Að alhæfa um þarfir karla, þætti mér álíka gáfulegt og að hafa yfir þá staðreynd að „millistéttin elski banana.“ Að staðhæfa um eðli karla, ráðleggja konum heilt og að setja saman eins konar heildrænar leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að í samskiptum við hitt kynið er einfaldlega ekki minn tebolli.
En ég get sannarlega spegúlerað.
Faðir minn sagði mér þó einhverju sinni að karlmenn væru afskaplega lítið rannsakað fyrirbæri samanborið við konur. Benti mér á öll þau rit sem hafa verið skrifuð um þarfir kvenna, þær háskólarannsóknir sem fram hafa farið á eðli þeirra og stöðu innan samfélagsins. „Væru karlmenn teknir til gagngerrar rannsóknar og bornir saman við konur“ sagði hann „er ég ekki í nokkrum vafa að fram kæmi að þeir búa yfir mun sterkari öryggisþörf. Þeim er í blóð borið að leita festu.“
Ég spurði hann ekki nánar út í merkingu orðanna.
Kannski vísaði faðir minn þó til þeirrar tilhneigingar karla að vernda umhverfi sitt. Ég hef oft spegúlerað í þeirri tilhneigingu karla að vernda umhverfi sitt, eigna sér yfirráðasvæði og gæta þess með „lífi“ sínu. Kannski er fyrrgreint fólgið í orðum föður míns; þörf karlmannsins fyrir öryggi og festu knýr þá til að vernda umhverfi sitt; að gæta þess að allt sé með kyrrum kjörum.
Kannski vernda karlmenn af þeirri einföldu staðreynd að þeir vilja njóta verndar.
Á tímum jafnréttis virðist þessi einlæga tilhneiging karlmannsins til að leggja fram aðstoð sína þegar í harðbakka slær, einfaldlega hlægileg. Konur eru ekki einungis komnar út á vinnumarkaðinn, heldur kunna flestar þeirra að skipta um dekk og einhverjar verða óþolinmóðar þegar þær fá ekki að opna hurðir sjálfar.
Mér er minnisstætt samtal sem ég átti við samkynhneigðan vin minn fyrir nokkrum árum síðan, en oftar sem ekki var „hitt“ kynið og eiginleikar karlmanna umræðuefnið. Ég var kokhraust í samtalinu, sló óspart á lær mér, lýsti digurbarkalega yfir eigin sjálfstæði og klykkti út með þeim orðum að ég gæti bjargað mér sjálf.
„Klara, gleymdu þó ekki að karlmanninum er í blóð borið að vernda, elskan“ sagði hinn kvenlegi vinur minn og brosti lymskulega að yfirlýsingum mínum. „Auðvitað kanntu að bjarga þér, hon, en þú mátt aldrei vera sterkari en hann. Það gerir bara lítið úr manninum.“
Ég veit að karlmenn kunna stundum að meta blómvendi. Að falleg kona, sem kann að stíga í vænginn, getur verið mjög voguð og eftirsóknarverð. Ég er þess þó fullviss að stefnumótaleikurinn sé eins konar dans, sem bæði stíga og megi aldrei snúast upp í fíflalegan eltingarleik.
Kannski eru karlmenn veiðimenn, konur safnarar og ákveðin hlutverk okkur eðlislæg, sem ekki verða afmáð með tilkomu jafnréttis og launabaráttu. Kannski er konum í blóð borið að næra líf, en karlmönnum að standa vörð um öryggi ástvina sinna.
Kannski eru kynin tvö af ástæðu sem einungis Guð getur svarað. Eðlislægur og áskapaður munur á tilfinningalífi karla og kvenna er þá væntanlega af þeirri einföldu ástæðu, að saman er kynjunum tveimur ætlað að mynda ákveðna heild sem er í augum almættisins fullkomin.
Pistilinn má lesa í heild sinni á bleikt.is: Smellið HÉR
No comments:
Post a Comment