Ég tók einhverju sinni viðtal við
ágæta konu. Sem ekki er í frásögur færandi; ég hef tekið óteljandi viðtöl við
ágætar konur og allar hafa þær haft eitthvað til málana að leggja. Allar hafa
þær skilið eftir örsmá fótspor í hjarta mínu, eins og þær hafi staldrað rétt
nægilega lengi við til að sáldra viskukornum í sálina.
Mér varð hugsað til þessa ágætu
konu í kvöld sem leið, þar sem ég sat og velti vöngum yfir því hvort ég ætti að
taka þá móðurlegu áhættu að skrá mig í íþróttaiðkun þegar vinnudegi lýkur. Ég á
fjögurra ára gamalt barn sem bíður mín með ofvæni þegar leikskóla lýkur og
treystir í blindni á að ég svipti upp hliðinu á leikskólanum. Gangi röskum
skrefum að drengnum, sem iðulega útataður í sandi og ókennilegri mold eftir
átök og fjörugar ryskingar á degi hverjum, hleypur í fangið á mér og hrópar
orðin sem ég er svo lánsöm að heyra á hverjum degi ... „Förum heim!“
Mér verður stundum hugsað til
orða konunnar sem ég tók einhverju sinni viðtal við, þegar spursmál á borð við
þessi rísa í daglegu lífi mínu. Þegar ég varpa þeirri spurningu fram hvort
drengurinn geti borið skaða af, ef móðir hans treður íþróttafötum í tösku tvo
daga í viku og greiðir annarri manneskju fyrir að sækja hann á leikskólann bæði
þriðjudaga og fimmtudaga.
Ég man að þessi ágæta kona ræddi
um fordæmisgildið sem við setjum eigin börnum með markmiðum okkar sjálfra. Hún
sagði mér að það eitt að hafna tækifærum í lífinu setji börnum ákveðið fordæmi
um leið. Ég rifjaði þessi orð upp meðan ég renndi augunum yfir stundaskrá
æfinganna og velti því fyrir mér hvernig færi fyrir fjölskyldu minni ef ég kenni
syni mínum ekki ákveðni og úthald með því að fylgja eigin draumum í stað þess
að sitja í stað og fordæma hið óþekkta.
Konan sem ég ræddi við forðum
daga hafði engan bakgrunn sem slík þegar hún lagði af stað út í eigin rekstur
og sagði mér að „hún væri upprunnin úr gettóinu.“ Ég brosti með sjálfri mér
þegar við ræddum saman, því sjálf lagði ég upp í mitt fyrsta ferðalag sem
blaðamaður 23 ára að aldri, með diktafón, litla vasamyndavél að vopni og ekkert
nema vonir í vasanum. Ég skildi mætavel hvað hún átti við þegar hún sagðist
hafa, rekin áfram af metnaði, hafa nýtt hugrekkið til að taka áhættu sem átti
eftir að margborga sig.
Ég hef aldrei hitt konuna sem ég
ræddi við gegnum síma og sagði mér að besta fordæmið væri fólgið í að fylgja
eigin draumum. Veit ekki hvernig henni hefur vegnað og hef lauslega
fylgt henni eftir gegnum samskiptamiðla með öðru auganu síðan ég birti viðtalið
sem gladdi okkur báðar og veitti mér innblástur sem ég enn gríp til þegar ég
velti því fyrir mér hvort ég eigi að þora að ráða barnapíu og kasta tíma í
íþróttaæfingar tvo virka daga í viku.
Minnist í framhaldinu orða kærrar
vinkonu minnar sem er læknir að mennt og sagði mér yfir kaffibolla eitthvað
kvöldið að til undantekninga heyrði að sjá sextugar konur á bráðamóttökunni
vegna hjartavandamála, hefðu þær hinar sömu æft reglulega frá fertugu. „Þess vegna“ sagði læknirinn,
vinkona mín, „er ég farin að skokka um nágrenni mitt á kvöldin. Til að styrkja
hjartað en alls ekki í þeim tilgangi að vera töff.“
Hugsa um rithöfundinn sem ræddi
við mig í tengslum við útgáfu sinnar fyrstu skáldsögu og sagði mér að „fyrirgefningin væri öflugasta verkfæri
fórnarlamba“ og kenndi mér þannig að skemmtilegasta hefndin væri ekki
fólgin í eyðileggjandi heift heldur uppbyggilegum árangri.
Stundum velti ég orðum allra
þessa kvenna upp og fleiri til, þegar ég velti vöngum yfir því hvort ég eigi að
leggja upp í það mikla ferðalag að ráða barnagæslu tvo virka daga í viku að
leikskóla loknum og láta það eftir mér að fara á íþróttaæfingar í stað þess að
sækja drenginn og fara rakleiðis heim.
Orðin sem konurnar í lífi mínu
hafa ein af fætur annarri látið falla í viðtölum sem farið hafa fram undir
fjögur augu, flest yfir húsþökin og gegnum símalínur, hvísla til mín þegar ég
velti hugmyndinni milli handa mér. Þegar ég velti því fyrir mér hvort ég eigi
að taka þá áhættu að stunda iþróttaiðkun tvo virka daga í viku þegar leikskóla
lýkur, sæki ég styrk í hugmyndafræði þeirra og kraft, þakklát fyrir einlægni
þeirra allra og fádæma hugrekki.
Þegar ég stend frammi fyrir
erfiðum verkefnum í daglegu lífi mínu, sæki ég dulinn styrk í þessa sömu
samvitund og ég vitna til; þéttofið tenglsanet kvenna sem teygir sig þvert yfir
hnöttinn og er gullið í eðli sínu – þróttmikið og ofið úr vonum, ástríðu og
lífsþrótti.
Fallega skemmtilegt sem það nú
er, hafa þær allar með tölu kennt mér dýrmæta lexíu:
Að halda áfram.
No comments:
Post a Comment