Mannfólkið er misjafnt að gerð og langanir þess eru margslungnar. Línan sem skilur að erótík og klám er á tíðum óskýr og það sem er erótík fyrir einum er klám í huga annars. Erótíkin hefur oftlega verið nefnd „klám ríka mannsins“ af þeirri einföldu ástæðu að hvatir sem tengjast erótík eru taldar „göfugri og góðviljaðar“ í eðli sínu; þ.e: manneskjan nýtur þeirrar fegurðar sem nektin felur óneitanlega í sér án þess að einbeittur brotavilji til illra verka liggi að baki og erótíkin er oft nefnd eitt listforma náttúrunnar. Gyðja ástar og losta, sjálf Afródíta birtist iðulega nakin að hluta; orðið felur í sér vísun að lostafullri nekt sem á ekkert skylt við klámfengna afbökun á manns- og konulíkamanum, en erótík er dregið af gríska orðinu Eros og merkir: löngun, þrá, losti.
Af þessu má draga þá eðlilegu ályktun að erótík hljóti nær undantekningarlaust að fela í sér gagnkvæman unað, sem fólginn er í lostafullum atlotum og munúðarfullum gælum. Það er auðvelt að álykta að erótíkin sjálf sé nátengd tilfinningum sem eru góðviljaðar og uppbyggilegar, feli í sér þrá eftir heilbrigðri nánd og elsku á öllu sem fagurt er.
En sjálf erótíkin er fljótandi hugtak sem hefur enga fasta birtingarmynd. Sem hér sagði að ofan er mannfólkið misjafnt að gerð og langanir þess eru margslungnar. Það sem kann að birtast einum sem erótísk nálgun, getur þverbrotið á siðferði nágrannans, þó langanir hins fyrrnefnda hvíli vel innan velsæmismarka.
Ef klám fellur þó undir ofbeldi hlýtur erótíkin því að vera ein fjölbreytilegra birtingarmynda ástarinnar og fela í sér gagnkvæma velþóknun á atlotum, samkvæmt skilgreiningunni hlýtur klám því einnig að vera tengt hráu kynlífi sem á uppsprettu í einhliða líkamlegri nautn og eðlilegt að álykta í framhaldinu að erótíkin eigi rætur að rekja til endurgoldinnar ástar.
Þessar vangaveltur hafa ásótt mig undanfarnar vikur og öðru hverju kasta ég nýrri spurningu fram í rökkrið þar sem ég sit hljóðlát við eldhúsborðið þegar kvölda tekur, horfi út um gluggann og fer yfir opinber umfjöllunarefni dagsins.
Þær kvikna spurningarnar, sem ég sit og renni fingrunum yfir lyklaborðið annars hugar, leyfi augunum að dansa yfir línurnar á skjáborðinu og ferðast gegnum umræðuna sem hefur dunið á íslenskum fjölmiðlum undanfarnar vikur; vændi, mansal, mannréttindabrot og klámgervingu á kvenlíkamanum.
Þar sem nóttin grúfir yfir, er einnig dags að vænta. Þar sem afbakaðar hvatir ráða ferðinni, hlýtur þráin eftir lostafullri nánd sem er næsta náttúruleg og sjálfsögð í eðli sínu einnig að hvíla. Ekki að baki brotunum sjálfum, heldur í eðli mannskepnunnar sem tegundar. Því ef kynferðislegt ofbeldi er afbökun eðlilegra hvata, hvað má þá teljast eðlilegt?
Er rétt að áætla að konur geti verið siðsamar þegar raðfullnægingar ber á góma?

Þetta eru spurningarnar sem hafa dansað í höfðinu á mér undanfarna daga. Þó hef ég ekki látið mörg orðin falla, þvert á móti fremur sest út á svalir og þagað með sjálfri mér. Ég hef kosið að mestu að halda mér utan við stóru hitamálin á opinberum vettvangi að undanförnu. Í versta falli hef ég tuðað ofan í kaffibollann, reykt eina sígarettu í laumi og látið svo sem ekkert sé. Skoðanir mínar eru þó skýrar og alsendis ekkert launungamál, ég er hlynnt heilbrigðu samlífi elskenda og tel ekkert tiltökumál að ræða, jafnvel fræða, eðli, form og þær nautnir sem áskapaðar eru konum og aðferðafræðinni sem liggur að baki hámörkun þeirra sömu nautna.
Ég held mér til hlés þessa dagana af sömu ástæðu og Sölvi Tryggvason nefndi í nýútkomnum Pressupistli sínum:„Best að grjóthalda kjafti“, en þar vísar hann til þeirra einlægu tilhneiginga þjóðarinnar að draga einstaklinga miskunnarlaust í dálka, eftir því hvert umræðuefnið er að hverju sinni.
Þar sem ég hef að mestu haldið mér til hlés undanfarnar vikur og hef ekki enn varpað fram opinberri skoðun á þeirri gagnrýni sem snýr að klámvæðingu er ég sennilega, ef marka má orð Sölva, gengin til liðs við nýjan samfélagshóp: Hina huglausu, sem ekkert þora að segja af ótta við að stugga við böðlum almennings.
Titill greinarinnar sem Sölvi ritaði hitti í mark þegar ég las niður orðin og brosti að vangaveltum kollega míns, sem heimfærði umræðuna á almenn viðhorf eftir hrun. Þó orðum Sölva sé ætlað að gagnrýna þjóðfélagsgerð sem fjallar að mestu um stjórnskipan og ásættanleg kjör, er auðvelt að heimfæra umræðuna á femínísk átök og þá staðreynd að einstaklingar sem aðhyllast aukin réttindi kvenna, skipa sér í ólíka hópa og að átökin virðast harðna með hverri vikunni sem líður.
Ég brosti að orðum Sölva, því fyrir ekki alls löngu átti ég létt og notarlegt samtal við þrautreyndan fjölmiðlamann á þekktum miðli sem leit refslega á mig undan kaffibollanum, brosti laumulega í áttina að mér og lét svo orðin þessi falla: „Þú ert náttúrulega annálaður anti-femínisti, Klara mín,“ en bjargaði sér naumlega fyrir horn í næstu andrá þegar hann bætti því við að: „... sjálfur vissi hann þó afskaplega lítið um femínisma ef út í það væri farið.“
Forviða hváði ég yfir skrifborðið og svaraði um hæl með þeim orðum að innan femínisma sem aðferðafræði í heild væri að finna ólíkar stefnur og að á tíðum mætti líkja þeim átökum við deilur frjálshyggjumanna og íhaldsins, að réttindum kvenna og þrám væri ekki hægt að ætla svo þrönga skilgreiningu. Að mörk allra einstaklinga bæri að virða, því langanir mannfólksins væru margslungnar. Ég reyndi að útskýra fyrir manninum að þó ákveðin grundvallarréttindi hlytu að vera baráttumál allra kvenna sem tryðu á jöfn réttindi, væri ekki þar með sagt að allar konur kysu sambærilegan lífsstíl.
Að femínismi fjallaði um einmitt það; sjálfsagðan rétt kvenna til þess að velja.
Ég reyndi að útskýra fyrir manninum að þó ég væri hlynnt jöfnum rétti beggja kynja til að upplifa og túlka fjölbreytileika tilfinningarófsins, væri ekki þar með sagt að ég væri mótfallin réttindum kvenna.
Mig langaði að útskýra fyrir honum að þá tilhneigingu mína að upphefja og gera erótík að umfjöllunarefni í pistlum mínum, mætti aldrei túlka orðin sem vísbendingu um að ég væri hlynnt klámi. Mig langaði einnig að segja manninum, sem hló í laumi að viðbrögðum mínum, að þó kona hefði hugrekki til að gangast við eigin þrám, byggi yfir löngun til að gera unaðinn sem fólginn er í kynlífi að umræðuefni sínu á opinberum vettvangi og kysi að halda sér að mestu utan við gagnrýni sem snýr að grimmilegri klámvæðingu, væri ekkert samasemmerki að finna með þeim sjálfsögðu réttindum að ræða nautnir kvenna, eðlileg réttindi þeirra til að njóta nándar og þess að hlutgera konur sem klámfengin verkfæri karla, sem hlytu þá að sama skapi að svala grimmilegum hvötum sínum á fórnarlömbum kynferðisofbeldis.
Mér var orðið nokkuð heitt í hamsi þegar ég áttaði mig á því að erótískar rökræður eiga sjaldnast við á miðjum vinnudegi, þegar kærulausan kaffibolla með gömlum vinnufélaga ber upp fyrir tilviljun og ég ákvað að klára úr krúsinni áður en ég kom því frá mér að einföld viðurkenning á þeirri staðreynd að konur búa yfir kynhvöt rétt eins og karlar, er og hefur lengi verið órjúfanlegur hluti af almennri réttindabaráttu kvenna.
Að mínu mati hlýtur baráttan gegn klámvæðingunni sjálfri því að bera sterkan keim af samstöðu kvenna gegn afbökun heilbrigðra hvata, andúð á misnotkun heilbrigðrar löngunar eftir nánd og fordæmingu á skefjalausu ofbeldi sem miðar að því einu að afmá þau sjálfsögðu réttindi kvenna að mega lifa, njóta og þrá.
Mig rak í rogastans nokkrum náttum seinna, þegar ég læddist út á lífið og heilsaði gömlum vinnufélaga af löngu látinni ritstjórn. Sá hinn sami hváði, sagðist eitthvað lesið hafa eftir mig og fylgst með umræðunni sem hefur á stundum farið hátt. „Gaman að fylgjast með átökunum í kringum þig, Klara mín,“ sagði sá hinn sami. „... en vissulega hefur þú hikstalaust dregið taum karlaveldisins, svo ...“
Í fyrstu hló ég og samsinnti manninum þar sem við stóðum við barinn mitt í skemmtistaðaskvaldri laugardagsnóttu, þar sem ég taldi næsta víst að hann væri að vísa í þá tilhneigingu mína að telja kynin jöfn að öllu leyti og að draga hvorki taum kvenna né karla þegar ég reyni að koma orðum á blað.
Það var ekki fyrr en maðurinn hafði kvatt, að ég áttaði mig og sá nú að hinn sami hafði í raun ekki gert annað en að endurtaka orðin þau sem látin voru falla yfir kaffibollanum hér um daginn; anti – femínistinn, það munt vera þú, mín kæra.
Undrandi og einlæglega slegin sneri ég heim til mín og velti orðunum, hugtökunum sjálfum milli fingra mér þar til ég rak augun í pistil Sölva og heimfærði orðin, samtöl undanfarinna daga upp á staðhæfingar mannsins sem sagði að best væri að grjóthalda kjafti.
Velti því fyrir mér hvort enn þætti tiltökumál í samfélagi okkar og vogað svo um munar að ræða opinskátt um kynheilbrigði, ást og nautnir og hvort verið gæti að orðin hafi slíkt vald, að sú sem ritar pistilinn nú geti orðið fórnarlamb hlutgervingar ef umræðan stendur einungis nægilega lengi yfir.
Ég varpaði fram þeirri spurningu í rökkrið í gærkvöldi hvort vart þætti viðeigandi að fullorðin kona sem státar ekki af heilbrigðismenntun mætti gera erótík að umfjöllunarnefni í pistlum sínum, án þess að nefna ofbeldi á nafn um leið til að taka af allan vafa um að engar niðurlægjandi vísanir í klám væri að ræða og hvernig í ósköpunum gæti staðið á því að einu opinberu athugasemdirnar, sem snúa að meintri andúð minni á réttindum kvenna, skuli vera einmitt það; komnar frá körlum.
Spekúlasjónirnar þær leiddu að þeirri niðurstöðu að enn hallar verulega á konur þegar að frjálsri og fagurri túlkun á eigin þrám og þörfum snýr; að enn er langt í land þar til fullorðnar konur mega tæpitungulaust tala um kynlíf án þess að vera ýmist stimplaðar grófar eða jafnvel and-femínískar vegna þess eins að þær hvetja til og ræða um tæknina sem liggur að baki örvunar unaðssvæða kvenna.
Að lokum kom ég niður á þá niðurstöðu að mikilvægast af öllu sé að systur mínar úr öllum stéttum standi vörð um þau sjálfsögðu réttindi að mega brosa feimnislaust í svefnherberginu, án þess að eiga á hættu að vera brigslaðar um andfemínísk viðhorf til kvenna og niðurlægjandi viðhorf til þeirrar aðdáunarverðu réttindabaráttu sem hefur tekið mið af því að brjóta klámvæðingu á bak aftur; athafnir sem fela einhliða ánægju karla í sér sem óttast það eitt að njóti konan um of erótískra blæbrigða kynlífs, verði fjandinn laus.
Síðast þegar ég naut ásta gaf ég kvenlegum löngunum mínum lausan tauminn í nafni femínisma ...
... hvað með þig?
No comments:
Post a Comment