Monday, September 17, 2012

Af eineygða blúsaranum, forboðnum tóbakslaufum og freistandi kaffibollum






Svo ég er skotin í eineygðum tónlistarmanni sem spilar blússlagara á útlenskum bar á sunnudagskvöldum. Sagði ykkur allt frá ókunna hæfileikamanninum í síðasta pistli og gerði gott betur en það, ég sýndi ykkur manninn fletta sig klæðum   á sviði.

Hann er kallaður Sid og syngur með stærsta kvartett í heimi; Frank Znort. Meðlimir hljómsveitarinnar eru 21 talsins og hafa spilað saman í ein 15 ár, en þau troða upp við ómældan fögnuð viðstaddra hvern einasta sunnudag og spila fyrir troðfullu húsi í hjarta listamannahverfisins Grünerløkka sem lúrir í hjarta Oslóar, á litlum bar sem ber einfaldlega heitið Bla.

Í raun er ég svo ekki skotin í stráknum sem slíkum, heldur líflegri heimspekinni sem þessir kæruleysislega glaðlyndu jazzgeggjarar boða hvert einasta sunnudagseftirmiðdegi við árbakka Akerselva árinnar sem rennur eftir hverfinu endilöngu og liggur alla leið til sjávar. 

Þar bar til dæmis fyrir augu mín einn stærsta reður sem ég hef séð um ævina, sem maraði á miðri ánni eins og tígurlegur svanur með frumlegan bát í eftirdragi meðan hæfileikafólkið sem stóð  rólyndislega fyrir aftan mig kynnti listmuni sína á litlum borðum og básum.

Stærsti reður sem ég hef séð um dagana, marandi letilega á miðri Akersalva ánni. 
Það var á Brenneriveien við fallega barinn sem ber heitið Bla sem ég gerði mér grein fyrir því að Osló hefur óteljandi ásjónur og að borgin sefur aldrei í raun, þó sunnudagarnir hafi vissulega yfir sér stillu og ró sem hverfur eins og dögg fyrir sólu þegar morgun rís að nýju hvern einasta mánudag.

Osló hefur óteljandi ásjónur og iðar af fjölbreytileika; verðlagið er jafn misjafnt og fólkið sem byggir borgina og það er ekki úr vegi að rata inn á ókeypis jazztónleika á sunnudagseftirmiðdegi, njóta kaffibolla á sambærilegu verðlagi og þekkist í henni gömlu Reykjavík, festa kaup á fallegri flík á kostakjörum og jafnvel njóta kvöldverðar á gullfallegum veitingastað ... panta brot af því besta af matseðlinum og það á eigin móðurmáli.

Freistingar leynast á hverju strái í fallegu Osló á letiblöndnum sunnudögum; myndskot af útimarkaðinum.

Og fallega Osló iðar af listsköpun. Á letiblöndnu sunnudagseftirmiðdegi í líflegu Grünerløkka ber allt aðra Osló fyrir augun en hinn almenni ferðamaður á að venjast. Eineygði tónlistarmaðurinn sem blúsar alla sunnudaga er örlítið symbólískur fyrir það eitt að hann virðist frjáls undan oki efnishyggjunnar þegar hann hefur upp raust sína á sviði, rétt eins og fámáli og örlítið feimni félagi hans sem hannar skartgripi sem myndu sóma sér vel í hverju einasta kaffiboði; hann selur listilega gerða kaffibolla í örstærð sem ætlaðir eru sem eyrnalokkar.

Osló kann að vera ein af dýrari borgum heims, en hún er sannarlega fjölbreytilegri en ætla mætti við fyrstu sýn. Fegurðina er ekki síður að finna í afviknum hliðargötum og litlum húsasundum, sem mörg hver búa yfir magnþrunginni fegurð og fela í raun í sér, raunverulega sál borgarinnar sem aldrei sefur.

Hér fara nokkrar skemmtilegar tillögur að frumlegri afþreyingu sem kostar bara fáeinar krónur í henni fallegu Grünerløkka og það á letiblöndnum sunnudegi:


Frappe á Waynes Coffee:

Greinarhöfundur felldi þögult tár af gleði (græðgi) við fyrstu kynni af Mocca Frappe á Waynes Coffee


Undursamlegasta freisting í formi kaffibolla sem ég hef bragðað um ævina er Frappe með Toasted Marshmallows sem fæst á Waynes Coffee. Kostar litlar 49 krónur (u.þ.b. 1.000 ísl kr) og smakkast eins og ævintýri. Freisting sem erfitt er að standast, himnaríki sykurunnenda og stranglega bannaður börnum innan átján ára, hvað þá þeim sem vilja halda í línurnar. Sunnudagar eru þó undanskildir. Láttu einn eftir þér; fyrir þá sem ekki vilja sykurpúðana er líka hægt að panta Creamy Caramel Frappe eða einfaldlega Mocca Frappe. Ég felldi þögult tár af unaði í fyrsta sinn sem ég smakkaði drauminn. Waynes Coffee er staðsett á Markveien 35 í Grünerløkka og er opið til kl. 21.00 alla daga vikunnar. Taktu bollann með á röltið og hafðu regnhlíf við höndina. Osló er rennblaut borg og regnhlífar eru einstaklega töff. Smelltu HÉR  til að skoða kaffiseðil Waynes Coffee.

Dularfyllsta tóbaksverslun í allri Osló:

Höfum við grafið upp eina dularfyllstu tóbaksbúð í allri Osló? 

Svartasta freisting allra þeirra sem enn dýrka tóbak. Þessi ofursmáa og sjarmerandi verslun selur ekki bara tóbak af öllum gerðum; hér er að finna fótboltaáhugamenn sem afgreiða af eldmóð og snilld, lífræn tóbaksblöð sem vandlega vafin inn í pappír mynda hágæða vindla og munntóbak í öllum regnbogans litum fyrir einmitt þá sem enn eru háðir nikótíni en þola illa reyk. HÉR  má sjá vegvísun að svörtustu freistingum allra sannra áhugamanna um tóbak.

Nighthawk Diner:

Þessi guðdómlegi hamborgari kostar litlar 3.800 íslenskar krónur og bragðast eins og hnoðri af himnum. 
Hamborgarabúlla á heimsmælikvarða; heimili þeirra vandlátu og einn eftirsóknarverðasti „skyndibitastaður“ á fallegu Grünerløkka. Haltu þér fast; hamborgarinn kostar litlar fjögur þúsund íslenskar krónur og biðröðin liggur langt út á götu á góðu eftirmiðdegi. Ótrúlegar innréttingar í anda þriðja áratugarins, svaðalegur amerískur blær og guðdómlega hallærislegur klæðnaður gengilbeina eru meðal þess sem gera Nighthawk Diner að markverðu minnismerki. Staðurinn opnaði dyrnar um miðbik árs 2010 og hefur skipað sér verðugan sess meðal eftirsóknarverðustu veitingastaða í Osló.

Svo biðraðir höfða ekki til þín? Hringdu og pantaðu borð. Pantanir eru teknar niður milli kl. 10 og 14 alla virka daga ... sendu tölvupóst eða einfaldlega SMS. Var ég annars búin að minnast á að einungis lífrænt nautakjöt er notað við hamborgaragerðina? Smelltu HÉR  til að lesa matseðil Nighthawk Diner  

Listræni útimarkaðurinn undir risavöxnu kristalskrónunni:

Magnaður boðskapur í verslunarglugga í fallegu Osló og sunnudagsmarkaðurinn.

Brenneriveien hýsir ekki bara fallega tónlistarmenn og freistandi veitingar, heldur undursamlegan útimarkað þar sem listamenn af ólíkum uppruna renna saman í eitt á sunnudögum og breiða út vængina. Markaðurinn sem blasir við þegar gengið er inn portið í átt að Blå bar er algerlega magnaður. Þarna er fámála og fingrafima snillinginn að finna, þann hinn sama og hannar fallegu kaffibollana og kökudiskanælurnar. Hér er hæfileikaríkt handverksfólk að finna og jafnvel ilmandi vöfflur sem brosmildar konur framreiða af alúð og snilld. Smelltu HÉR til að skoða staðsetninguna sjálfa á korti, en HÉR finnur þú frekari upplýsingar um sunnudagsmarkaðinn við Blå.

Fallegi Blå og Frank Znort Quartet:

Það kostar ekki allt peninga í hinum stóra heimi; Frank Znort spilar fyrir fullu húsi alla sunnudaga.
Lítill og skrýtinn, skemmtilegur og litríkur. Mekka ófárra tónlistarmanna og paradís þeirra sem njóta lifandi tónlistar. Hér treður eineygði tónlistarmaðurinn upp alla sunnudaga ásamt félögum sínum, sem eru tuttugu og einn talsins og gæða staðinn lífi. Blå bar er upplifun sem enginn ætti í raun að missa af og Brenneriveien númer níu er eitt af best geymdu leyndarmálum Oslóar. Nældu þér í sæti ef þú finnur lausan stól, taktu með þér seðla því barinn tekur ekki kort og blandaðu þér í hópinn. Smelltu HÉR til að heimsækja vefsíðu Blå  en HÉR   til að lesa meira um Frank Znort Quartet.

Klara Egilson er búsett í Osló og ritar af og til ferðagreinar um þau ævintýri sem verða á vegi hennar  í borginni. Hún heldur líka úti litlum ferðavef sem ritaður er á ensku og ber nafnið Beauty is Plain; smellið HÉR






Monday, June 18, 2012

Stattu þig stelpa!


Ég tók einhverju sinni viðtal við ágæta konu. Sem ekki er í frásögur færandi; ég hef tekið óteljandi viðtöl við ágætar konur og allar hafa þær haft eitthvað til málana að leggja. Allar hafa þær skilið eftir örsmá fótspor í hjarta mínu, eins og þær hafi staldrað rétt nægilega lengi við til að sáldra viskukornum í sálina.