga míns, sem virðist hafa röntgenaugu.
Kannski kunna karlmenn ágætlega að meta konur sem svara símanum. Verða upp með sér þegar þeim er boðið á stefnumót og brosa þegar kona slær þeim gullhamra. Þarna gildir að sjálfsögðu meðalregla hófsemi engu að síður, því enginn kann að meta einstakling sem hringir í sífellu og ber upp bónorð á þriðja stefnumóti.
Best geymda leyndarmál karla, segir félagi minn þá, er nefnilega sú staðreynd, að þeir vilja vera elskaðir sjálfir.
„Hvers vegna heldurðu að við gefum blóm? Því okkur langar sjálfum að fá rósir!“
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment