Sunday, February 20, 2011

Það sem þú vilt að aðrir gjöri þér ...

Ég á skemmtilegan vin, sem virðist vaða í konum. Maðurinn sá er einstaklega lipur í talanda og leikur sér að þeirri list að draga konur á tálar. Allar konur ættu að eiga einn svona vin. Þann sem hægt er að hringja í, þegar dregur til tíðinda í einkalífinu, mann sem virðist alltaf hafa svör á reiðum höndum; félaga sem býr yfir þeim sjaldgæfa eiginleika að geta lesið ókunna, einhvern sem veit hvað hitt kynið hugsar OG getur veitt ráð í einkalífinu.

Sunday, February 13, 2011

Stifflers mom

Stundum finnst mér eins og hvert einasta ár beri einkennisliti og hlæ með sjálfri mér þegar ég lít til baka og skoða ólík viðhorf mín til aldurs á hinum ýmsu æviskeiðum. Ég minnist þess með angurværð að hafa ákveðið að verða pæja, sem lítið barn. Undrast þau viðhorf mín að hafa litið niður á fullorðið fólk sem unglingur.

Wednesday, February 9, 2011

Sannleikurinn gerir yður frjálsa

Ég hef reynt við karlmenn. Og borið ósigur úr býtum. Gert mig að fífli með rósavendi í höndunum, hringt inn í miðja ástarleiki með viðreynslu í huga, skilið eftir ástleitnar orðsendingar á hurðarhúnum sem grunlausar eiginkonur fundu og fleygt fram gersamlega misheppnuðum athugasemdum við þá sem ég ákvað að stíga í vænginn við.

Einu sinni gerðist ég meira að segja svo kræf að segja við karlmann að „sá karlmaður sem mig ekki vildi; væri annað hvort giftur, blindur eða hommi.“