Hún hefur óteljandi andlit, útlitsþráhyggjan. Vangaveltur um ákjósanlegan þyngdarstuðul, vænlegar línur og í raun hugmyndin um hvernig konur eiga að líta út, tekur sífelldum breytingum í takt við almenna umræðu.
Stundum tekur umræðan mið af hugleiðingum um einelti og sér í lagi hafa vangaveltur um þyngd verið ofarlega á baugi að undanförnu. Engum blöðum þarf um það að fletta að það er ljótt að gera grín að holdarfari fólks. Það er ljótt að gera grín að lengd lærleggja, breidd kálfa og svo mætti lengi áfram telja. Það er viðurstyggilegt að uppnefna konur og ætla þeim eiginleika dýra:. „beljan þín“ og „bölvuð tík“ og það er hræðilegt að heyra hugtök á borð við „þvílík hlussa“, „hlunkur er þetta“ og „jiminn góði, hvað konan er feit“.
Hvert sem ég lít verða auglýsingar og umfjallanir um holdafar á vegi mínum. Fyrirsagnir á borð við: „Viltu grennast?“ og athugasemdir á Facebook sem tengjast „útlitsdýrkun og Hollywoodkröfum“ flögra fyrir augunum á mér á víxl. Heiftarleg átök um ákjósanlegt holdafar, fyrirlitlegt orðaskak um varalit og jafnvel óvægin gagnrýni á grönnu konurnar, sem virðast ábyrgar fyrir öllu fjaðrafokinu, verður sífellt sýnilegri með degi hverjum.
„Horrengla,“ – „beinahrúga“ og „skinnpoki“ eru m.a. þau hugtök sem notuð eru um grönnu konurnar. Þær sem eru með smávaxin brjóst, útstæð mjaðmabein og jafnvel langa, granna leggi. Flatur magi virðist vera orðinn merki um syndsamlegt líferni og í lagi er að eigna stúlkum með „spóaleggi“ neikvæða líkamlega eiginleika, en spóaleggir eru grannir, langir fótleggir stundum kallaðir án nokkurra blygðunar.
„Hún er svo mjó að ég má þetta. Ég þoli ekki konur sem eru svona grannar.“
Grönnum konum er án nokkurrar miskunnar ætlað að vera með átraskanir af ýmsum toga og jafnvel örlar stundum á illgirni af hálfu þeirra kvenna, sem eiga erfitt með að halda þyngdinni í skefjum og líta hornauga á kynsystur sínar, sem eru ekki með breiðar mjaðmir og þrýstinn rass.
Ekki er alltaf talið ákjósanlegt að ungar stúlkur í eða rétt undir kjörþyngd gangi í aðsniðnum fatnaði, einhverjum þykir illa séð að hinar sömu flatmagi í heitu pottunum og örfáir segja að stúlkur sem eru í grönnum holdum séu jafnvel boðberar saurlifnaðar og yfirvofandi spítalainnlagna sökum sveltis.
Þá er vissulega erfitt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að í lagi er að gera grín að grönnum konum, því fæstir áætla að grannvaxnar konur hafi sambærilegar tilfinningar og þær sem þyngri eru. Konur sem ná vart kjörþyngd eru sennilega, að mati margra, svo óþægilega meðvitaðar um eigin fegurð, að engu skiptir þó birtar séu myndir af þeim sömu íklæddum baðfatnaði einum fata undir yfirskriftinni:
„Fari samfélagslegar kröfur fjandans til; hvort finnst þér fallegra?“

Hvernig liti þó málið út, ef þú værir konan til hægri á myndinni?
Með fullri virðingu fyrir sálarheill kvenna í þéttum holdum, þeirri sorglegu staðreynd að átraskanir eru banvænar í eðli sínu og að stúlkur geta hæglega orðið fórnarlömb útlitsdýrkunar, grípi enginn í taumana og undirstriki mikilvægi heilbrigðrar sjálfsmyndar áður en í illt er komið, langar mig þó að benda á að einelti á sér margar hliðar og að einkennilegt er að ætla að undirstrika heilbrigði og réttindi þeirra einstaklinga sem eru í þéttum holdum, með því að hæðast að og spotta stúlkur sem eru grannvaxnar og komu smágerðar í heiminn, þurfa ekki á megrun að halda og eiga sér þá ósk, rétt eins og kynsystur þeirra, að vera álitnar eðlilegar.
Hversu langt sem við teljum okkur unnt að ganga í þeirri viðleitni okkar að vinna mót útlitsdýrkun og skaðlegum staðalmyndum, má umræðan aldrei taka mið af því að gera lítið úr þeim sem ekki eiga við tiltekinn vanda að stríða.
Til eru einstaklingar sem líða fyrir árásir og athugasemdir fyrir það eitt að falla ekki undir ákveðna minnihlutahópa. Grönnum stúlkum þykir oft á tíðum erfitt að lesa opinberar umfjallanir um aðrar konur með sambærilegt vaxtarlag, sem geta skammlaust klæðst sundfatnaði og enginn virðist þola fyrir vikið. Fólk sem ekki á sök á því hvernig komið er fyrir konum sem líða fyrir stöðugar árásir vegna útlits og holdafars, líður oftar en ekki vítiskvalir vegna þess að útlit þeirra sömu virðist vera rót vandans.
Ef ekki verður gripið í taumana bráðlega, fer vandamálið á þann veg að ungar stúlkur sem geta illa bætt á sig þyngd, bregðast örvæntingarfullt við ákalli samfélagsins og leggja sig fram við að þyngjast, svo samfélagið taki þeim loks opnum örmum og augngotunum, hvíslinu og laumulegum bendingunum linni.
Þó ég hafi aldrei þurft á megrun að halda, máttu ekki tala illa um líkama minn.
Mér finnst einkennilegt að umræðan um líðan þeirra kvenna sem ekki eiga við þyngdarvandamál að stríða, skuli vera jafn lokuð og raun ber vitni. Að svo fáar konur skuli stíga fram og gera grein fyrir því að niðrandi athugasemdir um þær konur sem hafa aldrei farið í megrun og miskunnarlausar myndbirtingar af grannvöxnum konum með niðurlægjandi tilvísunum, séu jafn særandi og þau níðyrði sem urðu sprettan að baráttu kvenna gegn útlitsdýrkun.
Samfélagsleg viðurkenning þeirra sem knúnir áfram af ljótum hvötum, hólfa konur miskunnarlaust niður eftir holdarfari hefur farið vaxandi undanfarin misseri að mínu mati. Hvatirnar virðast við fyrstu sýn göfugar, því verið er að hampa þeim minnihlutahópum sem hafa átt undir högg að sækja; þeim konum sem eru í þéttum holdum og hafa orðið fyrir ljótu aðkasti fyrir það eitt að vera yfir kjörþyngd.
En þegar betur er að gáð, miðar sá stuðningur sem við fyrstu sýn lítur fallega út í augum almennings, einungis að því að draga aðra minnihlutahópa fram í dagsljósið og gera úr þeim sökudólga á grundvelli þess að geta ekki fitnað; þeim konum sem þurfa ekki á megrun að halda.
Þetta, að mínu mati, virðist vera óvægin uppreisn af hálfu ljóta fólksins, þeim sem knúnir eru áfram af einkennilegum hvötum sem miða að því að hólfa konur niður eftir holdafari og gera lítið úr þeim sem ekki ollu vandanum í upphafi.
Þetta er sú uppreisn ljóta fólksins sem ég vísa til í titlinum og miðar að því einu að gera konum enn erfiðara um vik með að líða vel í eigin skinni. Sú tilhneiging almennings að gera lítið úr einhverjum svo öðrum líði betur, er ekkert annað en ljótt og þegar áreitið er orðið svo stöðugt og viðvarandi, verð ég að tala um uppreisn, sem miðar að því að sprengja upp ákveðna samfélagsgerð.
Fari þessar mjóu gellur til fjandans ...
Engu skiptir hvernig Guð skapaði konuna, staðreyndin er þvert á móti sú að engin kona á nokkru sinni að þurfa að líða fyrir þær gjafir sem náttúran lét af hendi rakna við fæðingu. Ljótleikinn, kæra fólk, á uppruna sinn að rekja til lágra hvata sem miða að því einu að gera grín að þeim sem eru öðruvísi úr garði gerðir, allt í þeim tilgangi að hampa öðrum formgerðum og skerpa á mismunun.
Það er engri konu greiði gerður með því að gera grín að þeim sem öðruvísi komu skapaðir í heiminn.
Ég hef fengið mig fullsadda af orðaskaki ljóta fólksins, þeirra sem illa innrættir eru og höfða til innstu hvata kvenna sem eiga í vanda með vigtina og kenna þeim stúlkum um, sem eru grannar frá náttúrunnar hendi og geta ekki fremur en aðrir, gert að því hvernig Guð skapaði þær hinar sömu.
Fyrst fegurðin kemur að innan ... hvaðan er ljótleikinn þá runninn í raun?
No comments:
Post a Comment