Ég hafði ekki stigið fæti inn í gamla leikhúsið á Hverfisgötunni síðan ég var barn að aldri, þegar ég gekk upp virðulegar tröppurnar sem liggja að Þjóðleikhúsinu nú um helgina, heyrði eitt andartak bergmál Lilla Klifurmúsar gegnum fjarlægar minningar og settist hátíðleg á svip niður á fimmta bekk.
Dró andann djúpt og virti vandlega fyrir mér einfalda leikmyndina, sem samanstendur af skemmtilega hráum pappakössum, tötralegum stiga og feluherbergi sem verður áhorfendum ekki ljóst fyrr en útséð er um fleiri afhjúpanir, renndi augunum yfir einfalda og skýra lýsinguna í salnum og velti því fyrir mér hvernig svo stórbrotið verk á að komast til skila í svo einfaldri og hrárri leikmynd.
Faðir minn lærði leiklistarfræði þegar ég var barn og hafði gagnrýni að atvinnu á mínum yngri árum. Ég sagði honum frá áætlunum mínum fyrr í vikunni og einnig að mér væri með öllu ógerlegt að setja saman gagnrýni á blað sem mark væri takandi á. Ég sagði honum að ég ætlaði í leikhús.
„En þú getur vissulega sagt frá upplifun þinni á verkinu,“ svaraði hann að bragði og leit á mig sposkur á svip. „Það er hægur vandi að fjalla um verk á sviði sem áhorfandi og lýsa þinni eigin tilfinningu. En Klara mín, það að ætla að fjalla um leikstjórnarstíl og túlkun einstakra leikara getur jafnvel verið púsluspil í augum þeirra sem hafa hlotið viðeigandi menntun, því brögðum leikhússins eru engin takmörk sett.“
Og það eru orð að sönnu, því leikhúsið er heimur töfra og sjónhverfinga. Meðan ég hlustaði á föður minn ræða eðli leiklistargagnrýni og ólík blæbrigði túlkunar rann upp fyrir mér um leið að öll list er afstæð. Verkin í leikhúsinu kunna að hafa á sér ákveðin form en upplifun er bundin einstaklingnum. Ég velti upp þeirri spurningu hvað fegurðin er í raun þegar ég gekk inn í hátíðarsal gamla Þjóðleikhússins nú um helgina og virti fyrir mér hráa kassana á sviði; velti upp hugmyndinni að baki forminu og í raun hvaða eiginleikum formið þarf að vera gætt til þess að geta talist fagurt.
Baltasar veltir þessari spurningu upp sjálfur, þar sem hann stendur hokinn og niðurlútur í hlutverki og hagræðir gleraugunum geðvonskulega á nefbroddinum, stuttu eftir að ljósin myrkvast og leikarinn stígur á svið. Baltasar er þungur í upphafi, eilítið upprifinn en stirðbusalegur þegar hann fer með fyrstu línurnar. Leikarinn hefur sig þó á flug fljótlega, hann nær sterku tempói sem hefur á sér farsakenndan blæ á tíðum þegar líða tekur á sýninguna og fangar listilega leynda afkima tilfinningalífs karla; rétt eins og hann vilji með leik sínum varpa þeirri spurningu út í salinn hvort karlar geti elskað kynbræður sína og með hvaða hætti þeir mynda tilfinningatengsl án þess að lostinn komi við sögu.
Þungur af stirðbusalegum áhyggjum og knúinn áfram af tilgerðarlegri umhyggju, þvingar Baltasar í hlutverki íhaldssama flugvélaverkfræðingsins, umburðalynda verslunarmanninn sem leikinn er af Hilmi Snæ til samþykktar á hugmyndum sem falla hinum síðarnefnda ekki í geð; upploginni vanþóknun á fokdýru málverki sem er hvítt að lit og þriðji vinurinn, móderníski húðsjúkdómalæknirinn sem Ingvar E. Sigurðsson túlkar listavel, hefur fest kaup á og olli gjaldþroti hjá hinum síðastnefnda.
Söguþráðurinn er þungur og verkið er stórt í sniðum þó leikmynd og staða leikara sé með einfaldara móti, en þrátt fyrir að verkið snúist um ólík viðhorf og innri átök vinanna þriggja um kaupin á listaverkinu, fjallar verkið að mínu mati um vináttuna og þá list sem er fólgin í því að lifa lífinu til fullnustu. Verkið varpar þeirri áleitnu spurningu fram hvaða áhrif ólík valdahlutföll milli vina hafa á túlkun þeirra sömu, viðhorf og í raun; í hverju hamingjan er fólgin.
Hilmir Snær er þróttmikill og um leið sposkur, klífur tilfinningaskalann af kæruleysislegri lipurð meðan á tveggja tíma ferðalaginu gegnum öldurót hugarheims miðaldra vina stendur og slær að lokum vopnin úr höndum áhorfenda með einum magnaðasta einleik sem ég hef séð um langa hríð og olli einlægu lófataki áhorfenda meðan á miðri sýningu stóð, fagnaðarlátum sem ætlaði seint að linna.
Í raun fannst mér leikuppsetningin einföld en þung í vöfum, skemmtilega áleitin og táknræn fyrir það eitt að verkið fjallar um eðli og túlkun lista, sem um leið er viðfangsefni leikhússins. Útfærsla er í höndum þriggja stórleikara sem allir hafa listir að atvinnu og fyrir það eitt þótti mér verkið öðlast meiri dýpt, því stærsta spurningin sem Listaverkið varpar fram á fjölum Þjóðleikhússins eru hárbeittar vangaveltur um hið sanna eðli listarinnar og hlutföll raunverulegrar vináttu. Sjálf fílósófían nær hámarki á lokasprettinum, þegar geðstirður flugvélaverkfræðingurinn veldur skemmdum á verkinu í hugaræsingi og afhelgar hvíta litinn með bláum tússpenna. Með verknaðinum sjálfum lýsir hann yfir algerri andúð á þeirri tilgerð sem ríkir á tíðum í túlkun lista og kveikti á þeim vangaveltum í mínum huga, hvað list í raun er, hvernig gagnrýni skal best háttað og með hvaða hætti við getum komið upplifunum okkar til skila. Baltasar semur symbólskan frið við listagyðjuna í lokin og skilur áhorfendann eftir með þá hugmynd í höndum hvort lífið sjálft sé í raun stærsta listaverkið.
Þótti mér samleikur þeirra Baltasars, Ingvars og Hilmis áreynslulaus, flæðandi og nam ég traust á sviðinu, en þetta er í annað sinn sem Listaverkið er sett á fjalirnar í íslensku leikhúsi og voru hlutverk einnig í höndum sömu leikara þegar verkið var fyrst frumsýnt á vormánuðum árið 1997. Þessari staðreynd hafði ég gaman að meðan á sýningu stóð og flögraði milli þríeykisins, sem þrautþekkja viðbrögð hvers annars og sýna liprari viðbrögð fyrir vikið.
Hafi ég gert mér einhverjar vonir um óhaminn kynþokka, hlaut sú hugdetta hægt andlát um leið og tríóið steig á svið, því allir fanga þeir hlutverk og ásjónu miðaldra manna sem lífið hefur markað og viðhalda þeim innri átökum allt verkið á enda. Baltasar er hokinn í herðum með vatnsgreitt hár, Hilmir orkar lítill og uppgefinn á sviði og Ingvar slær botninn úr þegar hann stormar berfættur á svið, íklæddur skelfilegum karlmannsnærbuxum og treður sér í svarta táfýlusokka í viðurvist áhorfenda.
Í raun var hinn óumdeildi þokki vinanna þriggja fólginn í valdi leikarana á eigin hlutverkum, hæfni þeirra til að stíga út fyrir þægindarammann og svo einnig þeirri skemmtilegu spurningu sem þeir allir á sinn hátt varpa fram í verkinu, hvað lífið í raun er. Leiksýningin Listaverkið er ástarsaga fyrir fullorðið fólk, samofin frásögn af lífinu sjálfu. Ég gekk út með þá vissu að birtingarmyndir vináttu eru fjölmargar og svo sannarlega geta karlmenn grátið.
Um leið og lokaorðin höfðu verið látin falla stigu þeir félagar fram á svið og réttu úr signum öxlum, brostu gegnum þykkbotna gleraugun og köstuðu léttilega af sér oki vinanna þriggja, sem forljótir í einmanaleik sínum og innri átökum, höfðu sett þunglyndislegt mark sitt á vinina þrjá, sem í daglegu lífi hafa allir hlotið nafngiftina kynþokkafyllstu leikarar sinnar kynslóðar.
No comments:
Post a Comment