Stundum finnst mér eins og hvert einasta ár beri einkennisliti og hlæ með sjálfri mér þegar ég lít til baka og skoða ólík viðhorf mín til aldurs á hinum ýmsu æviskeiðum. Ég minnist þess með angurværð að hafa ákveðið að verða pæja, sem lítið barn. Undrast þau viðhorf mín að hafa litið niður á fullorðið fólk sem unglingur.
Flissa þegar ég minnist vanmáttar míns um tvítugt, en það var þá sem ég áttaði mig á áhrifamætti fullorðinsáranna, þakka Guði fyrir þrítugsafmælið og brosi umburðarlynd, þegar ég heyri fullorðna karlmenn segja með þjósti að þessar fertugu geri sér enga grein fyrir því að fegurðin er farin.
„Beauty is in the eye of the beholder“ sagði sænskur elskhugi minn eitt sinn við mig, þegar ég spurði hann því hann hefði fallið fyrir mér og klykkti svo út með orðunum „it was your sexual frustration that drew me towards you“ og samstundis komu mér tvær staðreyndir í huga – manninum þætti þægilegast að gefa með þessum hætti í skyn að ekki einungis væri ég óaðlaðandi í augum annarra, þó honum þætti ég sæt – heldur hlyti ég einnig að breima af losta í hvert sinn sem ég gengi inn í herbergi.
Þá var hann nokkru yngri en ég og óheppinn með orðaval á tíðum. Það sem maðurinn átti engu að síður við, var sú staðreynd að sjálfsöryggi er sexí. Að kynþokki kemur innan frá og að útgeislun konunnar er gríðarlega mikilvæg.
Ég var 32 ára gömul þegar við kynntumst.
Hann var átta árum yngri en ég.
Þetta var í fyrsta sinn sem ég gerði mér óljósa grein fyrir því að til væru þeir karlmenn sem dragast að sér eldri konum. Ég átti bágt með að skilja þær hvatir sem að baki lágu. Vissulega þótti mér maðurinn aðlaðandi. Og reyndi að setja aldursmuninn ekki fyrir mig. Lokaði eyrunum þegar maðurinn las upp kennitöluna og brosti annars hugar þegar afmælisdaga bar á góma.
Bað til guðs að foreldrar hans kæmust aldrei að sannleikanum og velti því vandlega fyrir mér af hverju ólíkir einstaklingar leita eftir samneyti hver við annan. Það veit sá sem allt veit, að ég tæki ekki létt á eldri ástkonu, ætti átján ára gamall sonur minn í hlut.
Þetta var lifandis löngu áður en nokkur útskýrði einkennilegt aðdráttarafl Mrs. Robinson fyrir mér; ófáum kaffibollum áður en ég gerði mér grein fyrir því að eldri konur búa yfir óræðum þokka sem oftlega hrífur yngri menn, einhverjum sálfræðitímum áður en mér tókst að stynja upp spurningunni „af hverju“ og einhverjum árum áður en ég áttaði mig á því, að aldur felur í sér ákveðna reisn sem ber að meðhöndla af virðingu og þokka.
Fram að tímabili sænska elskhugans, hafði ég lifað í þeirri villutrú að karlmenn tækju sér einungis yngri ástkonur, að eldri konum bæri skylda til að ganga um í litlausum rykfrökkum og trúði því í einlægni að kynþokkinn dalaði um fertugt. Að máltækið „allt er fertugum fært“ væri sorgaryrði – að hugtakið hefði verið fundið upp af miðaldra manneskju í hreinni afneitun á að æskublóminn væri eina aldursskeiðið sem vert væri að upplifa.
Sálfræðingurinn sem svaraði þeirri spurningu minni; hvers vegna yngri karlmenn tækju sér eldri konur – meðan ég hlustaði forviða og opinmynnt á þolinmóðar útskýringar hans – sagði mér af föðurlegum myndugleik að til væru þeir karlmenn sem nytu þess að skríða undir pilsfald sér eldri og valdameiri kvenna; að slík ævintýri gerðu þeim oftar en ekki kleift að styrkja stöðu sína og hæfni sem elskhugar.
Þetta var lifandis löngu áður en ég gerði mér grein fyrir því að á stundum, er kynferðislegt og fjárhagslegt sjálfstæði hrífandi kostur í augum karlmanna og að til eru þeir karlmenn sem vilja ólmir deila rúmi með konu, sem býr yfir kynferðislegri þekkingu, er meðvituð um eigin langanir og er ófeimin við að fullnægja fjölbreytilegum þörfum beggja.
Sorglegt sem það er, varð ég svo undrandi þegar ég komst að fyrrgreindu, að ég gleymdi með öllu að breiða út skrautfjaðrirnar og krækja í sem flesta menn af yngri kynslóðum. Ég varð svo undrandi þegar ég komst að því að sjálf bjó ég yfir sjarma fyrrgreindrar frú Robinson að ég glopraði sænska elskhuganum út úr höndunum á mér, krosslagði fæturnar í snatri og bað þess heitt og innilega að ég yrði ekki handtekin á skemmtistað fyrir það eitt að vera komin á fertugsaldur og þar af leiðandi – verandi fær í flestan sjó.
Frá árdögum yngri manna hef ég þó marga fjöruna sopið og áttu amerískar metsölumyndir stóran þátt í andlegri endurfæðingu minni hér fyrir nokkrum árum. Að endingu óska því ég elskendum til innilegrar hamingju með Valentínusardaginn og leyfi mér að að kveðja með einu fegursta atriði kvikmyndasögunnar. Þó gæðin séu slök, kemst innihaldið sannarlega til skila:
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment